Samantekt um þingmál

Upplýsingalög

215. mál á 141. löggjafarþingi.
Forsætisráðherra.

Markmið

Að tryggja gegnsæi í stjórnsýslu, styrkja upplýsingarétt og tjáningarfrelsi og tryggja að fjölmiðlar og almenningur geti veitt stjórnvöldum aðhald.

Helstu breytingar og nýjungar

Markmiðum upplýsingalaga er lýst og gildissvið víkkað. Gert er ráð fyrir að þau taki meðal annars til lögaðila sem eru 51% eða meira í eigu hins opinbera. Þó taka þau ekki til fyrirtækja í opinberri eigu sem sótt hafa um eða fengið opinbera skráningu skuldabréfa. Skilgreint er hvaða gögn eru undanþegin upplýsingaskyldu og hugtakið vinnugögn er skýrt. 
Lagt er til að stjórnvöld leitist við að gera upplýsingar opinberar á rafrænu formi með aðgengi að málaskrá, lista yfir gögn mála og að gögnunum sjálfum og auðveldi almenningi þannig að óska eftir upplýsingum.

Breytingar á lögum og tengd mál

Við gildistöku laganna falla úr gildi upplýsingalög, nr. 50/1996, og lagðar eru til breytingar á stjórnsýslulögum, nr. 37/1993, og lögum um Þjóðskjalasafn Íslands, nr. 66/1985.

  • Endurflutt: Upplýsingalög, 381. mál (forsætisráðherra) á 139. þingi (14.12.2010)
  • Endurflutt: Upplýsingalög, 366. mál (forsætisráðherra) á 140. þingi (30.11.2011)
  • Endurflutt: Upplýsingalög, 381. mál (forsætisráðherra) á 139. þingi (14.12.2010)

Kostnaður og tekjur

Ekki hefur verið spáð fyrir um kostnað en fjárlagaskrifstofa fjármálaráðuneytisins gerir ráð fyrir að kostnaður ríkissjóðs verði látinn rúmast innan fjárhagsramma gildandi fjárlaga.

Umsagnir (helstu atriði)

Í umsögnum koma meðal annars fram athugasemdir um að aukin upplýsingaskylda fyrirtækja í opinberri eigu geti hamlað samkeppnisstöðu og kalli á mjög aukna vinnu. Nokkrar athugasemdir lúta að skilgreiningum um gögn sem almenningur á ekki rétt á að fá í hendur. Einnig er bent á að skýra þurfi frekar hugtakið mál ásamt því að skráningarskyldu, gerð lista yfir mál og aðgengi að þeim þurfi að skýra betur. 

Afgreiðsla

Frumvarpið var samþykkt með nokkrum breytingum og er sveitarfélögum með íbúa undir 1.000 manns veittur aðlögunartími til 1. janúar 2016. Fram að því gilda þar ákvæði upplýsingalaga, nr. 50/1996.

Aðrar upplýsingar

Löggjöf á Norðurlöndum.

Danmörk
Lov om offentlighed i forvaltningen (Offentilghedsloven). LOV nr. 572 af 19/12/1985.

Í desember 2010 lagði dómsmálaráðherra fram nýtt frumvarp til upplýsingalaga, L 90 Forslag til lov om offentlighed i forvaltningen (1. samling 2010-2011). Því var vísað til nefndar og kom ekki aftur til umræðu á því þingi. Opinn fundur var haldinn í Retsudvalget um frumvarpið 26. janúar 2011. Frumvarpið byggir að miklu leyti á skýrslu nefndar á vegum dómsmálaráðuneytisins: Justisministeriet. Betænkning om offentlighedsloven. Offentlighedskommissionen. Betænkning nr. 1510/2009.

Blaðamenn töldu tillögur í skýrslunni þrengja rétt þeirra til að afla upplýsinga frá ráðuneytum. Þeir opnuðu fréttavef, Ministerbetjening, og gáfu út skýrslu um málið: Valeur, Erik og Lars Rugaard (2010). Ministerbetjening: en journalistik hvidbog om offentlighedsloven [Kaupmannahöfn: höf.].

Málið hefur verið til umræðu á yfirstandandi þingi en nýtt frumvarp hefur ekki verið lagt fram, sjá: Folketingstidende. F 3 Om ny offenglihedslov (Samling 2012-13).

Noregur
Lov om rett til innsyn i dokument i offentleg verksemd (offentleglova). LOV 2006-05-19 nr 16.

Svíþjóð
Offentlighets- och sekretesslag (2009/400).
Förordning 2009/641: Offentlighets- och sekretessförordning.
Lag (1991/1559) med föreskrifter på tryckfrihetsförordningens och yttrandefrihetsgrundlagens områden.
Förordning (1949/105) Tryckfrihetsförordning.

Finnland
Lag om offentlighet i myndigheternas verksamhet 1999/621.
Förordning: 2010/681: Statsrådets förordning om informationssäkerheten inom statsförvaltningen.

Annað efni
Reglugerð 2001/1049/ EB frá 30. maí 2001, um almennan aðgang að skjölum Evrópuþingsins og ráðsins og framkvæmdastjórnarinnar.

Tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins 2003/98/EB frá 17. nóvember 2003 um endurnotkun upplýsinga frá hinu opinbera.

Forsætisráðuneytið. Fréttatilkynning 3.1.2013. Ný upplýsingalög hafa tekið gildi.Síðast breytt 07.05.2013. Tenglar í efni sem ekki er á vef Alþingis geta breyst og eru birtir án ábyrgðar. Unnið af starfsfólki upplýsinga- og rannsóknaþjónustu Alþingis.

Um samantektir

Samantektir um þingmál hafa verið birtar á vef Alþingis síðan á 141. þingi (2012-2013). Markmiðið er að setja fram í stuttu máli greinargóðar upplýsingar um þingmál og að tengja í efni sem gæti skýrt það frekar.

Samantektir eru einkum unnar um stjórnarfrumvörp en upplýsingum um önnur mál er bætt við eftir þörfum. Fylgst er með máli frá því að það kemur fram á þinginu og upplýsingum bætt við eftir því sem fram vindur. Þær eru að mestu fengnar úr texta frumvarps og umsagna, en tengt er í efni á öðrum vefjum eftir því sem tilefni er til. Tenglar í efni sem ekki er á vef Alþingis geta breyst og eru birtir án ábyrgðar. Umfjöllunin á að vera óhlutdræg en ekki er hægt að gera ráð fyrir að hún sé tæmandi. Samantektin er ekki hluti af þinglegri meðferð né formlegum skjölum þingmálsins.

Allar ábendingar og athugasemdir eru vel þegnar og má senda þær á netfangið upplysing@althingi.is.