Samantekt um þingmál

Neytendalán

220. mál á 141. löggjafarþingi.
Atvinnuvega- og nýsköpunarráðherra.

Markmið

Að auka neytendavernd vegna lánastarfsemi.

Helstu breytingar og nýjungar

Eftirlit verður aukið með smálánum og þeim fyrirtækjum sem veita slík lán og lánamiðlurum, en undir þá falla allir þeir sem bjóða upp á fjármögnun á því sem keypt er fyrir hönd þriðja aðila.

Breytingar á lögum og tengd mál

Lög nr. 121/1994, um neytendalán, verða felld úr gildi.
Innleiða á tilskipun 2008/48/EB, um neytendalán, og þá fellur úr gildi fyrri tilskipun um sama efni, 87/102/EBE.
 

  • Endurflutt: Neytendalán, 704. mál (efnahags- og viðskiptaráðherra) á 140. þingi (31.03.2012)

Kostnaður og tekjur

Eykur kostnað Neytendastofu um 9 milljónir kr. á ári.

Umsagnir (helstu atriði)

Umsagnir eru almennt jákvæðar og frumvarpið, ef það verður að lögum, er talið auka rétt neytenda á fjármálamarkaði. Hins vegar eru gerðar nokkrar athugasemdir við tyrfið og óskýrt orðalag og þá er talið nauðsynlegt að reglugerð sem byggi á lögunum sem og aðgengilegar upplýsingar um framkvæmd laganna verði tilbúnar áður en lögin taka gildi. Nokkrir aðilar gagnrýna frumvarpið harðlega og telja að verið sé að blekkja neytendur.

Afgreiðsla

Töluverðar breytingar voru gerðar á frumvarpinu til að tryggja betur hagsmuni lántakenda og upplýsingaskyldu lánveitenda. Það var samþykkt mótatkvæðalaust og tekur gildi 1. september 2013.

Aðrar upplýsingar

Neytendastofa

Hagsmunasamtök heimilanna

Löggjöf á Norðurlöndum

Danmörk

Bekendtgørelse af lov om kreditaftaler LBK nr. 761 af 11/06/2011.
 

Fjölmiðlaumfjöllun

Bjóða smálán með 608% ársvöxtum. Mbl.is 29.10.2009.

EES verndar smálánin. Smugan 21.08.2012.

Enginn neyddur til að taka smálán. Ruv.is 22.08.2012.

Fréttasafn um smálán, þ.á m. um smálán í ýmsum löndum á vef Ruv.is.

Hagsmunasamtök heimilanna hafa birt auglýsingar gegn frumvarpinu og hefur ráðherra brugðist við með yfirlýsingum á Smugunni.

 



Síðast breytt 19.03.2013. Tenglar í efni sem ekki er á vef Alþingis geta breyst og eru birtir án ábyrgðar. Unnið af starfsfólki upplýsinga- og rannsóknaþjónustu Alþingis.

Um samantektir

Samantektir um þingmál hafa verið birtar á vef Alþingis síðan á 141. þingi (2012-2013). Markmiðið er að setja fram í stuttu máli greinargóðar upplýsingar um þingmál og að tengja í efni sem gæti skýrt það frekar.

Samantektir eru einkum unnar um stjórnarfrumvörp en upplýsingum um önnur mál er bætt við eftir þörfum. Fylgst er með máli frá því að það kemur fram á þinginu og upplýsingum bætt við eftir því sem fram vindur. Þær eru að mestu fengnar úr texta frumvarps og umsagna, en tengt er í efni á öðrum vefjum eftir því sem tilefni er til. Tenglar í efni sem ekki er á vef Alþingis geta breyst og eru birtir án ábyrgðar. Umfjöllunin á að vera óhlutdræg en ekki er hægt að gera ráð fyrir að hún sé tæmandi. Samantektin er ekki hluti af þinglegri meðferð né formlegum skjölum þingmálsins.

Allar ábendingar og athugasemdir eru vel þegnar og má senda þær á netfangið rannsoknathjonusta@althingi.is.