Leiðbeiningar um fundahöld og notkun fjarfundabúnaðar á fundum fastanefnda frá 4. maí

Önnur mál nefndarfundar (2005166)
Umhverfis- og samgöngunefnd

Nefndarfundir

Dagsetning Fundur Bókun
12.06.2020 70. fundur umhverfis- og samgöngunefndar Leiðbeiningar um fundahöld og notkun fjarfundabúnaðar á fundum fastanefnda frá 4. maí
Nefndin ræddi málið í tengslum við 60. fund nefndarinnar.

Nefndin heimilaði Birni Leví Gunnarssyni, áheyrnarfulltrúa, að leggja fram eftirfarandi bókun:
Ekki var boðað til þessa fundar samkvæmt starfsreglum fastanefnda, nánar tiltekið 5. mgr. 21. gr. starfsreglnanna þar sem fram kemur að senda skuli nefndarmanni fundarboð „með rafpósti í tæka tíð og eigi síðar en daginn fyrir fund. Þó skal, ef fundur er boðaður með minna en sólarhringsfyrirvara útbúa sérstakt fundarboð sem nefndarmönnum er afhent eða tilkynnt um á annan tryggilegan hátt". Áheyrnarfulltrúi fékk ekki tækifæri til þess að bregðast við bókun formanns á 59. fundi því fundi var slitið og ekki tekið tillit til beiðni áheyrnafulltrúa um að komast á mælendaskrá. Í kjölfar fundarslita á 59. fundi spurði áheyrnarfulltrúi hvar fundur yrði haldinn og hvenær hann hæfist til þess að hann gæti náð á fundinn í tæka tíð áður en fundurinn hæfist. Svar fékkst ekki við því fyrr en fundarboð barst með rafrænum hætti kl. 10:02, um þremur korterum eftir að fundurinn hófst samkvæmt drögum að fundargerð. Formaður getur ekki vikið frá reglum um fundarboð sem eru mjög skýrar hvað þetta varðar því orðin „í tæka tíð“ hljóta að þýða að fundarmenn hafi svigrúm til þess að mæta á boðaðan fund. Það er vel þekkt misnotkun á valdi að breyta tímasetningum og staðsetningum á fundum til þess að útiloka ákveðna fundarmenn frá fundi. Sú framkvæmd sem viðhöfð var við boðun 60. fundar í Umhverfis- og samgöngunefnd ber öll merki slíkrar misnotkunar þar sem það hefði verið lítið mál að hafa samband við áheyrnafulltrúa með tímanlegum hætti ef meiningin var að bjóða áheyrnarfulltrúa að sitja fundinn á fundarsviði þingsins í stað þess að tilkynna það með engum fyrirvara á 59. fundi nefndarinnar. Áheyrnarfulltrúi telur því ólöglega boðað til þessa fundar og telur einnig að það sé ekki hægt að samþykkja þessa fundargerð fyrr en fyrir liggur álit um hvað svona brot þýðir m.t.t. laga og reglna.
19.05.2020 59. fundur umhverfis- og samgöngunefndar Leiðbeiningar um fundahöld og notkun fjarfundabúnaðar á fundum fastanefnda frá 4. maí
Formaður gerði grein fyrir úrskurði forseta dags. 18. maí. Í ljósi afstöðu Björns Levís Gunnarssonar áheyrnarfulltrúa í nefndinni að vera eingöngu í mynd þegar hann hefur orðið bókaði formaður eftirfarandi:

Nú liggur fyrir úrskurður forseta skv. 5. mgr. 8. gr. þingskapa um skyldu nefndarmanna og áheyrnarfulltrúa til að fara eftir leiðbeiningum um fundahöld fastanefnda og notkun fjarfundabúnaðar á fundum fastanefnda.
Hlíti fundarmenn ekki úrskurði forseta og fyrirmælum formanns á fundinum um að hafa kveikt á myndavél verður þessum fundi slitið og boðað til nýs fundar með dagskrá þessa fundar. Sendur verður hlekkur til þeirra sem staðfesta að þeir muni vera í mynd á meðan á fundi stendur. Ef einhverjir neita að vera með kveikt á myndavél mun ég - til að tryggja að allir nefndarmenn og áheyrnarfulltrúar geti í samræmi við þingsköp tekið þátt í fundinum - óska eftir því að þeir sem ekki vilji vera í mynd geti komið á nefndasvið, þ.e. fundað á staðnum í samræmi við 3. málsl. 1. töluliðar leiðbeininganna enda sérstakar aðstæður uppi.

Þá leitaði formaður afstöðu nefndarmanna til þessa fyrirkomulags og var það samþykkt.
14.05.2020 57. fundur umhverfis- og samgöngunefndar Leiðbeiningar um fundahöld og notkun fjarfundabúnaðar á fundum fastanefnda frá 4. maí
Rætt var um skyldu nefndarmanna til að vera í mynd á fjarfundi. Formaður gerði grein fyrir leiðbeiningum um fundahöld og notkun fjarfundabúnaðar á fundum fastanefnda frá 4. maí.

Nefndin samþykkti einróma að óska eftir úrskurði forseta um skilning og framkvæmd leiðbeininganna með vísan til 5. mgr. 8. gr. þingskapa Alþingis.