Samantekt um þingmál

Rannsókn samgönguslysa

131. mál á 141. löggjafarþingi.
Innanríkisráðherra.

Markmið

Að fækka slysum og auka öryggi í samgöngum með því að efla og bæta slysarannsóknir og ná fram hagræðingu við rannsóknir á samgönguslysum.

Helstu breytingar og nýjungar

Núverandi rannsóknarnefndir flugslysa, umferðarslysa og sjóslysa verða sameinaðar í eina fimm manna rannsóknarnefnd. Innleiddar verða kröfur Alþjóðaflugmálastofnunarinnar í viðauka 13 við Chicago-samninginn, um borgaralegt almenningsflug, auk tilskipunar ráðsins 94/56/EB, um setningu grundvallarreglna við rannsóknir á slysum og óhöppum í almenningsflugi. Í ákvæðum er varða rannsóknir sjóslysa og sjóatvika er leitast við að innleiða í frekari mæli en áður alþjóðlegan kóða um rannsóknir sjóslysa og alvarlegra sjóatvika sem samþykktur var á þingi Alþjóðasiglingastofnunarinnar árið 2008.

Breytingar á lögum og tengd mál

Lög um rannsókn sjóslysa nr. 68/2000.
Lög um rannsókn flugslysa nr. 35/2004.
Lög um rannsóknarnefnd umferðarslysa nr. 24/2005.

Kostnaður og tekjur

Í umsögn fjárlagaskrifstofu fjármála- og efnahagsráðuneytisins segir meðal annars að gera megi ráð fyrir að útgjöld ríkissjóðs vegna rannsóknarnefndanna muni aukast um allt að 6 milljónir kr. á ári frá forsendum fjárlaga fyrir árið 2012.

Umsagnir (helstu atriði)

Umsagnaraðilar lýstu sig meðal annars mótfallna því að rannsóknarnefndir sjóslysa, flugslysa og umferðarslysa yrðu sameinaðar í eina nefnd. Bent var á þann möguleika að sameina rekstur nefndanna þannig að t.d. húsnæði og skrifstofuhald yrði sameiginlegt. Einnig var áhyggjum lýst af því að í frumvarpinu sé ekki gengið nægilega úr skugga um að gögn rannsóknarnefndar samgönguslysa verði ekki meðal málsgagna í einkamálum.

Afgreiðsla

Frumvarpið varð að lögum frá Alþingi með orðalagsbreytingu og breytingu á gildistöku. Lögin taka gildi 1. júní 2013.


Síðast breytt 22.02.2013. Tenglar í efni sem ekki er á vef Alþingis geta breyst og eru birtir án ábyrgðar. Unnið af starfsfólki upplýsinga- og rannsóknaþjónustu Alþingis.

Um samantektir

Samantektir um þingmál hafa verið birtar á vef Alþingis síðan á 141. þingi (2012-2013). Markmiðið er að setja fram í stuttu máli greinargóðar upplýsingar um þingmál og að tengja í efni sem gæti skýrt það frekar.

Samantektir eru einkum unnar um stjórnarfrumvörp en upplýsingum um önnur mál er bætt við eftir þörfum. Fylgst er með máli frá því að það kemur fram á þinginu og upplýsingum bætt við eftir því sem fram vindur. Þær eru að mestu fengnar úr texta frumvarps og umsagna, en tengt er í efni á öðrum vefjum eftir því sem tilefni er til. Tenglar í efni sem ekki er á vef Alþingis geta breyst og eru birtir án ábyrgðar. Umfjöllunin á að vera óhlutdræg en ekki er hægt að gera ráð fyrir að hún sé tæmandi. Samantektin er ekki hluti af þinglegri meðferð né formlegum skjölum þingmálsins.

Allar ábendingar og athugasemdir eru vel þegnar og má senda þær á netfangið rannsoknathjonusta@althingi.is.