Málshöfðun gegn ráðherra á grundvelli ráðherraábyrgðalaga

Rannsóknarnefnd Alþingis

Hinn 12. desember 2008 samþykkti Alþingi frumvarp til laga um rannsókn á aðdraganda og orsökum falls íslensku bankanna 2008 og tengdra atburða. Á grundvelli laganna skipaði Alþingi rannsóknarnefnd um aðdraganda og orsakir falls íslensku bankanna 2008 (RNA). Meðal verkefna RNA var að leggja mat á hvort um mistök eða vanrækslu hafi verið að ræða við framkvæmd laga og reglna um fjármálastarfsemi á Íslandi og eftirlit með henni, og hverjir kynnu að bera ábyrgð á því. Þá var nefndinni ætlað að gera grein fyrir grun sem kynni að vakna um refsiverða háttsemi eða brot á starfsskyldum. RNA skilaði skýrslu sinni 12. apríl 2010 og komst að þeirri niðurstöðu að þrír ráðherrar í öðru ráðuneyti Geirs H. Haarde hefðu sýnt af sér vanrækslu í skilningi laga nr. 142/2008, um rannsókn á aðdraganda og orsökum falls íslensku bankanna 2008 og tengdra atburða.

Þingmannanefnd til að fjalla um skýrslu rannsóknarnefndar Alþingis

Hinn 30. desember 2009 kaus Alþingi nefnd til að fjalla um skýrslu rannsóknarnefndar Alþingis um bankahrunið og móta tillögur að viðbrögðum þingsins við niðurstöðum hennar. Í þeirri nefnd áttu sæti níu þingmenn og áttu allir þingflokkar þar sinn fulltrúa. Meðal verkefna nefndarinnar var að leggja mat á ábyrgð á hugsanlegum mistökum og vanrækslu stjórnvalda sem áttu þátt í hruninu, m.a. taka afstöðu til framgöngu ráðherra í aðdraganda hrunsins.

Nefndin lagði fram skýrslu um þann lærdóm sem draga mætti af skýrslu RNA og fylgdi henni tillaga til þingsályktunar um verkefni sem lagt var til að ráðist yrði í. Nefndin klofnaði hins vegar í þrennt þegar kom að ábyrgð ráðherra. Meiri hluti nefndarinnar lagði til að fjórir ráðherrar í öðru ráðuneyti Geirs H. Haarde yrðu ákærðir fyrir brot á ráðherraábyrgðarlögum. Minni hluti nefndarinnar lagði til að þrír ráðherrar yrðu ákærðir. Tveir nefndarmenn lögðu enga tillögu fram en lýstu því yfir að ekki væri tilefni til að leggja til að nokkur ráðherra yrði ákærður.

Tillögur um að ákæra ráðherra voru ræddar á þingfundi 17.–28. september 2010. Á lokadegi umræðunnar samþykkti Alþingi að ákæra Geir H. Haarde, fyrrum forsætisráðherra, fyrir brot gegn ráðherraábyrgðarlögum.

Málshöfðun Alþingis gegn Geir H. Haarde, fyrrverandi forsætisráðherra, á grundvelli ráðherraábyrgðarlaga

Hinn 12. október 2010 voru fimm þingmenn kosnir í saksóknarnefnd Alþingis, Atli Gíslason, Birgir Ármannsson, Höskuldur Þórhallsson, Jónína Rós Guðmundsdóttir og Margrét Tryggvadóttir. Atli var síðar kosinn formaður nefndarinnar. Nefndin hafði það hlutverk að fylgjast með málinu gegn Geir H. Haarde fyrir hönd Alþingis og vera saksóknara Alþingis til aðstoðar. Sama dag kaus Alþingi saksóknara til að sækja málið gegn Geir H. Haarde af þess hálfu. Sigríður Friðjónsdóttir var kjörin saksóknari Alþingis og Helgi Magnús Gunnarsson var kjörinn varasaksóknari.

Hinn 1. maí 2011 gaf saksóknari Alþingis út ákæru á hendur Geir Hilmari Haarde.

Landsdómsmál Alþingis gegn Geir Hilmari Haarde var rekið í bókasal Þjóðmenningarhússins að Hverfisgötu í Reykjavík. Aðalmeðferð málsins fór fram 5. til 16. mars 2012 en þá var málið dómtekið. Dómur var kveðinn upp í málinu 23. apríl sama ár.

Saksóknarnefnd Alþingis fundaði tíu sinnum á starfstíma sínum á 139. og 140. löggjafarþingi. Við dómsuppsögu landsdóms féll starfsumboð nefndarinnar niður.