Samantekt um þingmál

Bókmenntasjóður o.fl.

110. mál á 141. löggjafarþingi.
Mennta- og menningarmálaráðherra.

Markmið

Að styrkja kynningu á íslenskum bókmenntum og skapa starfsumgjörð sem er til þess fallin að fylgja eftir átaki stjórnvalda í að koma íslenskum bókmenntum á framfæri erlendis.

Helstu breytingar og nýjungar

Heiti laga um bókmenntasjóð breytist í: Lög um stuðning við íslenskar bókmenntir. Lagt er til að komið verði á fót sérstakri skrifstofu, Miðstöð íslenskra bókmennta, sem ætlað er að taka við hlutverki skrifstofu bókmenntasjóðs. Miðstöð íslenskra bókmennta er ætlað að styrkja útgáfu íslenskra skáldverka, styrkja þýðingar á íslenskum bókmenntum á erlendar tungur, sjá um kynningu og útbreiðslu á íslenskum bókmenntum hérlendis og erlendis og halda úti vef um íslenskar bókmenntir á íslensku og erlendum tungumálum.

Breytingar á lögum og tengd mál

Lög um bókmenntasjóð og fleira nr. 91/2007.

Kostnaður og tekjur

Ekki er gert ráð fyrir auknum kostnaði fyrir ríkissjóð.

Umsagnir (helstu atriði)

Í þeim umsögnum sem bárust var einkum lögð áhersla á að tryggja að aukin starfsemi kæmi ekki niður á framlagi til þýðinga. Meðal annars var lagt til að aðskilja á fjárlögum fjárveitingar til miðstöðvarinnar annars vegar og bókmenntasjóðs hins vegar.

Afgreiðsla

Allsherjar- og menntamálanefnd lagði fram nefndarálit með breytingartillögu á þingskjali 652. Þar var lagt til nýtt bráðabirgðaákvæði þar sem kveðið er á um skipun samráðshóps sem er ætlað að fjalla um framtíðarsýn og starfsumhverfi íslenskrar bókaútgáfu og leggja meðal annars fram tillögur og marka skýra stefnu um aukna rafbókavæðingu á Íslandi. Samráðshópurinn skili ráðherra skýrslu fyrir 1. september 2013. Þessi tillaga var samþykkt. Fyrir þriðju umræðu lagði nefndin fram nefndarálit með breytingartillögu á þingskjali 773. Þar var lagt til að fjárveitingum til miðstöðvarinnar yrði skipt upp á tvo fjárlagaliði og heiti laganna yrði: Lög um bókmenntir. Fumvarpið varð að lögum svo breytt.


Síðast breytt 21.12.2012. Tenglar í efni sem ekki er á vef Alþingis geta breyst og eru birtir án ábyrgðar. Unnið af starfsfólki upplýsinga- og rannsóknaþjónustu Alþingis.

Um samantektir

Samantektir um þingmál hafa verið birtar á vef Alþingis síðan á 141. þingi (2012-2013). Markmiðið er að setja fram í stuttu máli greinargóðar upplýsingar um þingmál og að tengja í efni sem gæti skýrt það frekar.

Samantektir eru einkum unnar um stjórnarfrumvörp en upplýsingum um önnur mál er bætt við eftir þörfum. Fylgst er með máli frá því að það kemur fram á þinginu og upplýsingum bætt við eftir því sem fram vindur. Þær eru að mestu fengnar úr texta frumvarps og umsagna, en tengt er í efni á öðrum vefjum eftir því sem tilefni er til. Tenglar í efni sem ekki er á vef Alþingis geta breyst og eru birtir án ábyrgðar. Umfjöllunin á að vera óhlutdræg en ekki er hægt að gera ráð fyrir að hún sé tæmandi. Samantektin er ekki hluti af þinglegri meðferð né formlegum skjölum þingmálsins.

Allar ábendingar og athugasemdir eru vel þegnar og má senda þær á netfangið rannsoknathjonusta@althingi.is.