Samantekt um þingmál

Meðferð sakamála og lögreglulög

430. mál á 144. löggjafarþingi.
Dómsmálaráðherra.

Markmið

Að mæla fyrir um framtíðarskipan rannsókna efnahagsbrota og efla og styrkja ákæruvaldið í landinu. 

Helstu breytingar og nýjungar

Verði frumvarpið að lögum flyst ákvörðun um málshöfðun að mestu frá embætti ríkissaksóknara til lögreglustjóra og héraðssaksóknara. Einnig flytjast verkefni embættis sérstaks saksóknara til héraðssaksóknara. Ríkissaksóknara er falið að hafa íhlutun og eftirlit með rannsókn og saksókn lögreglustjóra. Embætti héraðssaksóknara verður einnig fengið það hlutverk að annast lögreglurannsóknir í skatta- og efnahagsbrotamálum og nokkrum fleiri brotaflokkum.

Breytingar á lögum og tengd mál

Lög um meðferð sakamála nr. 88/2008
Lögreglulög nr. 90/1996.

Kostnaður og tekjur

Verði frumvarpið óbreytt að lögum er talið að útgjöld ríkissjóðs aukist um 507 milljónir kr. Ekki hefur verið gert ráð fyrir þeim auknu útgjöldum í fjárlagafrumvarpi fyrir árið 2015.

Umsagnir (helstu atriði)

Umsagnir voru almennt jákvæðar en gerðar voru athugasemdir við ýmsar greinar frumvarpsins. Lögmannafélag Íslands taldi að skynsamlegt væri að bíða stofnunar millidómstigs. Ríkissaksóknari taldi erfitt að efla starfsemi embættisins ef fjórðungur fjárframlaga þess færist til hins nýja embættis héraðssaksóknara.

Afgreiðsla

Frumvarpið var samþykkt með minni háttar breytingum.



Síðast breytt 01.07.2015. Tenglar í efni sem ekki er á vef Alþingis geta breyst og eru birtir án ábyrgðar. Unnið af starfsfólki upplýsinga- og rannsóknaþjónustu Alþingis.

Um samantektir

Samantektir um þingmál hafa verið birtar á vef Alþingis síðan á 141. þingi (2012-2013). Markmiðið er að setja fram í stuttu máli greinargóðar upplýsingar um þingmál og að tengja í efni sem gæti skýrt það frekar.

Samantektir eru einkum unnar um stjórnarfrumvörp en upplýsingum um önnur mál er bætt við eftir þörfum. Fylgst er með máli frá því að það kemur fram á þinginu og upplýsingum bætt við eftir því sem fram vindur. Þær eru að mestu fengnar úr texta frumvarps og umsagna, en tengt er í efni á öðrum vefjum eftir því sem tilefni er til. Tenglar í efni sem ekki er á vef Alþingis geta breyst og eru birtir án ábyrgðar. Umfjöllunin á að vera óhlutdræg en ekki er hægt að gera ráð fyrir að hún sé tæmandi. Samantektin er ekki hluti af þinglegri meðferð né formlegum skjölum þingmálsins.

Allar ábendingar og athugasemdir eru vel þegnar og má senda þær á netfangið rannsoknathjonusta@althingi.is.