Stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd óskar eftir upplýsingum vegna frumkvæðisathugunar á hæfi ráðherra

Stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd hefur sent meðfylgjandi upplýsingabeiðni til atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytisins vegna frumkvæðisathugunar á hæfi Kristjáns Þórs Júlíussonar sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra, í ljósi stöðu hans gagnvart útgerðarfyrirtækinu Samherja:

„Á fundi stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar, 6. desember 2019, samþykkti fjórðungur nefndarmanna að hefja frumkvæðisathugun á hæfi Kristjáns Þórs Júlíussonar, sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra, í ljósi stöðu hans gagnvart útgerðarfyrirtækinu Samherja.

Athugunin lúti að verklagi ráðherra ásamt verkferlum og framkvæmd ráðherra sem og ráðuneyti hans í tengslum við Samherja og tengd félög, skv. skilgreiningum í lögum um ársreikninga. Hæfi ráðherra skuli skoðað með tilliti til skráðra sem og óskráðra hæfisreglna stjórnsýsluréttar.

Vegna þessa óskar stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd eftir skriflegri greinargerð með upplýsingum um:

  1. Hvort og þá með hvaða hætti reynt hafi á hæfi ráðherra, á starfstíma ríkisstjórnarinnar, í málum er tengjast Samherja og/eða tengdum aðilum.
  2. Hvernig hæfi ráðherra í atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytinu er metið, verkferla og verklag, m.t.t. skráðra sem og óskráðra hæfisreglna stjórnsýsluréttar.
  3. Hvaða lög/lagaákvæði liggja til grundvallar mati á hæfi ráðherra og mati á tengdum aðilum.

Svar óskast eigi síðar en 17. janúar 2020.“