Samantekt um þingmál

Almannatryggingar og málefni aldraðra

25. mál á 142. löggjafarþingi.
Félags- og húsnæðismálaráðherra.

Markmið

Að draga til baka tekjutengingar greiðslna almannatrygginga til aldraðra og öryrkja, í samræmi við stefnuyfirlýsingu ríkisstjórnar Framsóknarflokks og Sjálfstæðisflokks frá 22. maí 2013.

Helstu breytingar og nýjungar

Lagt er til að frítekjumark ellilífeyrisþega vegna atvinnutekna verði hækkað úr 40.000 kr. í 109.600 kr. á mánuði. Einnig er lagt til að lífeyrissjóðstekjur skerði ekki lengur grunnlífeyri elli- og örorkulífeyrisþega. Kveðið er á um leiðbeiningar- og upplýsingaskyldu Tryggingastofnunar, eftirlit og meðferð persónuupplýsinga.

Breytingar á lögum og tengd mál

Verið er að draga til baka í áföngum breytingar sem gerðar voru með lögum um ráðstafanir í ríkisfjármálum nr. 90/2009, VII. kafli.

Kostnaður og tekjur

Gert er ráð fyrir að lögfesting frumvarpsins hafi í för með sér 850 milljóna kr. viðbótarútgjöld á þessu ári. Að samanlögðu er áætlað að frá og með árinu 2014 nemi árleg aukning útgjalda til almannatryggingakerfisins um 4,6 milljörðum kr.

Umsagnir (helstu atriði)

Margir umsagnaraðilar lýstu yfir ánægju með að fyrri skerðingar vegna tekna úr lífeyrissjóðum gengju til baka. Bent var á að tekjumunur lífeyrisþega myndi aukast og að frumvarpið hefði neikvæð áhrif á jafnrétti kynja. Hækkun á grunnlífeyri almannatrygginga var talin nýtast betur og stuðla fremur að jöfnuði. Bent var á mikilvægi þeirrar heildarendurskoðunar á almannatryggingakerfinu sem unnið hefur verið að. Ríkisskattstjóri benti á að skylda embættisins til að afhenda öðru stjórnvaldi upplýsingar bryti gegn trúnaðar- og þagnarskyldu sem á starfsmenn skattyfirvalda er lögð.

Afgreiðsla

Frumvarpið varð að lögum með þeim breytingum að kaflinn um leiðbeiningar- og upplýsingaskyldu og eftirlitsheimildir Tryggingastofnunar var felldur út.

Aðrar upplýsingar

Stefnuyfirlýsing ríkisstjórnar Framsóknarflokks og Sjálfstæðisflokks frá 22. maí 2013.

Fjölmiðlaumfjöllun

Árni Páll Árnason. Byrjað á öfugum enda. Fréttablaðið 27.6.2013.
Eygló Harðardóttir. Kjör lífeyrisþega leiðrétt strax. Fréttablaðið 26.6.2013.
Frítekjumark aldraðra hækkar í 1,3 milljónir. Morgunblaðið 26.6.2013.
Jóna Valgerður Kristjánsdóttir. Hluti skerðinga á kjörum eldri borgara dreginn til baka. Morgunblaðið 3.7.2013. 
Telur bótagreiðslur kalla á skattahækkanir. Rúv.is 26.6.2013.
Þorbera Fjölnisdóttir. Loforð og efndir. Fréttablaðið 3.7.2013. 
Síðast breytt 05.07.2013. Tenglar í efni sem ekki er á vef Alþingis geta breyst og eru birtir án ábyrgðar. Unnið af starfsfólki upplýsinga- og rannsóknaþjónustu Alþingis.

Um samantektir

Samantektir um þingmál hafa verið birtar á vef Alþingis síðan á 141. þingi (2012-2013). Markmiðið er að setja fram í stuttu máli greinargóðar upplýsingar um þingmál og að tengja í efni sem gæti skýrt það frekar.

Samantektir eru einkum unnar um stjórnarfrumvörp en upplýsingum um önnur mál er bætt við eftir þörfum. Fylgst er með máli frá því að það kemur fram á þinginu og upplýsingum bætt við eftir því sem fram vindur. Þær eru að mestu fengnar úr texta frumvarps og umsagna, en tengt er í efni á öðrum vefjum eftir því sem tilefni er til. Tenglar í efni sem ekki er á vef Alþingis geta breyst og eru birtir án ábyrgðar. Umfjöllunin á að vera óhlutdræg en ekki er hægt að gera ráð fyrir að hún sé tæmandi. Samantektin er ekki hluti af þinglegri meðferð né formlegum skjölum þingmálsins.

Allar ábendingar og athugasemdir eru vel þegnar og má senda þær á netfangið upplysing@althingi.is.