Samantekt um þingmál

Ráðstafanir í ríkisfjármálum

468. mál á 141. löggjafarþingi.
Fjármála- og efnahagsráðherra.

Markmið

Að auka tekjur ríkissjóðs í samræmi við forsendur fjárlaga 2013.

Helstu breytingar og nýjungar

Breytingum í frumvarpinu má skipta í nokkra flokka.
Sérstakar tekjuöflunaraðgerðir, þ. á m. hækkun virðisaukaskatts á gistiþjónustu, vörugjalds á bílaleigubíla og tryggingagjalds.
Breytingar sem viðhalda tekjum ríkissjóðs, þ. á m. er framlenging á umhverfissköttum sem áttu að falla niður í árslok 2012.
Breytingar sem snúa að aðgerðum í tengslum við kjarasamninga en það er lækkun atvinnutryggingagjalds og afnám afdráttarskatts af vaxtatekjum erlendra aðila.
Þá eru hækkanir á krónutölusköttum og gjaldskrám í samræmi við verðlagsforsendur.
Auk þessa eru aðgerðir sem lækka tekjur ríkissjóðs og auka útgjöld, t.d. hækkun vaxta- og barnabóta.

Breytingar á lögum og tengd mál

Breyta þarf tæplega 20 lögum sem flest tengjast skattheimtu.

Kostnaður og tekjur

Gert er ráð fyrir að tekjur ríkissjóðs aukist um 2,7 milljarða kr.

Umsagnir (helstu atriði)

Gerðar eru fjölmargar athugasemdir sem flestar mótmæla hækkun gjalda og telja aðgerðirnar ekki skila þeim árangri sem ætlast er til auk þess sem þær séu´verulega íþyngjandi fyrir fyrirtæki og heimil.

Afgreiðsla

Nokkrar breytingar voru gerðar og þær helstar að hækkun virðisaukaskatts á gistiþjónustu var frestað til 1. september 2013 og fallið var frá hækkunum á ýmsum krónutölusköttum, þ.á m. á eldsneyti, bílum og léttu áfengi.

Aðrar upplýsingar

Frumvarp sem þetta er lagt fram á hverju þingi í tengslum við afgreiðslu fjárlaga og gengur venjulega undir heitinu Bandormur.


Síðast breytt 27.12.2012. Tenglar í efni sem ekki er á vef Alþingis geta breyst og eru birtir án ábyrgðar. Unnið af starfsfólki upplýsinga- og rannsóknaþjónustu Alþingis.

Um samantektir

Samantektir um þingmál hafa verið birtar á vef Alþingis síðan á 141. þingi (2012-2013). Markmiðið er að setja fram í stuttu máli greinargóðar upplýsingar um þingmál og að tengja í efni sem gæti skýrt það frekar.

Samantektir eru einkum unnar um stjórnarfrumvörp en upplýsingum um önnur mál er bætt við eftir þörfum. Fylgst er með máli frá því að það kemur fram á þinginu og upplýsingum bætt við eftir því sem fram vindur. Þær eru að mestu fengnar úr texta frumvarps og umsagna, en tengt er í efni á öðrum vefjum eftir því sem tilefni er til. Tenglar í efni sem ekki er á vef Alþingis geta breyst og eru birtir án ábyrgðar. Umfjöllunin á að vera óhlutdræg en ekki er hægt að gera ráð fyrir að hún sé tæmandi. Samantektin er ekki hluti af þinglegri meðferð né formlegum skjölum þingmálsins.

Allar ábendingar og athugasemdir eru vel þegnar og má senda þær á netfangið rannsoknathjonusta@althingi.is.