15. fundur
utanríkismálanefndar á 141. löggjafarþingi
haldinn í Austurstræti 8-10, miðvikudaginn 28. nóvember 2012 kl. 15:26


Mættir:

Árni Þór Sigurðsson (ÁÞS) formaður, kl. 15:26
Gunnar Bragi Sveinsson (GBS), kl. 15:26
Jón Bjarnason (JBjarn), kl. 15:26
Mörður Árnason (MÁ), kl. 15:26
Ragnheiður E. Árnadóttir (REÁ), kl. 15:26

Nefndarritari: Þröstur Freyr Gylfason

Bókað:

1) Fundargerð síðasta fundar. Kl. 15:26
Umfjöllun nefndarinnar um dagskrármálið var frestað.

2) Mál í vinnslu innan EFTA (2. gr. mál sem eru hjá fastanefndum Alþingis).
- Rg. (EB) nr. 1901/2006 um lyf fyrir börn.
- Rg. ESB um eftirlitskerfi með fjármálamörkuðum Evrópu.
Kl. 15:28
Á fund nefndarinnar komu Bergþór Magnússon frá utanríkisráðuneyti, Sif Guðjónsdóttir frá forsætisráðuneyti, Leifur Arnkell Skarphéðinsson frá atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneyti, Áslaug Einarsdóttir frá velferðarráðuneyti, og Helga Þórisdóttir og Jóhann M. Lenharðsson frá Lyfjastofnun. Fjölluðu þau um málin og svöruðu spurningum nefndarmanna.

3) 415. mál - stjórnarskipunarlög Kl. 16:26
Nefndin hélt áfram umfjöllun um málið.

4) Samráð þings og ráðherra í utanríkismálanefnd. Kl. 16:38
Lagt var fram minnisblað frá skrifstofu Alþingis til formanns utanríkismálanefndar um samráð þings og ráðherra í utanríkismálanefnd, dags. 27. nóvember 2012.

Á fund nefndarinnar kom Þórhallur Vilhjálmsson frá skrifstofu Alþingis. Fjallaði hann um efni minnisblaðsins og svaraði spurningum nefndarmanna.

5) 12. samningskafli - matvælaöryggi. Kl. 17:24
Nefndin hélt áfram umfjöllun sinni um samningskaflann. Formaður vakti athygli nefndarmanna á að fyrir lægju ný drög að samningsafstöðu Íslands um 12. kafla – Matvælaöryggi, dýra- og plöntuheilbrigði.

Eftirfarandi bókun var lögð fram af Árna Þór Sigurðssyni:

„Bókun vegna umfjöllunar í utanríkismálanefnd um 12. kafla, Matvælaöryggi og dýra- og plöntuheilbrigði, í aðildarviðræðum við Evrópusambandið.

Utanríkismálanefnd Alþingis hefur á 8 fundum fjallað um drög að samningsafstöðu Íslands í aðildarviðræðum við Evrópusambandið um 12. kafla, Matvælaöryggi og dýra- og plöntuheilbrigði. Nefndin hefur fengið á sinn fund bæði ráðherra, fulltrúa ráðuneyta og stofnana og hagsmunaaðila. Að frumkvæði nefndarinnar hafa drögin að samningsafstöðu tekið umtalsverðum breytingum, m.a. til að mæta réttmætum athugasemdum nefndarmanna og Bændasamtakanna. Sérstaklega hafa hinar vísindalegu röksemdir fyrir sérstöðu Íslands og íslenskra dýrastofna verið styrktar til muna. Ber sérstaklega að þakka framlag íslenskra vísindamenn og fulltrúa Bændasamtakanna sem hafa lagt mikla vinnu í að samningsafstöðuna og lýstu þeir ánægju með þær breytingar á fundi með nefndinni þann 11.10 sl.

Í nefndaráliti meirihluta utanríkismálanefndar við afgreiðslu þingsályktunar um aðildarviðræður við ESB, sem umboð stjórnvalda hvílir á, segir m.a.:

„Ljóst er að íslenskur landbúnaður í heild sinni er lykillinn að fæðuöryggi landsins, þ.e. að nægur matur sé til í landinu, ef þörf krefur. Í því sambandi leggur meiri hlutinn einnig áherslu á matvælaöryggi en hér á landi eru búfjárstofnar afar viðkvæmir fyrir mögulegum utanaðkomandi sýkingum og mikilvægt er að íslensk stjórnvöld geti gripið til nauðsynlegra ráðstafana til verndar íslenskum búfjárstofnum enda hefur náðst markverður árangur hér á landi í dýraheilbrigðismálum og matvælaöryggi. Ísland hefur til þessa samkvæmt EES-samningnum verið undanþegið viðskiptum með lifandi dýr. Undanþágan var tímabundin til ársins 2000, en búið er að ganga frá því í tengslum við matvælalöggjöfina að undanþágan er nú varanleg innan EES-samningsins. Meiri hlutinn telur rétt að kröfu um að þessari undanþágu verði framhaldið fyrir Ísland verði haldið uppi í mögulegum aðildarviðræðum. Vísað er í því efni til landfræðilegrar einangrunar landsins sem leitt hefur af sér búfjárstofna sem sérstök ástæða er til að vernda gegn beinni utanaðkomandi ásókn. Tryggja þarf stöðu landbúnaðarins eftir sem áður. Afar mikilvægt er að halda fast á málum að því er varðar að tryggja áframhaldandi matvælaöryggi hér á landi, þ.e. heilbrigði matvæla fyrir neytendur, og er í því efni mikilvægt að horfa til allrar fæðukeðjunnar. Mikilvægt er að tryggja sem best ákveðinn sveigjanleika til aðgerða hér á landi til að tryggja áfram öflugar sjúkdómavarnir. Slíkt er lykilatriði til að tryggja áfram heilnæmi og sérstöðu þeirra afurða sem framleiddar eru hér á landi í hefðbundnum búskap.“

