Samantekt um þingmál

Umferðarlög

179. mál á 141. löggjafarþingi.
Innanríkisráðherra.

Markmið

Að færa ákvæði umferðarlaga til nútímahorfs, stuðla að aðlögun umferðarlöggjafar að alþjóðlegum samningum um umferðarmál, auka umferðaröryggi, gæta jafnræðis milli vegfarenda óháð samgöngumáta og taka tillit til umhverfissjónarmiða við skipulagningu umferðar.

Helstu breytingar og nýjungar

Mælt er fyrir um skyldu lækna til að gera trúnaðarlækni Umferðarstofu viðvart ef handhafi ökuréttinda fullnægir ekki þeim skilyrðum sem til hans eru gerð hvað varðar andlega og líkamlega færni.
Gildistími ökuskírteinis verði 15 ár í stað þess að það gildi til 70 ára aldurs.
Leita skuli leyfis Umferðarstofu til að halda aksturskeppni á tilgreindum svæðum.
Hækka má hámarkshraða á einstaka vegum upp í allt að 110 km á klst.
Lagt er til að leyfilegt vínandamagn í blóði ökumanns, til að hann teljist ekki geta stjórnað ökutæki örugglega, verði lækkað úr 0,50 prómillum í 0,20 prómill.
Lagt er til að lágmarksaldur til að öðlast ökuréttindi verði 18 ár í stað 17.
Kveðið er á um gjald vegna afgreiðslu starfsleyfa til ökuskóla og ökukennara en Umferðarstofu er ætlað að gefa út slík starfsleyfi.
Kveðið er á um skráningarskyldu eftirvagna að heildarþyngd 750 kg eða minna og vinnuvéla gegn 2.500 kr. gjaldi.

Breytingar á lögum og tengd mál

Nokkrum sinnum hafa verið flutt frumvörp sem varða hægri beygju á móti rauðu ljósi, síðast á 141. löggjafarþingi 05.11.2012 (353. mál). Einnig hefur tvívegis verið flutt frumvarp sem varðar forgangsakgreinar síðast á 136. löggjafarþingi 05.11.2008 (93. mál). Einu sinni hefur verið flutt frumvarp sem varðar hækkun bílprófsaldurs í 18 ár á 133. löggjafarþingi, 21.11.2006 (381. mál).

Umferðarlög 50/1987.

  • Endurflutt: Umferðarlög, 656. mál (innanríkisráðherra) á 140. þingi (27.03.2012)
  • Endurflutt: Umferðarlög, 495. mál (innanríkisráðherra) á 139. þingi (14.02.2011)
  • Endurflutt: Umferðarlög, 553. mál (samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra) á 138. þingi (31.03.2010)
  • Skylt mál: Umferðarlög, 381. mál (KBald) á 133. þingi (21.11.2006)
  • Skylt mál: Umferðarlög, 93. mál (SVÓ) á 136. þingi (05.11.2008)
  • Skylt mál: Umferðarlög, 353. mál (ÁJ) á 141. þingi (05.11.2012)
  • Skylt mál: Umferðarlög, 284. mál (innanríkisráðherra) á 143. þingi (27.01.2014)
  • Skylt mál: Umferðarlög, 102. mál (innanríkisráðherra) á 144. þingi (16.09.2014)

Kostnaður og tekjur

Ekki er gert ráð fyrir auknum kostnaði fyrir ríkissjóð.

Umsagnir (helstu atriði)

Margar og ítarlegar umsagnir bárust um frumvarpið. Þar á meðal tillögur um breytt orðalag, nýjar skilgreiningar og efnislegar breytingar. Bent var á að í frumvarpið vantaði ákvæði um reiðvegi. Lögreglan og Rannsóknarnefnd umferðarslysa (RNU) lögðust m.a. gegn því að samhliða akstur bifhjóla yrði leyfður. RNU taldi að skylda ætti alla aldurshópa til að nota reiðhjólahjálma en Landssamtök hjólreiðamanna leggjast gegn ákvæði um hjálmaskyldu barna nema að undangenginni frekari umræðu. Einnig voru gerðar athugasemdir við að Vegagerðinni yrði heimilt að leggja á stjórnvaldssektir.

Afgreiðsla

Frumvarpið var afgreitt úr nefnd til 2. umræðu.

Aðrar upplýsingar

Löggjöf á Norðurlöndunum

Danmörk
Bekendtgørelse af færdselsloven. LBK nr 1047 af 24/10/2011.

Noregur
Vegtrafikklov. LOV-1965-06-18-4.

Svíþjóð
Trafikskadelag (1975:1410).
Lag (1951:649) om straff för vissa trafikbrott.
Körkortslag (1998:488).

Finnland
Vägtrafiklag 3.4.1981/267.
Fordonslag 11.12.2002/1090.
Trafikförsäkringslag 26.6.1959/279.
Lag om fordonstrafikregistret 13.6.2003/541.
Lag om registrering av fordon 23.12.1998/1100.

Fjölmiðlaumfjöllun

Telja brotið á atvinnuréttindum. Morgunblaðið 30.11.2012.
Vilja að námskeiðin verði brotin upp
. Mbl.is 13.11.2012.
Teitur Guðmundsson. Umferðarlög, aksturshæfni og læknisvottorð. Fréttablaðið 2.10.2012.

Pawel Bartoszek. Ónæg rök fyrir hjálmaskyldu. Fréttablaðið 11.5.2012.
Herða reglur um nýju fararskjótana
. Mbl.is 12.3.2012.Síðast breytt 12.04.2013. Tenglar í efni sem ekki er á vef Alþingis geta breyst og eru birtir án ábyrgðar. Unnið af starfsfólki upplýsinga- og rannsóknaþjónustu Alþingis.

Um samantektir

Samantektir um þingmál hafa verið birtar á vef Alþingis síðan á 141. þingi (2012-2013). Markmiðið er að setja fram í stuttu máli greinargóðar upplýsingar um þingmál og að tengja í efni sem gæti skýrt það frekar.

Samantektir eru einkum unnar um stjórnarfrumvörp en upplýsingum um önnur mál er bætt við eftir þörfum. Fylgst er með máli frá því að það kemur fram á þinginu og upplýsingum bætt við eftir því sem fram vindur. Þær eru að mestu fengnar úr texta frumvarps og umsagna, en tengt er í efni á öðrum vefjum eftir því sem tilefni er til. Tenglar í efni sem ekki er á vef Alþingis geta breyst og eru birtir án ábyrgðar. Umfjöllunin á að vera óhlutdræg en ekki er hægt að gera ráð fyrir að hún sé tæmandi. Samantektin er ekki hluti af þinglegri meðferð né formlegum skjölum þingmálsins.

Allar ábendingar og athugasemdir eru vel þegnar og má senda þær á netfangið rannsoknathjonusta@althingi.is.