10. fundur
velferðarnefndar á 140. löggjafarþingi
haldinn í Austurstræti 8-10, mánudaginn 14. nóvember 2011 kl. 09:05


Mættir:

Álfheiður Ingadóttir (ÁI) formaður, kl. 09:05
Amal Tamimi (AT) fyrir LGeir, kl. 09:05
Eygló Harðardóttir (EyH), kl. 09:05
Guðmundur Steingrímsson (GStein), kl. 09:05
Jónína Rós Guðmundsdóttir (JRG), kl. 09:05
Kristján L. Möller (KLM), kl. 09:05
Pétur H. Blöndal (PHB), kl. 09:05
Unnur Brá Konráðsdóttir (UBK), kl. 09:05

Nefndarritari: Hildur Eva Sigurðardóttir

Bókað:

1) Fundargerð síðasta fundar. Kl. 09:05
Formaður dreifði drögum að fundargerð síðasta fundar og tók þau til umræðu. Fundargerðin var samþykkt.

2) 1. mál - fjárlög 2012 Kl. 09:10
Nefndin hélt áfram umfjöllun sinni um 1. mál um fjárlög og fékk á sinn fund Önnu S. Baldursdóttur, Einar Njálsson, Inga Val Jóhannesson og Sturlaug Tómasson frá velferðarráðuneyti. Héldu þau áfram kynningu frá síðasta fundi á þeim hluta fjárlagafrumvarpsins sem heyrir undir málefnasvið nefndarinnar. Að auki svöruðu þau spurningum nefndarmanna.

3) 195. mál - ráðstafanir í ríkisfjármálum Kl. 10:40
Nefndin tók til umfjöllunar 195. mál um ráðstafanir í ríkisfjármálum en nefndinni hafði borist beiðni frá efnahags- og viðskiptanefnd um álit á þeim þáttum frumvarpsins sem heyra undir málefnasvið hennar, þ.e. 2., 3., 20.-22. og 24. gr. þess. Nefndin fékk á sinn fund Önnu S. Baldursdóttur, Einar Njálsson, Inga Val Jóhannesson og Sturlaug Tómasson frá velferðarráðuneyti. Kynntu gestir viðeigandi atriði frumvarpsins og svöruðu spurningum nefndarmanna. Þá komu á fundinn Ívar J. Arndal og Sveinn Víkingur Árnason frá Áfengis- og tóbaksverslun ríkisins. Gerðu þeir grein fyrir athugasemdum sínum við 20.-22. gr., fóru yfir umsögn stofnunarinnar og svöruðu spurningum nefndarmanna.

4) 20. mál - aðgerðaáætlun um tóbaksvarnir Kl. 11:41
Nefndin samþykkti að senda málið til umsagnar og veita þriggja vikna frest. Frestað var ákvörðun um framsögumann málsins.

5) 21. mál - reglubundnar árlegar heimsóknir til eldri borgara í forvarnaskyni Kl. 11:41
Nefndin samþykkti að senda málið út til umsagnar og veita þriggja vikna frest. Lagt var til að EyH yrði framsögumaður málsins og var það samþykkt.

6) Önnur mál. Kl. 11:41
Formaður lagði til að nefndin óskaði upplýsinga frá ráðuneytinu um eftirlit með kynferðisbrotamönnum og héldi fund um málið bráðlega. Var það samþykkt.
PHB vakti athygli nefndarmanna á vinnu nefndar um breytingu á almannatryggingakerfinu.
UBK óskaði eftir því að nefndin héldi fund eða aflaði upplýsinga um offitu á Íslandi. Var samþykkt að ræða málið síðar.
EyH lagði til að nefndin hugaði sérstaklega að geðheilbrigðismálum. Var samþykkt að ræða málið síðar.

Fleira var ekki rætt.
BirgJ var fjarverandi og VBj var fjarverandi vegna veikinda.

Fundi slitið kl. 11:42