70. fundur
stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar á 150. löggjafarþingi
haldinn í Austurstræti 8-10, miðvikudaginn 10. júní 2020 kl. 09:33


Mætt:

Þórhildur Sunna Ævarsdóttir (ÞSÆ) formaður, kl. 09:33
Líneik Anna Sævarsdóttir (LínS) 1. varaformaður, kl. 09:33
Guðmundur Andri Thorsson (GuðmT) 2. varaformaður, kl. 09:33
Andrés Ingi Jónsson (AIJ), kl. 09:33
Brynjar Níelsson (BN), kl. 09:53
Kolbeinn Óttarsson Proppé (KÓP), kl. 09:33
Óli Björn Kárason (ÓBK), kl. 09:33
Þorsteinn Sæmundsson (ÞorS), kl. 09:33
Þórunn Egilsdóttir (ÞórE), kl. 09:33

Nefndarritari: Björn Freyr Björnsson

Brynjar Níelsson vék af fundi 11:47.

Bókað:

1) Fundargerð Kl. 09:33
Frestað.

2) Lindarhvoll ehf. Framkvæmd samnings við umsýslu, fullnustu og sölu á stöðugleikaeignum. Skýrsla til Alþingis Kl. 09:35
Nefndin fjallaði um málið og fékk á sinn fund Sigurð Valtýsson frá Frigus II ehf.

3) 325. mál - þjóðfáni Íslendinga og ríkisskjaldarmerkið Kl. 10:44
Nefndin fjallaði um málið og fékk á sinn fund Þórhall Vilhjálmsson frá lagaskrifstofu Alþingis og Ólöfu Þórarinsdóttur og Guðlaug Ágústsson frá rekstrar- og þjónustusviði Alþingis.

4) Skýrslur Ríkisendurskoðunar Kl. 11:32
Nefndin fjallaði um fyrirliggjandi skýrslur Ríkisendurskoðunar og málsmeðferð þeirra.

5) Önnur mál Kl. 11:41
Nefndin fjallaði um starfið framundan.

Óli Björn Kárason lagði fram eftirfarandi bókun:
Ásakanir og dylgjur formanns stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar, sem komu fram í bókun á fundi 5. júní sl. og endurteknar efnislega í fjölmiðlum og þingsal í garð sex nefndarmanna eru alvarlegar og ekki hægt að sitja undir þeim. Brigsl um vanvirðingu gagnvart réttindum minnihluta, leyndarhyggju og lítilsvirðingu gagnvart hlutverki nefndarinnar sem veiki Alþingi, eru án innistæðu og tilefnislaus.
Þegar ákveðið var að stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd skyldi hefja frumkvæðisathugun á hæfi sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra samkvæmt beiðni þriggja nefndarmanna 6. desember 2019, var engin tilraun gerð af hálfu annarra í nefndinni til að koma í veg fyrir að slík athugun færi fram. Þvert á móti hafði nefndin, að frumkvæði meirihluta, þegar hafið umfjöllun um hæfisreglur ráðherra, með gestakomum sérfræðinga, 25. nóvember og 5. desember.
Formaður telur sig hins vegar þess umkominn að ásaka undirritaðan og aðra nefndarmenn um að virða ekki rétt minnihluta. Á fundinum 6. desember hafnaði formaður beiðni undirritaðs um að aflað yrði upplýsinga frá atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytinu um hvort reynt hafi á yfirlýsingu sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra um hæfi sitt frá 2017, áður en endanleg ákvörðun um frumkvæðisathugun yrði tekin. Það lá því ljóst fyrir í upphafi hver tilgangur formanns með frumkvæðisathugun var í raun enda ekki áhugi á því að tryggja að nauðsynlegar upplýsingar lægu fyrir áður en lagt var af stað. Á sama fundi lagði Þorsteinn Sæmundsson, fulltrúi Miðflokksins, fram bókun þar sem hann lýsti yfir vonbrigðum með málsmeðferð nefndarinnar: „Formaður nýtur ekki míns trausts.“
Aldrei frá því að frumkvæðisathugun á hæfi sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra hófst hefur meirihluti nefndarinnar lagt steina í götur minni hlutans eða staðið í vegi fyrir að gestir kæmu á fund eða upplýsinga aflað. Þvert á móti hefur meirihlutinn tekið fullan þátt í vinnu nefndarinnar, hafði frumkvæði að því að senda ítarlega upplýsingabeiðni í desember sl. til atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytisins með afriti til forsætisráðuneytisins. Réttur formanns og tveggja annarra nefndarmanna til að senda í mars sl. skriflega fjölmargar spurningar til ráðherra, sem hann svaraði skilmerkilega, var virtur af allri nefndinni.
Gögn sem nefndin hefur aflað og umsagnir gesta sem komu á fund nefndarinnar, gefa ekki tilefni til annars en að frumkvæðisathugun verði hætt. Ekkert hefur komið fram um að framkvæmd eða verklag ráðherra hafi farið í bága við lög og reglur. Frumkvæðisathuguninni er því sjálfhætt.
Löngun formanns nefndarinnar til að breyta nefndinni í pólitískan rannsóknarrétt virðist hins vegar mikil. Markmiðið er að nýta trúnaðar- og valdastöðu til að koma höggi á pólitíska mótherja. Tilgangurinn helgar meðalið.
Á fyrsta fundi nefndarinnar á 150. löggjafarþingi þann 16. september 2019, var núverandi formaður sjálfkjörinn. Af því tilefni lagði Líneik Anna Sævarsdóttir, 1. varaformaður, fram bókun þar sem vakin var athygli á að við upphaf kjörtímabilsins hafi verið gengið frá heildarsamkomulagi milli stjórnar og stjórnarandstöðu um skiptingu embætta í nefndir þingsins í samræmi við ákvæði þingskapa. Í því hafi meðal annars falist að tiltekin formannsembætti kæmu í hlut stjórnarandstöðunnar: „Meirihluti stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar lítur svo á að í ljósi heildarsamkomulagsins sé það ekki þeirra hlutverk að taka afstöðu til þess hvernig stjórnarandstaðan hagar þessari skiptingu eða hvaða þingmenn tilnefndir eru af hálfu einstakra flokka.“
Undirritaður átti þess ekki kost að sitja þennan fyrsta fund en þar lagði Brynjar Níelsson, fulltrúi Sjálfstæðisflokksins, fram bókun þar sem sagði meðal annars: „Ég styð ekki tillögu um að Þórhildur Sunna Ævarsdóttir verði formaður stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar Alþingis.“
Þó seint sé, er hér með tekið undir bókun Brynjars Níelssonar frá 16. september sem og bókun Þorsteins Sæmundssonar frá 6. desember 2019.

5.3 Fleira var ekki gert.

Fundi slitið kl. 11:55