48. fundur
utanríkismálanefndar á 144. löggjafarþingi
haldinn í Austurstræti 8-10, mánudaginn 15. júní 2015 kl. 10:00


Mættir:

Birgir Ármannsson (BÁ) formaður, kl. 10:06
Vilhjálmur Bjarnason (VilB) 2. varaformaður, kl. 10:06
Anna María Elíasdóttir (AME), kl. 10:06
Birgitta Jónsdóttir (BirgJ), kl. 10:06
Elín Hirst (ElH), kl. 10:06
Frosti Sigurjónsson (FSigurj), kl. 10:09
Katrín Jakobsdóttir (KJak), kl. 10:06
Óttarr Proppé (ÓP), kl. 10:06
Silja Dögg Gunnarsdóttir (SilG), kl. 10:06
Össur Skarphéðinsson (ÖS), kl. 10:06

Hlé var gert á fundi kl. 10:25-10:35.

Silja Dögg Gunnarsdóttir vék af fundi kl. 11:30. Birgitta Jónsdóttir vék af fundi kl. 11:45.

Nefndarritarar:
Sesselja Sigurðardóttir
Stígur Stefánsson

1672. fundur utanríkismálanefndar.

Bókað:

1) 579. mál - alþjóðleg þróunarsamvinna Íslands o.fl. Kl. 10:06
Nefndin lauk umfjöllun sinni um málið.

Meiri hlutinn ákvað að afgreiða málið út úr nefnd í andstöðu við minni hlutann. Að nefndaráliti standa Birgir Ármannsson, formaður og framsögumaður, Anna María Egilsdóttir, Elín Hirst, Frosti Sigurjónsson og Vilhjálmur Bjarnason með fyrirvara.

Minnihlutinn lagði fram eftirfarandi bókun:

„Fulltrúar stjórnarandstöðunnar í utanríkismálanefnd leggjast alfarið gegn því að frumvarp um þróunarmál, sem miðar að því að leggja niður Þróunarsamvinnustofnun, verði afgreitt frá nefndinni án þess að fá tækifæri til að ræða efni frumvarpsins við lykilstofnanir, s.s. Ríkisendurskoðun, en flutningur verkefna frá sjálfstæðri stofnun inn í ráðuneyti er í andstöðu við ítrekaðar ráðleggingar Ríkisendurskoðunar um góða stjórnsýslu og skýr mörk framkvæmdar og eftirlits. Vinnubrögð af þessu tagi eru í andstöðu við hefðbundið verklag þingnefnda og koma í veg fyrir að þingmenn geti uppfyllt rannsóknarskyldu sína. Allir umsagnaraðilar og sérfræðingar sem nefndin hefur rætt við hafa borið lof á ÞSSÍ fyrir skilvirkni og góða meðferð þróunarfjár. Niðurlagningu stofnunarinnar er lýst af félagsvísindadeild HÍ sem „bráðræði.“ Þvert á stefnu frumvarpsins um að leggja Þróunarsamvinnustofnun Íslands niður hafa komið fram tillögur í vinnu nefndarinnar um að starf Íslands í þróunarsamvinnu mætti efla með því að flytja til stofnunarinnar öll þau marghliða verkefni innan málaflokksins sem nú er sinnt af ráðuneytinu sjálfu. Engin tilraun var gerð af hálfu nefndarinnar til að skoða þá leið. Þingmenn Samfylkingar, VG, Bjartrar framtíðar og Pírata harma þessi vinnubrögð og telja ámælisvert að meirihlutinn treysti sér ekki til að fá lykilstofnun Alþingis, Ríkisendurskoðun, til viðræðna um frumvarpið.“

2) 695. mál - þjóðaröryggisstefna fyrir Ísland Kl. 10:36
Nefndin hélt áfram umfjöllun sinni um málið.

3) 127. mál - fríverslunarsamningur við Japan Kl. 11:15
Nefndin lauk umfjöllun sinni um málið. Að áliti nefndarinnar standa Birgir Ármannsson, formaður, Vilhjálmur Bjarnason, framsögumaður, Anna María Elíasdóttir, Elín Hirst, Frosti Sigurjónsson, Katrín Jakobsdóttir, Óttarr Proppé, Silja Dögg Gunnarsdóttir og Össur Skarphéðinsson.

4) 480. mál - heimild fulltrúa Vestnorræna ráðsins til að senda fyrirspurnir til ráðherra Kl. 11:27
Nefndin lauk umfjöllun sinni um málið. Að áliti nefndarinnar standa Birgir Ármannsson, formaður, Óttarr Proppé, framsögumaður, Anna María Elíasdóttir, Elín Hirst, Frosti Sigurjónsson (með fyrirvara), Katrín Jakobsdóttir, Vilhjálmur Bjarnason og Össur Skarphéðinsson.
Þá lýsti Birgitta Jónsdóttir, áheyrnaraðili, sig samþykka álitinu.

Silja Dögg Gunnarsdóttir óskaði eftir því að standa að álitinu þrátt fyrir fjarveru við afgreiðslu málsins, sbr. 4. mgr. 18. gr. starfsreglna fastanefnda.

5) Önnur mál Kl. 11:47
Fleira var ekki gert.

Fundi slitið kl. 11:50