Enginn ágreiningur er í utanríkismálanefnd um þessa afstöðu. Í drögum að samningsafstöðu er nú tekið fram að það skipti sköpum fyrir Ísland að banni við innflutningi lifandi dýra verði viðhaldið og að dýraheilbrigðislöggjöf ESB gildi ekki að því er varðar Ísland til þess að gera yfirvöldum dýraheilbrigðismála í landinu kleift meðal annars að viðhalda núverandi kerfi sóttvarnasvæða og vörnum gegn dýrasjúkdómum, svo einstæð staða sjúkdóma í búfé á Íslandi megi haldist óbreytt. Þessari afdráttarlausu afstöðu ber að fagna og undirstrika að frá henni verður ekki vikið nema með samþykki Alþingis. Að mati undirritaðs kæmi slíkt ekki til greina.“

* * *

Formaður sagði umfjöllun nefndarinnar í samráðsferli um 12. samningskafla lokið.

* * *

Eftirfarandi bókun var lögð fram:

„Bókun í utanríkismálanefnd 28. nóvember 2012

Utanríkismálanefnd hefur fjallað um samningsafstöðu 12. kafla um Matvælaöryggi og dýra- og plöntuheilbrigði síðan í ágúst. Á fundi nefndarinnar þann 28. nóvember 2012 ákvað formaður nefndarinnar að láta umfjöllun um kaflann lokið og senda hann til ríkisstjórnarinnar. Þrátt fyrir að samningsafstaðan hafi tekið jákvæðum breytingum telja undirrituð að nauðsynlegt sé að styrkja orðalag samningsafstöðunnar frekar til þess að tryggja íslenska hagsmuni. Því förum við fram á að umfjöllun verði haldið áfram og áskiljum við okkur rétt til þess að taka málið aftur upp í nefndinni síðar.

Enn fremur lýsa undirrituð áhyggjum af því fordæmi sem orðalag 12. kafla setur fyrir þá kafla sem eftir er að móta samningsafstöðu til, sbr. kafla 11 um landbúnað og kafla 13 um sjávarútvegsmál. Þarna er um ófrávíkjanlega grundvallarhagsmuni Íslands að ræða og nauðsynlegt að kröfur séu settar fram með þeim hætti að á því leiki enginn vafi.

Ragnheiður E. Árnadóttir,
Gunnar Bragi Sveinsson,
Bjarni Benediktsson,
Sigmundur Davíð Gunnlaugsson.“

* * *

6) 281. mál - ákvörðun EES-nefndarinnar nr. 181/2012 um breytingu á XIX. viðauka við EES-samninginn Kl. 17:42
Umfjöllun nefndarinnar um dagskrárliðinn var frestað.

7) 278. mál - ákvörðun EES-nefndarinnar nr. 158/2012 um breytingu á II. viðauka við EES-samninginn Kl. 17:42
Nefndin lauk umfjöllun sinni um málið.

Formaður lét dreifa drögum að nefndaráliti. Að álitinu stóðu Árni Þór Sigurðsson, Gunnar Bragi Sveinsson, Jón Bjarnason, Mörður Árnason, Ragnheiður E. Árnadóttir.

8) 99. mál - ákvörðun EES-nefndarinnar nr. 149/2012 um breytingu á XVIII. viðauka við EES-samninginn Kl. 17:44
Nefndin lauk umfjöllun sinni um málið.

Formaður lét dreifa drögum að nefndaráliti. Að álitinu stóðu Árni Þór Sigurðsson, Gunnar Bragi Sveinsson, Jón Bjarnason, Mörður Árnason, Ragnheiður E. Árnadóttir.

9) Önnur mál. Kl. 17:46
a) Formaður gerði grein fyrir erindi frá utanríkisráðuneyti dags. 12. nóvember 2012, ásamt minnisblaði í fylgiskjali frá atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneyti dags. 9. nóvember 2012, um tilskipun um orkunýtni. Nefndin hóf umfjöllun um málið og ákvað að óska eftir kynningu viðkomandi ráðuneyta.

b) Formaður gerði grein fyrir álitsbeiðni frá umhverfis- og samgöngunefnd í 381. máli um frumvarp til laga um breytingu á lögum nr. 70/2012, um loftslagsmál (skráningarkerfi losunarheimilda, EES-reglur). Nefndin hóf umfjöllun um málið og ræddi um fyrirhugaða málsmeðferð.

Fleira var ekki gert.

Árni Páll Árnason, Bjarni Benediktsson, Helgi Hjörvar og Sigmundur Davíð Gunnlaugsson voru fjarverandi.

Fundi slitið kl. 17:51