Samantekt um þingmál

Búfjárhald

282. mál á 141. löggjafarþingi.
Atvinnuvega- og nýsköpunarráðherra.

Markmið

Að auka skilvirkni stjórnsýslu er varðar búfjárhald og dýravelferð.

Helstu breytingar og nýjungar

Lagt er til að verkefni sem nú eru á ábyrgð sveitarfélaga og Umhverfisstofnunar verði flutt til Matvælastofnunar og að stofnunin sjái framvegis um framkvæmd þeirra. Meðal annars muni stofnunin halda utan um skrár um þá sem halda búfé auk þess að safna hagtölum og annast eftirlit með merkingum búfjár.

Breytingar á lögum og tengd mál

Ef frumvarpið verður að lögum falla úr gildi lög nr. 103/2002, um búfjárhald.

  • Skylt mál: Velferð dýra, 283. mál (atvinnuvega- og nýsköpunarráðherra) á 141. þingi (23.10.2012)

Kostnaður og tekjur

Að mati fjárlagaskrifstofu munu útgjöld Matvælastofnunar aukast um 83 milljónir kr. en tekjur um 6 milljónir kr., sem þýðir 77 milljóna kr. útgjaldaauka. Samband íslenskra sveitarfélaga telur kostnaðarauka þeirra nema tugum milljóna. Í umsögn fjárlagaskrifstofu segir: Gera verður ráð fyrir að gert verði samkomulag um verkefnatilfærslu milli ríkisins og sveitarfélaga þannig að hvorugur aðilinn beri skarðan hlut frá borði. Nánari umfjöllun um fjárhagsleg áhrif er í umsögn fjárlagaskrifstofu um frumvarp til laga um velferð dýra.
 

Umsagnir (helstu atriði)

Fjölmargar umsagnir bárust þar sem gerðar eru ýmsar minni háttar athugasemdir en í flestum þeirra er þeim tilmælum beint til nefndarinnar að komið verði í veg fyrir lausagöngu búfjár.

Afgreiðsla

Samþykkt sem lög með nokkrum breytingum, þ.á m. voru heimildir Matvælastofnunar skýrðar nánar og verknaðarlýsingar vegna brota sem heimilt er að refsa fyrir skv. lögunum, 13. gr., var bætt við.

Aðrar upplýsingar

Löggjöf á Norðurlöndum

Danmörk
Bekendtgørelse af lov om mark- og vejfred(Mark- og vejfredsloven) LBK 61/2007.

Noregur
Lov om ymse beitespørsmål [beitelova] nr. 12/1961.

Svíþjóð
Lag om ägofred (1933:269).

Finnland
Lag angående ägors fredande mot skada av husdjur 18.2.1921/47.

Fjölmiðlaumfjöllun

Heimildarmyndin Fjallkonan hrópar á vægð, sem fjallar um gróðureyðingu og er ákall um stöðvun lausagöngu búfénaðar á Íslandi, hefur verið sýnd í bíó og í sjónvarpi. Höfundur hennar hefur ásamt fleira fólki staðið fyrir undirskriftarsöfnun til að skora á Alþingi að setja í lög bann við lausagöngu búfjár.

Þorvaldur Gylfason. Hagnýtar ástæður. DV 13.7.2012.
Neyðaróp fjallkonunnar (viðtal við Herdísi Þorvaldssdóttur). Fréttatíminn 14.10.2012.
Umhverfisráðherra vill láta banna lausagöngu búfjár. Bylgjan, fréttir 12:00 1.11.2012.
Bann við lausagöngu myndi kippa stoðunum undan búskap. visir.is 1.11.2012.



Síðast breytt 12.04.2013. Tenglar í efni sem ekki er á vef Alþingis geta breyst og eru birtir án ábyrgðar. Unnið af starfsfólki upplýsinga- og rannsóknaþjónustu Alþingis.

Um samantektir

Samantektir um þingmál hafa verið birtar á vef Alþingis síðan á 141. þingi (2012-2013). Markmiðið er að setja fram í stuttu máli greinargóðar upplýsingar um þingmál og að tengja í efni sem gæti skýrt það frekar.

Samantektir eru einkum unnar um stjórnarfrumvörp en upplýsingum um önnur mál er bætt við eftir þörfum. Fylgst er með máli frá því að það kemur fram á þinginu og upplýsingum bætt við eftir því sem fram vindur. Þær eru að mestu fengnar úr texta frumvarps og umsagna, en tengt er í efni á öðrum vefjum eftir því sem tilefni er til. Tenglar í efni sem ekki er á vef Alþingis geta breyst og eru birtir án ábyrgðar. Umfjöllunin á að vera óhlutdræg en ekki er hægt að gera ráð fyrir að hún sé tæmandi. Samantektin er ekki hluti af þinglegri meðferð né formlegum skjölum þingmálsins.

Allar ábendingar og athugasemdir eru vel þegnar og má senda þær á netfangið rannsoknathjonusta@althingi.is.