Samantekt um þingmál

Almenn hegningarlög

478. mál á 141. löggjafarþingi.
Innanríkisráðherra.

Markmið

Markmið frumvarpsins er að gera ákvæði 200.–202. gr. almennra hegningarlaga, sem varða kynferðisbrot gegn börnum, skýrari og í samræmi við réttarframkvæmd á þessu sviði.

Helstu breytingar og nýjungar

Lagt er til að ekki verði gerður greinarmunur á refsihámarki brota, í formi samræðis eða annarra kynferðismaka við barn yngra en 15 ára, eftir því hvort um er að ræða brot innan eða utan fjölskyldusambands eða annars trúnaðarsambands.
Gerður verði greinarmunur á refsimörkum kynferðisbrota gegn börnum eftir því hvort þau eru framin fyrir 15 ára aldur eða eftir það, þ.e. þegar barn er 15, 16 eða 17 ára gamalt.
Lagt er til að refsing vegna samræðis eða annarra kynferðismaka við barn innan fjölskyldu eða annars trúnaðarsambands varði allt að 12 ára fangelsi þegar barn er 15, 16 eða 17 ára.
Lagt er til að lögfest verði sérstök heimild til refsiþyngingar þegar kynferðisbrot er framið í trúnaðarsambandi geranda og barns undir 15 ára aldri.
Lagt er til að brot sem varða samræði eða önnur kynferðismök við barn undir 15 ára aldri fyrnist ekki.

Breytingar á lögum og tengd mál

Almenn hegningarlög nr. 19/1940.

Kostnaður og tekjur

Ekki er gert ráð fyrir auknum kostnaði fyrir ríkissjóð.

Umsagnir (helstu atriði)

Umsagnir voru jákvæðar. Gerðar voru athugasemdir við 2. gr. frumvarpsins og bent á að hægt væri að túlka breytinguna á þann hátt að það sé vægara brot að brjóta gegn barni yngra en 15 ára en gegn barni 15, 16 eða 17 ára. Í athugasemd við 4. gr. frumvarpsins var bent á að það kunni að orka tvímælis að ekki sé gert ráð fyrir að hægt sé að þyngja refsingu þegar brot er framið í trúnaðarsambandi eftir að þolandinn hefur náð 15 ára aldri.

Afgreiðsla

Frumvarpið varð að lögum með minni háttar breytingum.

Aðrar upplýsingar

Löggjöf á Norðurlöndum
Danmörk
Bekendtgørelse af straffeloven LBK nr 1007 af 24/10/2012.
Sjá einkum 23. kafla og 24. kafla.

Noregur
Almindelig borgerlig Straffelov (Straffeloven) LOV-1902-05-22-10.
Sjá einkum 19. kafla.

Svíþjóð
Brottsbalk ( 1962:700).
Sjá einkum 6. kafla.

Finnland
Strafflag 19.12.1889/39.
Sjá einkum 20. kafla.Síðast breytt 12.04.2013. Tenglar í efni sem ekki er á vef Alþingis geta breyst og eru birtir án ábyrgðar. Unnið af starfsfólki upplýsinga- og rannsóknaþjónustu Alþingis.

Um samantektir

Samantektir um þingmál hafa verið birtar á vef Alþingis síðan á 141. þingi (2012-2013). Markmiðið er að setja fram í stuttu máli greinargóðar upplýsingar um þingmál og að tengja í efni sem gæti skýrt það frekar.

Samantektir eru einkum unnar um stjórnarfrumvörp en upplýsingum um önnur mál er bætt við eftir þörfum. Fylgst er með máli frá því að það kemur fram á þinginu og upplýsingum bætt við eftir því sem fram vindur. Þær eru að mestu fengnar úr texta frumvarps og umsagna, en tengt er í efni á öðrum vefjum eftir því sem tilefni er til. Tenglar í efni sem ekki er á vef Alþingis geta breyst og eru birtir án ábyrgðar. Umfjöllunin á að vera óhlutdræg en ekki er hægt að gera ráð fyrir að hún sé tæmandi. Samantektin er ekki hluti af þinglegri meðferð né formlegum skjölum þingmálsins.

Allar ábendingar og athugasemdir eru vel þegnar og má senda þær á netfangið upplysing@althingi.is.