Reglur um uppreist æru

Frumkvæðismál (1708009)
Stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd

Nefndarfundir

Dagsetning Fundur Bókun
26.09.2017 6. fundur stjórn­skip­unar- og eftirlitsnefndar Uppreist æru, reglur og framkvæmd
Nefndin fór yfir drög að skýrslu um málið. Samþykkt að afgreiða frá nefndinni. Allir rita undir skýrsluna.

Þórhildur Sunna Ævarsdóttir kynnti upplýsingabeiðni, sem studd er af Jóni Þór Ólafssyni og Svandísi Svavarsdóttur, um málsgögn, minnisblöð ráðuneytisins o.fl. í þremur málum er varða uppreist æru, sbr. 1. mgr. 51. gr. laga um þinsköp Alþingis.
26.09.2017 5. fundur stjórn­skip­unar- og eftirlitsnefndar Reglur um uppreist æru
Formaður kynnti drög að skýrslu um umfjöllun nefndarinnar og nefndin fjallaði um málið.

Beiðni Þórhildar Sunnu Ævarsdóttur og Jóns Þórs Ólafssonar sem Svandís Svavarsdóttir styður var rædd.
21.09.2017 4. fundur stjórn­skip­unar- og eftirlitsnefndar Uppreist æru, reglur og framkvæmd
Á fundinn komu Tryggvi Gunnarsson, umboðsmaður Alþingis og Vilhelmína Ósk Ólafsdóttir frá umboðsmanni Alþingis. Tryggvi fór yfir athugun sína á reglum sem gilda um uppreist æru og ferli slíkra og gerði grein fyrir að hann teldi ekki tilefni til frumkvæðisathugunar á samskiptum dómsmálaráðherra við forsætisráðherra í tengslum við málið. Þá svaraði hann spurningum nefndarmanna um málið.

Fundi frestað kl. 12:35 og gert fundarhlé til 15:30

Fundi var fram haldið kl. 15:35
Sömu fundarmenn mættu til framhaldsfundar.

Jón Steindór Valdimarsson formaður kynnti tillögu að sameiginlegri bókun nefndarinnar og nefndin ræddi málið.

Nefndin samþykkti samhljóða eftirfarandi bókun sem áheyrnarfulltrúi var samþykk:
Meginafstaða umboðsmanns Alþingis er að eftir að hafa skoðað málið telji hann ekki ástæðu til frumkvæðisathugunar af hans hálfu.

Á fundi nefndarinnar benti umboðsmaður m.a. á að hafa verði í huga að ráðherrar eru annars vegar embættismenn og hins vegar stjórnmálamenn. Það kunni því að gilda mismunandi sjónarmið og reglur um störf og athafnir eftir því um hvort hlutverkið er að ræða. Þannig bendir hann á varðandi samtal dómsmálaráðherra við forsætisráðherra 21. júlí sl. að hann telji að það hafi verið málefnaleg ástæða fyrir því að upplýsa forsætisráðherra um trúnaðargögn úr stjórnsýslumáli sem tengdust aðila nákomnum honum þar sem tilefnið hafi verið að þá hafi verið uppi vangaveltur um að forsætisráðherra hefði komið að afgreiðslu þessa tiltekna máls. Umboðsmaður bendir á að það geti einmitt skipt máli og verið eðlilegt til þess að taka afstöðu til hæfis í viðkomandi máli.

Nefndin telur að framkvæmd mála sem varða umsóknir um uppreist æru hafi um árabil ekki verið í samræmi við kröfur sem gera verður til meðferðar mála í stjórnsýslunni. Þess vegna ríki einhugur um að taka þessar reglur um uppreist æru til gagngerrar endurskoðunar og þegar sé hafin vinna við endurskoðun þeirra laga.

Nefndin telur nauðsynlegt af þessu tilefni að taka beri til endurskoðunar reglur um framlagningu skjala og minnisblaða fyrir ríkisstjórn í samræmi við breytingar á lögum um Stjórnarráð Íslands frá 2011 og vinnubrögð við afgreiðslu beiðna um upplýsingar í anda upplýsingalaga. Einnig sé nauðsynlegt að endurskoða fyrirkomulag mála sem varða aðgengi almennings að gögnum og upplýsingum úr stjórnsýslunni sem sé ekki nægilega skilvirkt. Þannig þurfi að einfalda málsmeðferð og hraða úrskurðum eða úrlausnum mála til hagsbóta fyrir almenning enda skipti tímasetning aðgangs að upplýsingum meginmáli.
19.09.2017 3. fundur stjórn­skip­unar- og eftirlitsnefndar Reglur um uppreist æru
Á fundinn komu Sigríður Á. Andersen dómsmálaráðherra, Haukur Guðmundsson ráðuneytisstjóri dómsmálaráðuneytis og Kristín Einarsdóttir lögfræðingur í dómsmálaráðuneyti.

Sigríður Á Andersen, dómsmálaráðherra, fór yfir reglur um uppreist æru og framkvæmd í ráðuneytinu ásamt því að svara spurningum nefndarmanna.

Fleira var ekki gert.
30.08.2017 51. fundur allsherjar- og mennta­málanefndar Reglur um uppreist æru
Á fund nefndarinnar komu Sigríður Á. Andersen dómsmálaráðherra og Haukur Guðmundsson og Kristín Einarsdóttir frá dómsmálaráðuneyti.

Dómsmálaráðherra gerði grein fyrir reglum um uppreist æru, ferli slíkra mála og fyrirhuguðum breytingum á reglunum og svaraði spurningum nefndarmanna.

