Skýrsla um einkavæðingu bankanna hin síðari.

(1604203)
Fjárlaganefnd

Nefndarfundir

Dagsetning Fundur Bókun
14.09.2016 81. fundur fjárlaganefndar Skýrsla um einkavæðingu bankanna hin síðari.
Lögð var fram skýrsla meiri hluta fjárlaganefndar Alþingis um einkavæðingu bankanna hina síðari en hún hafði áður verið lögð fram milli funda. Varaformaður nefndarinnar gerði grein fyrir málinu. Oddný G. Harðardóttir lagði fram eftirfarandi skriflega fyrirspurn:
„1. Hverjir unnu skýrsluna um „einkavæðingu bankanna hina síðari“ og þá hvaða tilteknu þætti hennar? Óskað er eftir nöfnum allra þeirra sem komu að gerð skýrslunnar og rökum fyrir því hvers vegna viðkomandi var valinn til vinnunnar?
2. Hverjir fengu greitt vegna vinnu við skýrsluna og þá hvaða vinnu? Skýr sundurliðun óskast.
3. Hvernig var aðkomu annarra nefndarmanna meiri hlutans við vinnu að skýrslunni háttað?
4. Var samninganefnd ríkisins og fyrrverandi fjármálaráðherra gefinn kostur á að skýra mál sitt við gerð skýrslunnar?
Skriflegt svar óskast.“
Oddný áskildi sér rétt til að bóka síðar um málið. Nefndarmenn ræddu síðan um skýrsluna og var ákveðið að afgreiða hana ekki á fundinum en ræða efni hennar nánar á fundum nefndarinnar í næstu viku.
12.09.2016 80. fundur fjárlaganefndar Málefni gömlu viðskiptabankanna, samningar við skilanefndir
Fundur var settur kl. 9:30 en honum síðan frestað til kl. 9:40. Formaður kynnti skýrslu um rannsókn á einkavæðingu bankanna hina síðari sem meiri hlutinn hefur unnið að. Skýrslan var ekki lögð fram á fundinum en henni verður dreift til nefndarmanna síðar í dag áður en meiri hluti fjárlaganefndar kynnir efni hennar á fundi með fréttamönnum. Fylgiskjölum skýrslunnar var hins vegar dreift.
25.05.2016 64. fundur fjárlaganefndar Málefni gömlu viðskiptabankanna, samningar við skilanefndir
Formaður kynnti stöðu málsins og skýrði frá þeim gögnum sem borist hafa nefndinni vegna þess.
02.05.2016 56. fundur fjárlaganefndar Málefni gömlu viðskiptabankanna, samningar við skilanefndir
Formaður lagði fram bréf til Ríkisendurskoðunar, Fjársýslu ríkisins og Bankasýslu ríkisins í tengslum við endurreisn bankakerfisins og samninga við skilanefndir gömlu bankanna. Minni hluti nefndarinnar gerði athugasemdir við verklag meiri hlutans við framsetningu málsins og mun leggja fram bókun vegna þess á næsta fundi nefndarinnar. Bréfin verða því send viðtakendum frá meiri hluta nefndarinnar í dag.