Lýsing byggð á ákvæðum laga um landsdóm nr. 3/1963

Lýsing byggð á ákvæðum laga um landsdóm nr. 3/1963 á því sem eiga mun sér stað í kjölfar þess að Alþingi hefur ályktað um að höfða mál á hendur ráðherra vegna brota á lögum um ráðherraábyrgð nr. 4/1963. Lýsingunni er stillt upp í áætlaðri tímaröð en þó kunna sumir þættir hennar að eiga sér stað á sama tíma.
 

Ályktun Alþingis um málshöfðun

Ákvörðun Alþingis um málshöfðun gegn ráðherra er gerð með ályktun Alþingis. Fram að þeim tíma liggur ekki fyrir að ákæra verði gefin út á hendur ráðherra þó svo að umræða fari fram um tillögu til slíks í þinginu. Ákærður verður aðeins dæmdur fyrir sakir sem rúmast innan téðrar ályktunar Alþingis.

 
Kosning saksóknara og saksóknarnefndar Alþingis

Eftir að Alþingi hefur tekið ákvörðun um að sækja mann til saka á grundvelli ráðherraábyrgðarlaga kýs það mann til að sækja málið af sinni hendi, saksóknara Alþingis, og annan til vara, ef hinn kynni að forfallast. Enn fremur kýs Alþingi fimm manna þingnefnd til þess að fylgjast með málinu og vera saksóknara Alþingis til aðstoðar.

 
Málshöfðunartilkynning forseta Alþingis

Forseti Alþingis sendir forseta Hæstaréttar Íslands, sem er sjálfkjörinn forseti landsdóms, tafarlaust tilkynningu um málshöfðunarákvörðun Alþingis, en hann tilkynnir síðan, svo fljótt sem tök eru á, ákærðum málshöfðun. Þegar dómsforseti hefur fengið tilkynninguna skal hann kveðja dómendur saman.

 
Skipun verjanda

Eins fljótt og verða má skipar forseti landsdóms ákærðum verjanda úr hópi hæstaréttarlögmanna og skal við val á verjanda farið eftir ósk ákærða ef ekkert mælir henni í móti.

 
Rannsókn málsins

Það er skylda saksóknara Alþingis að leita allra fáanlegra sannana fyrir kæruatriðum, hann undirbýr gagnasöfnun og rannsókn í málinu og gerir tillögur til landsdóms um viðeigandi ráðstafanir til að leiða hið sanna í ljós. Hann hefur um starf sitt samráð við saksóknarnefnd Alþingis.

 
Útgáfa stefnu

Að rannsókn lokinni gefur forseti landsdóms út stefnu á hendur ákærðum og ákveður stefnufrest, er aldrei skal vera skemmri en þrjár vikur. Stefna skal gefin út í nafni landsdóms.

 
Ákvörðun um stað og stund þinghalds landsdóms - þingfesting málsins

Dómsforseti ákveður stað og stund fyrsta þinghalds landsdóms í samráði við saksóknara og verjanda. Þegar landsdómur hefur verið settur þingfestir saksóknari málið.

 
Þinghald til framlagningar greinargerðar

Að liðnum fresti þeim sem til er tekinn af landsdómi skal verjandi leggja fram greinargerð af ákærðs hálfu og gögn þau er hann hyggst bera fyrir sig í málflutningi skjólstæðingi sínum til varnar.

 
Aðalmeðferð

Að loknum málatilbúnaði fer sókn og vörn málsins fram fyrir landsdómi.


Dómtaka

Að málflutningi loknum skal málið þegar tekið til dóms. Ganga dómendur þá á ráðstefnu. Að loknum umræðum dómenda fer fram atkvæðagreiðsla. Ráðstefna og atkvæðagreiðsla fer fram fyrir luktum dyrum.


Dómsuppkvaðning

Dóm skal jafnan kveða upp svo fljótt sem við verður komið. Dómsforseti les dóminn upp í heyranda hljóði á dómþingi en dómur landsdóms er saminn skriflega.

 
Möguleiki á endurupptöku landsdómsmáls

Samkvæmt beiðni dómfellds manns getur landsdómur leyft að mál sem þar hefur verið dæmt verði tekið til meðferðar að nýju ef fram eru komin ný gögn sem ljóst eða líklegt gera að dómfelldi hefði verið sýknaður, eða dæmdur fyrir mun minna brot, ef þau gögn hefðu komið fyrir dómendur áður en dómur gekk, eða ef ætla má að falsgögn hafi valdið refsidómi að einhverju eða öllu leyti.