Sameiginleg yfirlýsing formanna utanríkismálanefnda Norðurlandanna, Eystrasaltsríkjanna og utanríkismálanefndar öldungadeildar Bandaríkjanna

2.9.2004

 

Formenn utanríkismálanefnda þinga Norðurlanda og Eystrasaltsríkja héldu fund ásamt formanni utanríkismálanefndar öldungadeildar Bandaríkjaþings í Reykjavík fimmtudaginn 2. september 2004. Þeir ræddu ýmis mál er varða öryggis- og varnarmálastefnu þjóðanna. Í lok fundar sendu þeir frá sér yfirlýsingu vegna gíslatökumálsins í Norður-Ossetíu:


Reykjavík, 2. september 2004

"Við fordæmum harðlega gíslatöku þá sem nú stendur yfir í borginni Beslan í Norður-Ossetíu. Þessar fyrirlitlegu aðgerðir, sem beinast gegn saklausum börnum og ungmennum, eru algerlega óásættanlegar. Ekkert getur réttlætt það að ráðast á saklausa borgara, sérstaklega ung skólabörn. Við hvetjum brotamennina til að frelsa gísla sína tafarlaust.

Á sama tíma og hugur okkar stendur hjá rússnesku þjóðinni, sérstaklega fjölskyldum þeirra sem þegar hafa látið lífið, hvetjum við alla aðila til að finna tafarlausa og friðsamlega lausn á ástandinu".

Fundinn sátu Sólveig Pétursdóttir, formaður utanríkismálanefndar Alþingis sem stýrði fundi, Richard Lugar, formaður utanríkismálanefndar öldungadeildar Bandaríkjaþings, Jens Hald Madsen formaður utanríkismálanefndar danska þingsins, Urban Ahlin, formaður utanríkismálanefndar sænska þingsins, Liisa Jaakonsaari formaður utanríkismálanefndar finnska þingsins, Thorbjörn Jagland formaður utanríkismálanefndar norska þingsins, Marko Mihkelson formaður utanríkismálanefndar eistneska þingsins, Arminas Lydeka nefndarmaður utanríkismálanefndar litáíska þingsins og aðstoðarmenn þeirra.