Undirbúningsnefnd fyrir rannsókn kjörbréfa lýkur störfum

23.11.2021

Undirbúningsnefnd fyrir rannsókn kjörbréfa, sem falið var af starfandi forseta Alþingis að undirbúa þá rannsókn kjörbréfa sem fer fram á þingsetningarfundi, hefur lokið störfum með greinargerð.

Undirbúningsnefndin hefur haft til athugunar kjörbréf þau sem landskjörstjórn gaf út 1. október 2021 í samræmi við úrslit alþingiskosninga sem fram fóru 25. september sl. Í greinargerðinni hefur nefndin tekið til skoðunar ágreining sem umboðsmenn framboðslista hafa gert við úrskurð yfirkjörstjórnar um gildi atkvæða (ágreiningsatkvæði), bókanir sem umboðsmenn hafa gert þyki þeim framkvæmd kosninga ábótavant og önnur erindi sem nefndinni hafa borist. Einnig er að finna umfjöllun nefndarinnar um þær 17 kosningakærur sem borist hafa Alþingi. Í greinargerðinni er loks að finna ábendingar nefndarinnar um þau atriði sem hún telur mikilvægt að komið verði á framfæri.

Björn Leví Gunnarsson Pírötum stendur ekki að greinargerð undirbúningsnefndarinnar.

Á þingsetningarfundi í dag var kosin kjörbréfanefnd sem mun á grundvelli starfa undirbúningsnefndar leggja fyrir Alþingi tillögur um afgreiðslu kjörbréfanna.