Tilkynning um vinnslu umsókna um ríkisborgararétt

22.6.2022

Á tímabilinu frá 2. október 2021 til 1. maí 2022 bárust Útlendingastofnun 71 umsókn um ríkisborgararétt sem lagðar voru fyrir Alþingi. Allsherjar- og menntamálanefnd bárust nauðsynleg gögn vegna hluta þeirra umsókna. Sá hluti lá til grundvallar umfjöllun undirnefndar allsherjar- og menntamálanefndar og frumvarpi nefndarinnar um veitingu ríkisborgararéttar, sbr. þingskjal 1331. Umfjöllun nefndarinnar um aðrar umsóknir frestast þar til nauðsynleg gögn hafa borist. Vakin er athygli á því að nefndin hefur fengið staðfest að þótt umfjöllun um hluta umsókna seinki verður það ekki til þess að staða umsækjenda breytist á meðan umsókn um ríkisborgararétt er í vinnslu.

Samkvæmt ákvörðun allsherjar- og menntamálanefndar var skipuð ný undirnefnd sem falið verður að endurskoða ferli varðandi umsóknir um veitingu ríkisborgararéttar með lögum og meðferð slíkra umsókna. Þá verður undirnefndinni falið að leggja fyrir nefndina tillögur að framtíðarfyrirkomulagi og verklagi við veitingu ríkisborgararéttar með lögum eigi síðar en 15. október 2022. Skipan undirnefndarinnar er í samræmi við samkomulag þingflokka við frestun 152. löggjafarþings.

Undirnefndina leiðir formaður allsherjar- og menntamálanefndar, Bryndís Haraldsdóttir. Auk hennar sitja í undirnefndinni þingmennirnir Arndís Anna Kristínardóttir Gunnarsdóttir, Jódís Skúladóttir, Lilja Rannveig Sigurgeirsdóttir og Sigmar Guðmundsson.