16. fundur
utanríkismálanefndar á 146. löggjafarþingi
haldinn í forsætisnefndarherbergi, mánudaginn 24. apríl 2017 kl. 12:30


Mættir:

Jóna Sólveig Elínardóttir (JSE) formaður, kl. 12:30
Vilhjálmur Bjarnason (VilB) 1. varaformaður, kl. 12:30
Bryndís Haraldsdóttir (BHar) 2. varaformaður, kl. 12:30
Birgir Ármannsson (BÁ), kl. 12:30
Rósa Björk Brynjólfsdóttir (RBB), kl. 12:30
Smári McCarthy (SMc) fyrir Ástu Guðrúnu Helgadóttur (ÁstaH), kl. 12:30
Steinunn Þóra Árnadóttir (SÞÁ), kl. 12:30
Teitur Björn Einarsson (TBE), kl. 12:30

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson var fjarverandi.

Nefndarritari: Gunnþóra Elín Erlingsdóttir

1765. fundur utanríkismálanefndar.

Birgir Ármannsson vék af fundi kl. 12:49.

Bókað:

1) Fundur sameiginlegu EES-nefndarinnar 5. maí 2017 Kl. 12:30
Á fund nefndarinnar komu Finnur Þór Birgisson og Una Særún Jóhannsdóttir frá utanríkisráðuneyti, Jón Fannar Kolbeinsson frá velferðarráðuneyti, Ólafur Grétar Kristjánsson og Daði Heiðar Kristinsson frá mennta- og menningarmálaráðuneyti og Elísabet Anna Jónsdóttir og Erla Sigríður Gestsdóttir frá atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneyti.

Gestirnir gerðu grein fyrir málinu og svöruðu spurningum nefndarmanna.

Fulltrúar Vinstri hreyfingarinnar - græns framboðs lögðu fram eftirfarandi bókun:

„Fulltrúar VG gera athugasemdir við þann skamma tíma sem gefinn var fyrir nefndarmenn utanríkismálanefndar til að kynna sér efni EES-pakkans sem innihélt 36 gerðir til upptöku, þar af 3 sem kalla á lagabreytingar. Tölvupóstur var sendur út kl. 17.10 á föstudeginum með lista yfir gerðirnar og boðað til fundar með sérfræðingahópi ráðuneytanna kl. 12.30 á mánudegi eftir að öðrum nefndarfundum lauk og aðeins var gefinn hálftími með sérfræðingum til að spyrja spurninga. Þetta er alltof skammur tími fyrir nefndarmenn til að kynna sér málin, og það yfir helgi, og alltof skammur tími að halda hálftíma fund með sérfræðingum til að spyrja spurninga. Fulltrúar VG í utanríkismálanefnd vilja minna á að þrátt fyrir að einhverjar gerðanna hafi fengið umfjöllun á síðasta kjörtímabili, þá eru nýir þingmenn í nefndinni sem ekki tóku þátt í því ferli. Þessi mikli flýtir á afgreiðslu EES-gerðanna er ekki til þess fallinn að umfjöllun utanríkismálanefndar verði eins fagleg og upplýsandi og nauðsynlegt er. Minna fulltrúar VG í því sambandi á að hlutverk fastanefnda Alþingis felst ekki í því að „stimpla“ mál úr nefndinni fyrir ráðuneytin, heldur fjalla um þau. Einnig er minnt á eftirlitshlutverk Alþingis í þessu samhengi.“

2) 264. mál - ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar nr. 92/2016 um breytingu á XI. viðauka við EES-samninginn Kl. 12:55
Á fund nefndarinnar komu Finnur Þór Birgisson og Una Særún Jóhannsdóttir frá utanríkisráðuneyti, Vera Sveinbjörnsdóttir frá innanríkisráðuneyti og Hrafnkell V. Gíslason, Björn Geirsson og Guðmann B. Birgisson frá Póst- og fjarskiptastofnun.

Gestirnir kynntu málið og svöruðu spurningum nefndarmanna.

Þegar gestir höfðu vikið af fundi kynnti formaður drög að nefndaráliti og lagði til að málið yrði afgreitt. Nefndin lauk nefndin umfjöllun sinni um máið. Bryndís Haraldsdóttir var valin framsögumaður málsins. Að nefndaráliti standa Jóna Sólveig Elínardóttir form., Bryndís Haraldsdóttir frsm., Rósa Björk Brynjólfsdóttir, Smári McCarthy, Steinunn Þóra Árnadóttir, Teitur Björn Einarsson og Vilhjálmur Bjarnason. Birgir Ármannsson var fjarverandi við afgreiðslu málsins en ritar undir álitið samkvæmt heimild í 4. mgr. 18. gr. starfsreglna fyrir fastanefndir Alþingis.

3) Önnur mál Kl. 13:06
Fleira var ekki gert.

Fundi slitið kl. 13:08