Heimsókn atvinnuveganefndar til Noregs

5.3.2019

Atvinnuveganefnd Alþingis heimsækir Bergen dagana 4.–8. mars 2019 til að kynna sér fiskeldi í Noregi. Nefndin sækir NASF sjávarútvegsráðstefnuna og ýmsa fyrirlestra um fiskeldi og sjávarútveg, auk þess sem farið verður í heimsóknir til rannsóknarstofnana, fyrirtækja og umhverfisverndarsamtaka.
 
Nefndin kynnir sér starfsemi rannsóknarstofnunarinnar NORCE, Havforskningsinstituttet (norsku hafrannsóknarstofnunarinnar) og Fiskedirektoratet (fiskistofu Noregs) og fer í heimsókn til norsku umhverfisverndarsamtakanna. Þá fjalla fulltrúar frá Norges jeger- og fiskforbund (Veiði- og fiskveiðisamtökum Noregs) og Reddvillaksen.no (Björgum villta laxinum) um áhrif laxeldis á umhverfið og efnahagslegan ávinning af laxeldi í lokuðum kvíum. Einnig kynnir nefndin sér starfsemi Blom fiskeldis, DNB Seafood, Blue Planet og PwC og fjallað verður um framtíðarsýn í norsku laxeldi fram til ársins 2050. 
 
Fyrir hönd atvinnuveganefndar taka þátt í ferðinni Lilja Rafney Magnúsdóttir formaður, Albertína Friðbjörg Elíasdóttir, Ásmundur Friðriksson, Halla Signý Kristjánsdóttir, Kolbeinn Óttarsson Proppé, Njáll Trausti Friðbertsson, Ólafur Ísleifsson, Sara Elísa Þórðardóttir, Sigurður Páll Jónsson og Þorgerður K. Gunnarsdóttir.


Atvinnuveganefnd_1Atvinnuveganefnd_2