Opnum fundi fastanefndar frestað

6.10.2008

Fyrsta opna fundi fastanefnda með ráðherrum hefur verið frestað. Fundurinn verður haldinn síðar í mánuðinum.

Samkvæmt 3. mgr. 18. gr. þingskapa skulu ráðherrar að jafnaði á fyrstu vikum þings koma á fund þingnefnda er fjalla um málaflokka þeirra og gera grein fyrir þeim þingmálum sem þeir hyggjast leggja fram á löggjafarþinginu.

Fundirnir verða sendir beint út á vef Alþingis og verða einnig aðgengilegir sem hljóð- og myndupptökur að fundum loknum. Fundirnir verða einnig sendir út á sjónvarpsrás Alþingis og í Ríkissjónvarpinu. Skrifstofa Alþingis er tilbúin að aðstoða fjölmiðla við að nálgast upptökur af opnum nefndafundum ef þess gerist þörf.

Fundirnir verða haldnir í húsnæði nefndasviðs Alþingis í Austurstræti 8-10, 2. hæð. Nánari tímasetning fundanna sést undir Þingyfirlit á forsíðu vefs Alþingis.

Frekari upplýsingar veitir Sigrún Brynja Einarsdóttir, forstöðumaður nefndasviðs, í síma 563 0500.