Fyrirspurn fjórðungs nefndarmanna stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar, sem óskað var eftir á fundi nefndarinnar 4. mars sl., sbr. 1. mgr. 51. gr. og 8. tölul. 1. mgr. 13. gr. laga um þingsköp Alþingis, til sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra

Stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd hefur til umfjöllunar frumkvæðisathugun á hæfi Kristjáns Þórs Júlíussonar, sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra, í ljósi stöðu hans gagnvart útgerðarfyrirtækinu Samherja. Þann 17. desember 2019 sendi nefndin með tölvupósti upplýsingabeiðni til atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytis þar sem óskað var eftir skriflegri greinargerð með upplýsingum um:

 1. Hvort og þá með hvaða hætti reynt hafi á hæfi ráðherra, á starfstíma ríkisstjórnarinnar, í málum er tengjast Samherja og/eða tengdum aðilum.
 2. Hvernig hæfi ráðherra í atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytinu er metið, verkferla og verklag, m.t.t. skráðra sem og óskráðra hæfisreglna stjórnsýsluréttar.
 3. Hvaða lög/lagaákvæði liggja til grundvallar mati á hæfi ráðherra og mati á tengdum aðilum.
Í svari ráðherra, sem barst 17. janúar 2020, kemur fram á bls. 3:
„Með hliðsjón af því að ráðherra á engra hagsmuna að gæta gagnvart fyrirtækinu [Samherja] og á engin tengsl við það önnur en að hafa um áratugaskeið þekkt einn aðaleiganda félagsins, þáverandi forstjóra þess, var það mat ráðherra að þau tengsl yllu ekki vanhæfi hans í málum sem vörðuðu ekki mikilsverða hagsmuni. í því fólst að starfsmenn ráðuneytisins voru hæfir til afgreiðslu stjórnvaldsúrskurða sem beindust að félaginu.“

Með hliðsjón af framangreindu er óskað eftir svörum við eftirfarandi spurningum:

 1. Taldi ráðherra starfsmenn hæfa til afgreiðslu allra stjórnvaldsúrskurða sem snertu málefni Samherja eða dótturfélaga þess, eða einungis þeirra sem vörðuðu ekki mikilsverða hagsmuni?
 2. Hvernig er lagt mat á mikilsverða hagsmuni innan ráðuneytisins?
 3. Eru til verkferlar, vinnureglur, minnispunktar eða önnur leiðbeinandi gögn innan ráðuneytisins um hvernig meta skuli hagsmuni Samherja, hvort sem þeir eru fjárhagslegir, beinir eða óbeinir, eða tengdra félaga af þeim fjölbreyttu ákvörðunum og athöfnum sem ráðherrann framkvæmir gagnvart:
  1. Gerð frumvarpsdraga?
  2. Gerð og framkvæmd stjórnvaldsfyrirmæla?
  3. Við framkvæmd frumkvæðis- og eftirlitsskyldna ráðherra?
  4. Við aðrar embættisfærslur ráðherra?
   Afrit óskast af viðkomandi gögnum séu þau fyrir hendi. 
 4. Í svari ráðherra kemur fram að hann teljist hæfur í málum Samherja og tengdra aðila svo lengi sem hagsmunir þeirra væru ekki mikilsverðir. Hvernig voru hagsmunir Samherja og tengdra aðila af þeim þremur stjórnsýslukærum sem ráðherra sagði sig frá í desember 2019 og í úrskurðarmálunum tveimur sem vísað er til á bls. 3-4 þegar kærur bárust metnir og hvenær í ferlinu? Óskað er eftir afriti af slíku hagsmunamati. 
 5. Á opnum fundi nefndarinnar með ráðherra ítrekaði hann þau sjónarmið sem fram komu í svari ráðherra til nefndarinnar um að „[…] ráðherra á engra hagsmuna að gæta gagnvart fyrirtækinu [Samherja] og á engin tengsl við það önnur en að hafa um áratugaskeið þekkt einn aðaleiganda félagsins, þáverandi forstjóra þess […]“
  1. Telur ráðherra að stjórnarseta, stjórnarformennska og sjómennska fyrir Samherja á árunum 1996-2000 og árin 2010 og 2012, hafi hvorki áhrif á hæfi ráðherra gagnvart Samherja né að þessi störf skuli teljast tengsl við félagið? 
  2. Telur ráðherra að styrkir fyrirtækisins til framboðs ráðherrans í prófkjöri innan Sjálfstæðisflokksins árin 2007 og 2013, samtals að andvirði 600.000 kr. hafi engin áhrif á hæfi ráðherra gagnvart Samherja?
 6. Ef svarið við spurningum 5. a og 5. b er neikvætt, er óskað eftir því að ráðherra rökstyðji hvað breyttist í afstöðu hans frá því að hann skrifaði eftirfarandi færslu á Facebook, 12. desember 2017, :
  „Í því samhengi er mér ljúft og skylt að upplýsa að við Þorsteinn Már Baldvinsson, forstjóri Samherja, höfum þekkst síðan við vorum ungir menn. Fyrir um tuttugu árum (1996–2000) sat ég í stjórn Samherja, þar af sem stjórnarformaður í u.þ.b. eitt og hálft ár. Samtals 27 daga, í ágúst 2010 og júlí 2012, fór ég sem háseti á makrílveiðar. Einu launin sem ég hef þegið hjá fyrirtækinu eru fyrir áðurnefnda stjórnarsetu þar sem stjórnarlaun voru tæp 30 þúsund á mánuði og stjórnarformaður fékk tvöföld þau laun. Hásetahluturinn fyrir veiðitúrinn í ágúst 2010 var 1.374.929 kr og í júlí 2012 1.661.800 kr..

