Úthlutun styrkja til að stuðla að opinberri og upplýstri umræðu og fræðslu um Evrópusambandið

1.9.2011

Úthlutunarnefnd sem forsætisnefnd Alþingis skipaði til að úthluta styrkjum til að stuðla að opinberri og upplýstri umræðu og fræðslu um Evrópusambandið hefur lokið störfum. Úthlutunarfé til ráðstöfunar nam 27 milljónum króna.

Alls bárust nefndinni 18 umsóknir og uppfylltu átta þeirra skilyrði sem kveðið er á um í úthlutunarreglum. Við úthlutun var sérstaklega gætt að því að fjárveitingar til andstæðra sjónarmiða til Evrópusambandsaðildar væru sem jafnastar. Sótt var um styrki til fjölbreyttra verkefna, svo sem fyrirlestra, þýðinga, ráðstefnuhalds og rannsókna. Eftirtaldir aðilar hljóta styrk árið 2011: Evrópuvaktin, Heimssýn og Já Ísland.

Allir nefndarmenn og varamenn úthlutunarnefndar eru fyrrverandi rektorar íslenskra háskóla. Formaður nefndarinnar er Sveinbjörn Björnsson, fyrrverandi rektor Háskóla Íslands, en auk hans eiga sæti í nefndinni Guðfinna S. Bjarnadóttir, fyrrverandi rektor Háskólans í Reykjavík, og Ólafur Proppé, fyrrverandi rektor Kennaraháskóla Íslands. Varamenn í úthlutunarnefnd eru Magnús B. Jónsson, fyrrverandi rektor Landbúnaðarháskóla Íslands, og Stefanía Katrín Karlsdóttir, fyrrverandi rektor Tækniháskóla Íslands.

Fyrr í sumar var opnaður sérstakur upplýsingavefur, Evrópuvefurinn, sem hefur það að markmiði að veita almenningi aðgang að hlutlægum, málefnalegum og trúverðugum upplýsingum um Evrópusambandið, aðildarumsókn Íslands og Evrópumál í víðara samhengi. Vefurinn var opnaður 23. júní sl. og gerðu Alþingi og Vísindavefurinn með sér þjónustusamning sem felur í sér að uppsetning og rekstur vefsins er í höndum Vísindavefsins, en verkefnið er fjármagnað af Alþingi. Vefslóð Evrópuvefsins er: http://evropuvefur.is/.