Samantekt um þingmál

Ívilnanir til nýfjárfestinga á Íslandi

11. mál á 144. löggjafarþingi.
Iðnaðar- og viðskiptaráðherra.

Markmið

Að efla nýfjárfestingu í atvinnurekstri.

Helstu breytingar og nýjungar

Gert er ráð fyrir að sett verði ákveðin skilyrði fyrir ívilnunum, t.d. að að minnsta kosti 75% af fjárfestingarkostnaði verði fjármögnuð án ríkisaðstoðar og að lágmarki 20% af eigin fé auk þess þurfi nýfjárfestingin að skapa að minnsta kosti 20 ársverk. Þá flokkist sérstakar ívilnanir undir byggðaaðstoð, þ.e. ívilnanir sem takmarkist við ákveðin svæði á Íslandi þar sem heimilt er að veita byggðaaðstoð samkvæmt samningi um Evrópska efnahagssvæðið og með samþykki ESA. Þær ívilnanir sem lagðar eru til felast í frávikum frá sköttum og gjöldum, þ.e. í tekjum sem ríkissjóður verður af eða svonefndum skattastyrkjum, fremur en í beinum útgreiðslum sem færast á gjaldahlið ríkissjóðs.

Breytingar á lögum og tengd mál

Um er ræða ný lög en þau byggjast í grunninn á lögum um ívilnanir vegna nýfjárfestinga á Íslandi nr. 99/2010, sem féllu úr gildi í lok árs 2013.

Kostnaður og tekjur

Ekki er hægt að leggja mat á tekjur eða gjöld vegna þessa.

Umsagnir (helstu atriði)

Almennt eru umsagnir jákvæðar um markmið laganna en gerðar eru athugasemdir við að einkum sé miðað við "hefðbundin" framleiðslufyrirtæki.

Afgreiðsla

Samþykkt með nokkrum breytingum sem lúta meðal annars að frekari ívilnunum vegna gjalda en jafnframt ber að leggja sjálfstætt mat á arðsemi verkefna áður en tekin er afstaða til ívilnunar.

Aðrar upplýsingar

Upplýsingasíða atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytis um ívilnanir vegna nýfjárfestinga.

Byggðakort fyrir Ísland árin 2014-2020. Byggðastofnun.

Leiðbeinandi reglur Eftirlitsstofnunar EFTA um ríkisaðstoð, State aid guidelines.

Upplýsingar fyrir stjórnvöld í Evrópu um beitingu styrkjakerfisins European Fund for Strategic Investments (EFSI) 2014-2010.

Finnland
Upplýsingar um stefnu varðandi erlendar fjárfestingar í Finnlandi.

Lag om statens specialfinansieringsbolag 18.6.1998/443 (um ríkisframlög).
Lag om statsgarantifonden 18.6.1998/444 (um ríkisábyrgðasjóð).

Noregur
Lov om Innovasjon Norge LOV-2003-12-19-130 (um fjárfestingarsjóð sem starfar eftir reglum um nýfjárfestingar).
Forskrift om virkeområdet for distriktsrettet investeringsstøtte og regional transportstøtte FOR-2014-06-17-807.

Annað
Skömmu eftir að atvinnuveganefnd skilaði nefndaráliti eftir 2. umræðu undirritaði iðnaðar- og viðskiptaráðherra ívilnunarsamning við Matorku sem byggði á væntanlegri samþykkt þessa frumvarps. Fram fór sérstök umræða í þingsal 23.3.2015.



Síðast breytt 01.07.2015. Tenglar í efni sem ekki er á vef Alþingis geta breyst og eru birtir án ábyrgðar. Unnið af starfsfólki upplýsinga- og rannsóknaþjónustu Alþingis.

Um samantektir

Samantektir um þingmál hafa verið birtar á vef Alþingis síðan á 141. þingi (2012-2013). Markmiðið er að setja fram í stuttu máli greinargóðar upplýsingar um þingmál og að tengja í efni sem gæti skýrt það frekar.

Samantektir eru einkum unnar um stjórnarfrumvörp en upplýsingum um önnur mál er bætt við eftir þörfum. Fylgst er með máli frá því að það kemur fram á þinginu og upplýsingum bætt við eftir því sem fram vindur. Þær eru að mestu fengnar úr texta frumvarps og umsagna, en tengt er í efni á öðrum vefjum eftir því sem tilefni er til. Tenglar í efni sem ekki er á vef Alþingis geta breyst og eru birtir án ábyrgðar. Umfjöllunin á að vera óhlutdræg en ekki er hægt að gera ráð fyrir að hún sé tæmandi. Samantektin er ekki hluti af þinglegri meðferð né formlegum skjölum þingmálsins.

Allar ábendingar og athugasemdir eru vel þegnar og má senda þær á netfangið rannsoknathjonusta@althingi.is.