Ákvarðanir forsætisnefndar birtar á vef Alþingis

7.5.2020

Á síðasta þingi samþykkti Alþingi frumvarp um breytingar á upplýsingalögum sem fólu m.a. í sér að gildissvið laganna var látið ná til stjórnsýslu Alþingis. Í sinni einföldustu mynd má segja að stjórnsýsla Alþingis sé sú starfsemi sem fram fer á vegum Alþingis og forseti hefur æðsta vald í, sbr. 9. gr. þingskapa Alþingis og telst ekki til þingstarfa. Í framhaldi af þeirri lagabreytingu setti forsætisnefnd 20. janúar 2020 reglur um aðgang að gögnum um stjórnsýslu Alþingis

Forsætisnefnd setti jafnframt 17. mars sl. sérstakar reglur um störf og starfshætti sína sem taki mið af reglum nefndarinnar um aðgang að gögnum um stjórnsýslu þingsins.

Í lokamálslið 6. gr. reglna um störf og starfshætti forsætisnefndar Alþingis segir að birta skuli ákvarðanir úr staðfestum fundargerðum forsætisnefndar, sem upplýsingalög taka til, á vef Alþingis. Þar segir jafnframt að heimilt sé að birta aðrar ákvarðanir forsætisnefndar, svo sem um störf Alþingis og stofnanir þess, samkvæmt ákvörðun nefndarinnar hvert sinn.

Ákvarðanir og dagskrár forsætisnefndar eru nú birtar á undirsíðu nefndarinnar á vef Alþingis. Ákvarðanir eru birtar við þá dagskrárliði sem við á. Ákvarðanir forsætisnefndar eru birtar í tímaröð funda, þannig að sú nýjasta er efst. Miðast fyrsta birtingin, sem er neðst á listanum, við þann fund nefndarinnar þar sem reglurnar voru samþykktar, 17. mars 2020.