Samantekt um þingmál

Tóbaksvarnir og verslun með áfengi og tóbak

499. mál á 141. löggjafarþingi.
Velferðarráðherra.

Markmið

Að draga úr neyslu á reyklausu tóbaki og því heilsutjóni sem slík neysla veldur.

Helstu breytingar og nýjungar

Lagt er til bann við innflutningi, framleiðslu og sölu tóbaksvara sem sérstaklega er beint að ungu fólki. Felld er niður undanþága um innflutning, framleiðslu og sölu á skrotóbaki og tóbaksneysla innan framhalds- og sérskóla bönnuð. Lagt er til að sett verði reglugerð sem kveði meðal annars á um leyfilega kornastærð reyklauss tóbaks.

Breytingar á lögum og tengd mál

Lög um tóbaksvarnir nr. 6/2002.
Lög um verslun með áfengi og tóbak nr. 86/2011.
Frumvarpið er endurflutt frá 139. þingi með nokkrum viðbótum.

Kostnaður og tekjur

Ekki er gert ráð fyrir auknum kostnaði fyrir ríkissjóð.

Umsagnir (helstu atriði)

Margir umsagnaraðila fögnuðu frumvarpinu og lögðu til að það yrði samþykkt. Aðrir bentu á að munntóbak væri mun skaðlausara en reyktóbak og því væri ávinningur af banni ekki skýr. Bent var á að markmið frumvarpsins væru óskýr og ekki ljóst hver hin umrædda bannvara væri. Einnig kom fram að frumvarpið væri andstætt meginreglum EES-samningsins um frjálsa vörflutninga milli landa og bryti gegn jafnræðisreglu stjórnarskrárinnar.

Afgreiðsla

Frumvarpið var afgreitt úr nefnd til 2. umræðu.

Fjölmiðlaumfjöllun

Pétur Heimisson, Eyjólfur Þorkelsson (2013). Er reyklaust tóbak lyf að mati lækna? Læknablaðið 2. tbl. 99. árg.
Sjá ekki ávinning af munntóbaksbanni [frétt]. Morgunblaðið 16.1.2013.



Síðast breytt 12.04.2013. Tenglar í efni sem ekki er á vef Alþingis geta breyst og eru birtir án ábyrgðar. Unnið af starfsfólki upplýsinga- og rannsóknaþjónustu Alþingis.

Um samantektir

Samantektir um þingmál hafa verið birtar á vef Alþingis síðan á 141. þingi (2012-2013). Markmiðið er að setja fram í stuttu máli greinargóðar upplýsingar um þingmál og að tengja í efni sem gæti skýrt það frekar.

Samantektir eru einkum unnar um stjórnarfrumvörp en upplýsingum um önnur mál er bætt við eftir þörfum. Fylgst er með máli frá því að það kemur fram á þinginu og upplýsingum bætt við eftir því sem fram vindur. Þær eru að mestu fengnar úr texta frumvarps og umsagna, en tengt er í efni á öðrum vefjum eftir því sem tilefni er til. Tenglar í efni sem ekki er á vef Alþingis geta breyst og eru birtir án ábyrgðar. Umfjöllunin á að vera óhlutdræg en ekki er hægt að gera ráð fyrir að hún sé tæmandi. Samantektin er ekki hluti af þinglegri meðferð né formlegum skjölum þingmálsins.

Allar ábendingar og athugasemdir eru vel þegnar og má senda þær á netfangið rannsoknathjonusta@althingi.is.