  Fyrirtækið hefur síðan tvisvar styrkt framboð mitt í prófkjöri innan Sjálfstæðisflokksins, 500 þúsund kr. árið 2007 og 100 þúsund kr. árið 2013.

  Ég tel mig vera hæfan til þess að taka ákvarðanir um málefni sem snerta sjávarútveginn á Íslandi í heild sinni. Komi upp mál sem snerta Samherja sérstaklega mun ég að sjálfsögðu meta hæfi mitt í ljósi framangreinds líkt og allir stjórnmálamenn þurfa að gera þegar fjölskyldu-, vina- og kunningjatengsl gætu haft áhrif á afstöðu til einstakra mála.“
 7. Í svari ráðherra er enn fremur vísað til tveggja stjórnsýslukæra sem varða málefni Samherja beint og þær skýringar gefnar að:
  „Afgreiðsla þessara mála, sem ekki voru talin veigamikil, var í samræmi við venjubundna framkvæmd ráðuneytisins í sambærilegum málum. Hvorki ráðherra né ráðuneytisstjóra var því gert kunnugt um að mál þessi væru til meðferðar í ráðuneytinu.“
  1. Teljast áminningar Fiskistofu almennt fela í sér veigalitla hagsmuni gagnvart þeim sem áminningar hljóta?
  2. Hvernig er venjubundinni framkvæmd ráðuneytisins í sambærilegum málum háttað? 
 8.  Telur ráðherra að óskráðar hæfisreglur stjórnsýsluréttar eigi við um athafnaskyldur og eftirlitsskyldur ráðherra?
 9. Hvers konar embættisathöfn ráðherra er það hafa frumkvæði að því að Matvæla- og landbúnaðarstofnun Sameinuðu þjóðanna (FAO) vinni úttekt á viðskiptaháttum útgerða sem stunda veiðar og eiga í viðskiptum með aflaheimildir þ. á m. í þróunarlöndum?
 10. Hvað lá til grundvallar vinnu verkefnisstjórnar um bætt eftirlit með fiskveiðiauðlindinni af hálfu ráðherra? Afrit óskast af skipunarbréfinu og öðrum fyrirmælum, tilmælum eða leiðbeiningum ráðherra sem kunna að vera til til verkefnahópsins.
 11. Á hvaða grunni ákvað ráðherra að mæla með því að útvegsfyrirtæki sem færu yfir lögbundið kvótaþak á grunni breyttrar skilgreiningar á tengdum aðilum fengju sex ár til þess að koma sér í lögbundið kvótahlutfall?
 12. Telur ráðherra að líta beri til tengsla Samherja við Síldarvinnsluna við mat á hæfi ráðherra, komi upp mál tengd Síldarvinnslunni?
 13. Hafa mál tengd Síldarvinnslunni verið til meðferðar í ráðuneytinu frá því að ráðherra tók við embætti?
 14. Hefur ráðherra fundað með forsvarsmönnum Samherja, setið samráðsfundi eða átt óformlega fundi með forsvarsmönnum Samherja frá því að hann tók við embætti? Spurt er um fundi innan og utan ráðuneytisins. Jafnframt er óskað eftir gögnum um skráningu slíkra samskipta, sbr. reglur um skráningu samskipta í Stjórnarráði Íslands.
 15. Hefur ráðherra þegið eða afþakkað gjafir frá Samherja eða tengdum félögum frá því að hann tók við embætti?
 16. Liggja fyrir skaðabótakröfur frá Samherja eða tengdum félögum hjá ríkislögmanni sem falla undir málefnasvið ráðherrans? Fer ríkislögmaður með einhver mál fyrir hönd ráðherra gagnvart Samherja eða tengdum félögum? Ef svo er, hvaða mál?
Óskað er eftir að svör berist í síðasta lagi fyrir lok dags, 23. mars nk.