Samantekt um þingmál

Skiptileigusamningar fyrir afnot af húsnæði í orlofi eða frístundum o.fl.

92. mál á 143. löggjafarþingi.
Innanríkisráðherra.

Markmið

Að innleiða í íslenskan rétt ákvæði tilskipunar Evrópuþingsins og ráðsins, 2008/122/EB, frá 14. janúar 2009, um neytendavernd að því er varðar tiltekna þætti skiptileigusamninga, samninga um orlofskosti til langs tíma, endursölu- og skiptasamninga.

Helstu breytingar og nýjungar

Með tilskipuninni er neytendavernd aukin og neytendur njóta rýmri réttar til að falla frá samningi. Tilskipunin kveður einnig á um fulla samræmingu reglna á Evrópska efnahagssvæðinu. Það þýðir að einstök ríki geta ekki sett reglur sem ganga lengra eða skemur en segir í tilskipuninni. Neytendur jafnt sem seljendur geta gengið að því vísu að reglur landanna séu að öllu leyti þær sömu.

Breytingar á lögum og tengd mál

Frumvarpið er lagt fram að nýju með breytingum sem allsherjar- og menntamálanefnd lagði til á 141. þingi.
Verði frumvarpið að lögum falla úr gildi lög um gerð samninga um hlutdeild í afnotarétti orlofshúsnæðis, nr. 23/1997.

Kostnaður og tekjur

Gert er ráð fyrir að óverulegur kostnaður falli til hjá Neytendastofu.

Umsagnir (helstu atriði)

Umsögn barst frá Neytendastofu. Þar var meðal annars gerð athugasemd við skilgreiningu á hugtakinu neytandi, bent á að betra væri að skylda seljanda til að nota stöðluð eyðublöð til upplýsingagjafar auk þess sem lagðar voru til orðalagsbreytingar.

Afgreiðsla

Frumvarpið varð óbreytt að lögum.


Síðast breytt 19.11.2013. Tenglar í efni sem ekki er á vef Alþingis geta breyst og eru birtir án ábyrgðar. Unnið af starfsfólki upplýsinga- og rannsóknaþjónustu Alþingis.

Um samantektir

Samantektir um þingmál hafa verið birtar á vef Alþingis síðan á 141. þingi (2012-2013). Markmiðið er að setja fram í stuttu máli greinargóðar upplýsingar um þingmál og að tengja í efni sem gæti skýrt það frekar.

Samantektir eru einkum unnar um stjórnarfrumvörp en upplýsingum um önnur mál er bætt við eftir þörfum. Fylgst er með máli frá því að það kemur fram á þinginu og upplýsingum bætt við eftir því sem fram vindur. Þær eru að mestu fengnar úr texta frumvarps og umsagna, en tengt er í efni á öðrum vefjum eftir því sem tilefni er til. Tenglar í efni sem ekki er á vef Alþingis geta breyst og eru birtir án ábyrgðar. Umfjöllunin á að vera óhlutdræg en ekki er hægt að gera ráð fyrir að hún sé tæmandi. Samantektin er ekki hluti af þinglegri meðferð né formlegum skjölum þingmálsins.

Allar ábendingar og athugasemdir eru vel þegnar og má senda þær á netfangið rannsoknathjonusta@althingi.is.