69. fundur
velferðarnefndar á 150. löggjafarþingi
haldinn í Austurstræti 8-10, mánudaginn 11. maí 2020 kl. 18:00


Mætt:

Helga Vala Helgadóttir (HVH) formaður, kl. 18:00
Ólafur Þór Gunnarsson (ÓGunn) 1. varaformaður, kl. 18:00
Ásmundur Friðriksson (ÁsF) 2. varaformaður, kl. 18:00
Anna Kolbrún Árnadóttir (AKÁ), kl. 18:00
Guðmundur Ingi Kristinsson (GIK), kl. 18:00
Halla Signý Kristjánsdóttir (HSK), kl. 18:00
Halldóra Mogensen (HallM), kl. 18:00
Hanna Katrín Friðriksson (HKF), kl. 18:12
Lilja Rafney Magnúsdóttir (LRM), kl. 18:00
Vilhjálmur Árnason (VilÁ), kl. 18:00

Nefndarritari: Arnar Kári Axelsson

Fundurinn var fjarfundur og voru allir tengdir fundinum í gegnum fjarfundabúnað, sbr. afbrigði sem veitt voru skv. 95. gr. við 17. og 22. gr. laga um þingsköp Alþingis, nr. 55/1991, á þingfundi 12. mars sl.

Bókað:

1) Fundargerð Kl. 18:00
Frestað.

2) Réttur til atvinnuleysisbóta vegna minnkaðs starfshlutfalls Kl. 18:00
18:00 Á fund nefndarinnar mættu Gissur Pétursson og Bjarnheiður Gautadóttir frá félagsmálaráðuneytinu. Fjölluðu þau um málið og svöruðu spurningum nefndarmanna.

18:46 Á fund nefndarinnar mættu Magnús M. Norðdahl frá Alþýðusambandi Íslands og Lára V. Júlíusdóttir. Fjölluðu þau um málið og svöruðu spurningum nefndarmanna.

Ólafur Þór Gunnarsson, Lilja Rafney Magnúsdóttir, Halla Signý Kristjánsdóttir og Vilhjálmur Árnason lögðu fram eftirfarandi bókun:
„Undirrituð vilja að gefnu tilefni árétta að hlutabótaúrræðið er hugsað til að tryggja áframhaldandi ráðningarsamband launamanns við atvinnurekanda. Úrræðið er, eins og fram kemur í lögunum, hugsað vegna rekstrarvanda vegna heimsfaraldurs kórónuveiru og ekki ætlað fyrirtækjum sem almennt úrræði til þess að draga úr kostnaði.Við lýsum miklum vonbrigðum með að fyrirtæki hafi reynt að fá launafólk til að samþykkja þátttöku í úrræðinu án þess að rekstrarvandi væri til staðar. Er því beint því til Vinnumálastofnunar að skoðað verði hvort veruleg brögð hafi verið að því að úrræðið hafi verið misnotað og bregðist við með viðeigandi hætti.“

Halldóra Mogensen lagði fram eftirfarandi bókun:
„Formaður nefndarinnar lagði til að velferðarnefnd flytji frumvarp til að girða fyrir að rekstraraðilar sem nýttu sér hlutabótaúrræði ríkisstjórnarinnar gætu greitt sér út arð eða keypt hlutabréf á meðan þeir nytu ríkisaðstoðar. Almennt á ríkisvaldið ekki að verja almannafé til stuðnings fyrirtækjum sem nota fjármunina til þess að greiða eigendum sínum arð eða annan hagnað. Í fordæmalausum efnahagsþrengingum eins og þeim sem nú ganga yfir eru slíkar ráðstafanir ólíðandi með öllu. Frumvarpið er nauðsynlegt til að tryggja endurkröfurétt stjórnvalda á hendur fyrirtækjum sem stunda slíkt og hefði flutningur nefndarinnar á því verið mikilvægur þáttur í því að tryggja áframhaldandi samstöðu í samfélaginu með þeim úrræðum sem verið er að grípa til.

Meiri hluti nefndarinnar kýs að leggjast gegn tillögu formanns með þeim rökum að sambærilegs frumvarps væri að vænta frá félags- og barnamálaráðherra. Þess frumvarps er þó ekki að vænta í þinglega meðferð fyrr en í fyrsta lagi í lok vikunar og mun ekki taka gildi fyrr en um næstu mánaðarmót. Afstaða meiri hlutans tryggir að fyrirtæki sem eru að misnota eða ætla sér að misnota hlutabótaleiðina hafi til þess talsvert lengri tíma en ella. Undirrituð harmar þessi vinnubrögð og lýsir djúpum vonbrigðum með starfshætti meiri hluta velferðarnefndar.“

Undir bókun Halldóru tóku Helga Vala Helgadóttir og Guðmundur Ingi Kristinsson. Hanna Katrín Friðriksson, áheyrnarfulltrúi í nefndinni, lýsti sig sammála bókuninni.

3) Önnur mál Kl. 19:40
Fleira var ekki gert.

Fundi slitið kl. 18:40