74. fundur
stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar á 150. löggjafarþingi
haldinn í Austurstræti 8-10, mánudaginn 22. júní 2020 kl. 09:12


Mætt:

Líneik Anna Sævarsdóttir (LínS) 1. varaformaður, kl. 09:12
Guðmundur Andri Thorsson (GuðmT) 2. varaformaður, kl. 09:12
Andrés Ingi Jónsson (AIJ), kl. 09:12
Jón Þór Ólafsson (JÞÓ), kl. 09:12
Kolbeinn Óttarsson Proppé (KÓP), kl. 09:12
Þorbjörg Sigríður Gunnlaugsdóttir (ÞorbG), kl. 09:12
Þorsteinn Sæmundsson (ÞorS), kl. 09:12
Þórunn Egilsdóttir (ÞórE), kl. 09:12

Brynjar Níelsson og Óli Björn Kárason boðuðu forföll.

Nefndarritari: Björn Freyr Björnsson

Bókað:

1) Fundargerð Kl. 09:12
Fundargerðir 73. og 74. fundar voru samþykktar.

2) Kosning formanns Kl. 09:14
Guðmundur Andri Thorsson lagði til að kosið yrði um formann og að Jón Þór Ólafsson yrði formaður. Var samþykkt að ganga til kosninga.

Andrés Ingi Jónsson, Guðmundur Andri Thorsson og Jón Þór Ólafsson greiddu atkvæði með tillögunni.

Þorsteinn Sæmundsson greiddi atkvæði gegn tillögunni.

Kolbeinn Óttarsson Proppé, Líneik Anna Sævarsdóttir og Þórunn Egilsdóttir sátu hjá.

Líneik Anna Sævarsdóttir lagði fram eftirfarandi bókun:
Við upphaf þessa kjörtímabils var gengið frá heildarsamkomulagi milli ríkisstjórnarflokkanna og stjórnarandstöðuflokkanna um skiptingu embætta í nefndum þingsins í samræmi við ákvæði þingskapa. Í því fólst meðal annars að tiltekin formannsembætti kæmu í hlut stjórnarandstöðunnar og skiptust þau svo milli flokkanna innbyrðis samkvæmt þeirra samkomulagi. Í ljósi heildarsamkomulagsins lít ég þannig á það sé ekki mitt hlutverk að taka afstöðu til þess hvernig stjórnarandstaðan hagar þessari skiptingu eða hvaða þingmenn eru tilnefndir af hálfu einstakra flokka.
Kolbeinn Óttarsson Proppé og Þórunn Egilsdóttir tóku undir bókunina.

3) 334. mál - Alþingi sem fjölskylduvænn vinnustaður Kl. 09:18
Nefndin ræddi málið.

Samþykkt að ljúka athugun málsins með bréfi til forseta Alþingis og skrifstofustjóra Alþingis.

4) Önnur mál Kl. 09:37
Guðmundur Andri Thorsson lagði fram eftirfarandi bókun við yfirlýsingu meiri hluta nefndarinnar í fjölmiðlum, 20. júní sl.
Yfirlýsing meirihluta stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar frá 20. júní sl. leiðir í sjálfu sér ekki annað í ljós en að frá upphafi hefur ríkt mikil tregða við það innan nefndarinnar að tekið sé til skoðunar hæfi sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra þegar kemur að málefnum Samherja. Rétt er að minna á að í kjölfar Kastljóssþáttar um viðskiptahætti fyrirtækisins í Namibíu varð mikil umræða í samfélaginu um fyrirtækið og tengsl ráðherrans við það, en í þættinum kom meðal annars fram að hann hefði hitt að máli namibíska ráðamenn í húsakynnum Samherja. Andstætt því sem þráfaldlega hefur komið fram í máli nokkurra nefndarmanna teljum við að tengsl ráðherrans við Samherja séu svo sterk að sjálfsagt hafi verið að nefndin taki hæfi hans til sjálfstæðrar skoðunar. Því til stuðnings er nærtækast að vísa til yfirlýsingar ráðherrans sjálfs frá 12. desember 2017, þar sem hann segir að komi upp mál sem snerta Samherja sérstaklega muni hann að sjálfsögðu meta hæfi sitt. Raunar er vandséð hvaða ákvarðanir um sjávarútveg á Íslandi varða ekki þetta fyrirtæki sem hefur svo stóra hlutdeild af kvóta og á ráðandi hlut í fyrirtækjum sem skilgreind eru sem óskyldir aðilar, eins og Síldarvinnslunni í Neskaupsstað.

Eins og meirihlutinn nefnir í yfirlýsingu sinni liggur nú fyrir niðurstaða forseta Alþingis um það hvernig hann telur vænlegast að ljúka frumkvæðisathugunum af þessu tagi, en meirihlutinn treysti sér ekki til að bíða niðurstöðunnar, svo mjög lá á að loka málinu. Forseti nefnir sjö leiðir, þar á meðal þá sem meirihlutinn valdi í þessu máli. Þær málalyktir sýna að meirihluti nefndarinnar telur ekki að tengsl sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra við Samherja þurfi sérstakrar skoðunar við. Við erum ósammála því mati. Hitt er umhugsunarvert að út frá túlkun forseta virðist meirihluti nefndarinnar hverju sinni hafa möguleika á því að kæfa frumkvæðisathuganir á verklagi eða hæfi ráðherra sama daginn og minnihlutinn fer fram á þær, en slík málalok grafa undan þeirri vernd sem minnihluti nefndarinnar þarf að njóta til að sýna framkvæmdavaldinu nauðsynlegt aðhald hverju sinni. Með því að velja þessa leið í Samherjamálinu virðist meirihlutinn vera staðráðinn í að koma í veg fyrir að þessi mikilvæga þingnefnd fái að starfa eins og henni er ætlað.
Andrés Ingi Jónsson tók undir bókunina.

Fleira var ekki gert.

Fundi slitið kl. 09:42