Frá stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd Alþingis, umsagnarfrestur til 30. nóvember

4.11.2011

Stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd Alþingis gefur þeim sem þess óska kost á að senda skriflegar athugasemdir við skýrslu forsætisnefndar um tillögur stjórnlagaráðs um breytingar á stjórnarskrá Íslands og við og við tillögu til þingsályktunar um meðferð tillagna stjórnlagaráðs sem nefndin hefur nú til umfjöllunar.

Nefndin veitir viðtöku umsögnum og erindum frá félögum, samtökum og einstaklingum á netfangið stjornskipun@althingi.is

Umsagnir og erindi þurfa að berast nefndinni fyrir 30. nóvember nk.

Skýrsluna um tillögur stjórnlagaráðs er að finna á vefslóðinni: www.althingi.is/m3

Tillögu til þingsályktunar um meðferð tillagna stjórnlagaráðs er að finna á vefslóðinni: www.althingi.is/m6.

Stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd Alþingis
Póstfang:
Skrifstofa Alþingis – nefndasvið
Austurstræti 8-10
150 Reykjavík
Netfang:
stjornskipun@althingi.is

 

Leiðbeiningar um ritun umsagna

  • Umsögn skal vera skýr og skipulega upp sett til að auðvelda þingnefnd yfirferð og mat á efni hennar.
  • Merkið umsögn greinilega með nafni sendanda, dagsetningu og númeri og heiti þingmáls.
  • Ef engar athugasemdir eru þarf ekki að senda sérstaka tilkynningu þess efnis.
  • Best að fylgja efnisröðun málsins, þó þannig að fyrst komi almennt álit um málið sé þess talin þörf. Þá skal gera athugasemdir við einstaka kafla/greinar. Best er að fylgja einfaldlega uppsetningu málsins þannig að athugasemdir og hugleiðingar um efni einstakra kafla/greina komi fram undir númeri kafla/greinar.
  • Óþarfi er að fjalla um aðra kafla/greinar en þær sem umsagnaraðili gerir athugasemdir við.
  • Athugið að ekki er unnt að breyta texta í greinargerð með frumvarpi eftir að mál hefur verið lagt fram á Alþingi. Það er texti lagafrumvarpsins sem Alþingi samþykkir sem lög en texti greinargerðar með frumvarpi hefur ekki lagagildi sem slíkur og er einungis til skýringar. Athugasemdir við framsetningu efnis í greinargerð gætu því komið fram í almennri umfjöllun um málið.
  • Mikilvægt er að tillögur um breytt orðalag, viðbætur við einstakar greinar eða kafla, brottfellingar og þess háttar komi skýrt fram. Athugið að gera ekki aðeins athugasemd um að orðalag sé óljóst, tvírætt eða ónákvæmt, betra er að rökstyðja í kjölfarið hvað er óljóst við textann og hvernig umsagnaraðili leggur til að orðalagið verði.
  • Fylgiskjöl mega fylgja umsögn en mælst er til þess að umfang þeirra verði takmarkað eftir megni.