Á fund nefndarinnar kom einnig Bergur Þór Ingólfsson og gerði grein fyrir reglum um uppreist æru og ferli slíkra mála eins og það horfir við brotaþolum og aðstandendum þeirra og svaraði spurningum nefndarmanna.
30.08.2017 44. fundur stjórn­skip­unar- og eftirlitsnefndar Reglur um uppreist æru
Á fundinn komu Sigríður Á. Andersen, dómsmálaráðherra, Haukur Guðmundsson ráðuneytisstjóri og Kristín Einarsdóttir frá dómsmálaráðuneyti. Sigríður fór yfir forsögu og framkvæmd reglna um uppreist æru og kynnti hugmyndir sínar um breytingar á reglunum ásamt því að svara spurningum nefndarmanna.

Jón Steindór Valdimarsson upplýsti nefndarmenn í upphafi fundar um að hann hefði kynnt sér gögn úr stórnsýslumálið Roberts Downey, sem ráðuneytið sendi nefndinni í trúnaði.
14.08.2017 43. fundur stjórn­skip­unar- og eftirlitsnefndar Reglur um uppreist æru
Brynjar Níelsson, formaður, gerði grein fyrir bréfi dómsmálaráðuneytisins um stjórnsýsluframkvæmd varðandi uppreist æru ásamt meðmælabréfum úr stjórnsýslumáli Roberts Downey, sem send voru nefndinni í trúnaði sbr. 2. mgr. 51. gr. laga um þingsköp Alþingis, auk yfirlits yfir refsilagabrot allra þeirra sem sótt hafa um uppreist æru frá árinu 1995. Nefndin ræddi ferli málsins, verkefni nefndarinnar og reglur um meðferð trúnaðargagna.

Formaður bauð nefndarmönnum að kynna sér trúnaðargögnin þ.e. meðmælabréfin og hluti nefndarinnar óskaði eftir því. Aðrir nefndarmenn sem ekki óskuðu eftir að kynna sér trúnaðargögnin, þ.e. Njáll Trausti Friðbertsson, Pawel Bartoszek, Haraldur Benediktsson og Hildur Sverrisdóttir véku af fundi kl. 11:03.

Eftirfarandi bókun var lögð fram:
Fulltrúar VG, Pírata, Framsóknarflokks og Samfylkingarinnar í stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd lýsa áhyggjum af þeirri stöðu sem upp er komin við umfjöllun nefndarinnar um reglur um uppreist æru og því stjórnleysi sem ríkir í nefndinni. Áður en meðmælabréf um uppreist æru voru lögð fram í trúnaði, á fundi nefndarinnar í dag, gengu allir fulltrúar stjórnarmeirihlutans út af fundinum, nema formaður nefndarinnar. Umrædd meðmælabréf vöktu nýjar spurningar um framkvæmd laganna af hálfu ráðuneytis og ráðherra og því vandséð að fulltrúar meirihlutans geti fjallað um málið í nefndinni í framhaldinu.

Á fundinum óskuðu fulltrúar minni hlutans eftir:
Nánari greiningu á gögnum sem fylgt hafa beiðnum um uppreist æru á undanförnum árum og afgreiðslu þeirra.
Upplýsingum um ferli sambærilegra mála í nágrannalöndunum og að fulltrúar dómsmálaráðuneytisins komi sem fyrst á fund nefndarinnar til að svara spurningum sem vaknað hafa um feril mála um uppreist æru og stjórnsýsluhætti.
Að sá hópur sem gagnrýnt hefur ferlið á undanförnum misserum komi á fund nefndarinnar til að reifa sín sjónarmið milliliðalaust.
Minnisblaði frá lagaskrifstofu Alþingis um stöðu stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar þegar fjórir nefndarmenn hafa neitað að taka við gögnum sem eru á dagskrá nefndarinnar og þar með hafa áhrif á næstu skref í umfjöllun um uppreist æru.
Að forsætisnefnd fjalli um þá stöðu sem upp er komin í nefndinni í ljósi þess að nefndin fer með afar mikilvægt hlutverk gagnvart almenningi og þinginu og á samkvæmt lögum að „kanna ákvarðanir einstakra ráðherra eða verklag þeirra sem ástæða þykir til að athuga á grundvelli þess eftirlitshlutverks sem Alþingi hefur gagnvart framkvæmdarvaldinu". Þetta hlutverk getur ekki verið valkvætt fyrir þá fulltrúa sem nefndina skipa.

Eftirfarandi viðbótarbókun var lögð fram:
Fulltrúi Pírata í stjórnskipunar og eftirlitsnefnd, Birgitta Jónsdóttir, óskaði eftir því að strikað yrði yfir þær viðkvæmu heilsufarsupplýsingar sem ráðuneytið sagði að væru að finna í meðmælabréfunum, til að unnt væri að ræða á opinn máta annað það sem tengist meðmælunum. Óskaði þingmaðurinn að þetta yrði gert áður en nefndarmenn fengu bréfin til skoðunar. Formaður nefndarinnar sinnti því í engu. Síðan kom í ljós að engar viðkvæmar heilsufarsupplýsingar voru að finna í bréfunum og telur þingmaðurinn að nefndinn hafi verið blekkt til að vera sett undir almennar reglur þingskapa um trúnað. Það er mjög alvarlegt og grefur undan trúverðugleika nefndarinnar að framkvæmdavaldið sem nefndin á að hafa undir eftirliti um góða stjórnsýsluhætti og veita aðhald geti múlbundið nefndarmenn á þennan máta.
18.07.2017 42. fundur stjórn­skip­unar- og eftirlitsnefndar Reglur um uppreist æru
Nefndin fjallaði um málið og fékk á sinn fund Hauk Guðmundsson, ráðuneytisstjóra í dómsmálaráðuneytinu, og Reimar Pétursson frá Lögmannafélagi Íslands.