Samantekt um þingmál

Opinber fjármál

206. mál á 144. löggjafarþingi.
Fjármála- og efnahagsráðherra.

Markmið

Að stuðla að ábyrgri stjórn opinberra fjármála.

Helstu breytingar og nýjungar

Breytingarnar snúa að aukinni áherslu á stefnumótun um opinber fjármál, breytingum á framsetningu fjárlaga, bættum úrræðum til að bregðast við frávikum og aðlögun að alþjóðlegum stöðlum um reikningshald ríkisins. Helstu atriðin eru að lögfest verði ítarlegri ákvæði en nú gilda um stefnumörkun í opinberum fjármálum og skipað skuli fjármálaráð sem leggur mat á hvort stefnunni sé framfylgt. Við framlagningu á frumvarpi til fjárlaga verður leitað heimilda til útgjalda eftir málefnasviðum og málaflokkum í stað fjárlagaliða einstakra stofnana og verkefna.

Breytingar á lögum og tengd mál

Um er að ræða ný lög sem koma í stað laga um fjárreiður ríkisins, nr. 88/1997.
  • Endurflutt: Opinber fjármál, 508. mál (fjármála- og efnahagsráðherra) á 143. þingi (31.03.2014)

Kostnaður og tekjur

Kostnaðaráætlun um áhrifaþætti frumvarpsins liggur ekki fyrir þar sem ekki hefur verið gerð þarfa- og kerfisgreining á umfangi nauðsynlegra breytinga á upplýsingavinnslukerfum. Gera má ráð fyrir að kostnaður verði töluverður þegar til skamms tíma er litið en lögin hafi jákvæð áhrif á afkomu ríkissjóðs til langs tíma litið.

Umsagnir (helstu atriði)

Umsagnaraðilar fagna markmiðum frumvarpsins en gerðar eru fjölmargar athugasemdir við einstaka greinar þess og aðilar vinnumarkaðarins telja ríkisvaldið seilast inn á samningsbundin réttindi.

Afgreiðsla

Afgreitt úr nefnd til 2. umræðu.

Aðrar upplýsingar

Traust stoð opinberrar fjármálastjórnar mikilvæg. Fréttatilkynning frá fjármála- og efnahagsráðuneytinu 9. okt. 2014.

Iceland. Toward a New Organic Budget Law (2012). Washington: International Monetary Fund.

Government Finance Statistics Manuals and Guides (2014). Washington: International Monetary Fund.  

Reglugerð um framkvæmd fjárlaga og ábyrgð á fjárreiðum ríkisstofnana í A-hluta nr. 1061/2004.

Sigurður Rúnar Sigurjónsson (2004). Fjárlagaferli þjóðþinga. Lokaverkefni (M.S.) viðskiptafræði, H.Í. 



Síðast breytt 11.08.2015. Tenglar í efni sem ekki er á vef Alþingis geta breyst og eru birtir án ábyrgðar. Unnið af starfsfólki upplýsinga- og rannsóknaþjónustu Alþingis.

Um samantektir

Samantektir um þingmál hafa verið birtar á vef Alþingis síðan á 141. þingi (2012-2013). Markmiðið er að setja fram í stuttu máli greinargóðar upplýsingar um þingmál og að tengja í efni sem gæti skýrt það frekar.

Samantektir eru einkum unnar um stjórnarfrumvörp en upplýsingum um önnur mál er bætt við eftir þörfum. Fylgst er með máli frá því að það kemur fram á þinginu og upplýsingum bætt við eftir því sem fram vindur. Þær eru að mestu fengnar úr texta frumvarps og umsagna, en tengt er í efni á öðrum vefjum eftir því sem tilefni er til. Tenglar í efni sem ekki er á vef Alþingis geta breyst og eru birtir án ábyrgðar. Umfjöllunin á að vera óhlutdræg en ekki er hægt að gera ráð fyrir að hún sé tæmandi. Samantektin er ekki hluti af þinglegri meðferð né formlegum skjölum þingmálsins.

Allar ábendingar og athugasemdir eru vel þegnar og má senda þær á netfangið rannsoknathjonusta@althingi.is.