Samantekt um þingmál

Umferðarlög

102. mál á 144. löggjafarþingi.
Innanríkisráðherra.

Markmið

Leiðrétting innleiðingar EES-réttar. Lögleiðing ákvæða úr heildarfrumvarpi til nýrra umferðarlaga sem brýnt er að nái fram að ganga. 

Helstu breytingar og nýjungar

Breytingar á skilgreiningum á nokkrum ökutækjum til samræmis við tilskipanir Evrópusambandsins. Lagt er til að léttum bifhjólum verði skipt í tvo flokka eftir afli þeirra og einnig er í frumvarpinu að finna sérreglur um akstur þeirra. Lögð eru til ákvæði sem skylda atvinnubílstjóra til endurmenntunar. Samgöngustofu verður falið að veita undanþágur frá skráningu ökutækis sem ekki er ætlað til almennrar umferðar. Umferðareftirlitsmönnum verður heimilt að kanna ástand tiltekinna ökutækja á vegum og fjarlægja skráningarnúmer reynist þau vanbúin. Einnig eru lögð til ákvæði um að börn undir 135 sm á hæð skuli nota öryggisbúnað í bifreiðum. 

Breytingar á lögum og tengd mál

  • Endurflutt: Umferðarlög, 284. mál (innanríkisráðherra) á 143. þingi (27.01.2014)
  • Skylt mál: Umferðarlög, 179. mál (innanríkisráðherra) á 141. þingi (25.09.2012)

Kostnaður og tekjur

Ákvæði frumvarpsins, sem varða skráningu ökutækja, geta haft áhrif á tekjur ríkissjóðs en talið er að þau séu óveruleg.

Umsagnir (helstu atriði)

Í umsögnum voru einkum gerðar athugasemdir við 5. gr. frumvarpsins sem varðar endurmenntun atvinnubílstjóra og þótti greinin of íþyngjandi. Landssamtök hjólreiðamanna gerðu athugasemdir við að létt bifhjól í flokki I verði leyfð í umferð á öllum gangstéttum. Aukið vald eftirlitsmanna Samgöngustofu við skoðun á ástandi ökutækja á vegum úti var gagnrýnt. Einnig var gagnrýnt að horfið væri frá 150 sm hæðarviðmiði við notkun á öryggisbúnaði barna. Lögreglustjórinn á höfuðborgarsvæðinu og fleiri umsagnaraðilar komu með tillögur að viðbótargreinum í frumvarpið. 

Afgreiðsla

Frumvarpið varð að lögum með breytingum sem einkum vörðuðu létt bifhjól. Einnig verður heimilt að ljúka endurmenntun fyrir atvinnubílstjóra með fjarnámi.


Síðast breytt 20.02.2015. Tenglar í efni sem ekki er á vef Alþingis geta breyst og eru birtir án ábyrgðar. Unnið af starfsfólki upplýsinga- og rannsóknaþjónustu Alþingis.

Um samantektir

Samantektir um þingmál hafa verið birtar á vef Alþingis síðan á 141. þingi (2012-2013). Markmiðið er að setja fram í stuttu máli greinargóðar upplýsingar um þingmál og að tengja í efni sem gæti skýrt það frekar.

Samantektir eru einkum unnar um stjórnarfrumvörp en upplýsingum um önnur mál er bætt við eftir þörfum. Fylgst er með máli frá því að það kemur fram á þinginu og upplýsingum bætt við eftir því sem fram vindur. Þær eru að mestu fengnar úr texta frumvarps og umsagna, en tengt er í efni á öðrum vefjum eftir því sem tilefni er til. Tenglar í efni sem ekki er á vef Alþingis geta breyst og eru birtir án ábyrgðar. Umfjöllunin á að vera óhlutdræg en ekki er hægt að gera ráð fyrir að hún sé tæmandi. Samantektin er ekki hluti af þinglegri meðferð né formlegum skjölum þingmálsins.

Allar ábendingar og athugasemdir eru vel þegnar og má senda þær á netfangið upplysing@althingi.is.