Samantekt um þingmál

Náttúrupassi

455. mál á 144. löggjafarþingi.
Iðnaðar- og viðskiptaráðherra.

Markmið

Að afla tekna til að stuðla að verndun náttúrunnar og tryggja framlög til öryggismála ferðamanna.

Helstu breytingar og nýjungar

Gert er ráð fyrir að gjald fyrir náttúrupassa verði 1.500 kr. fyrir hvern einstakling 18 ára og eldri, passinn gildi í þrjú ár. Ferðamálastofa annist innheimtu gjaldsins og tekjurnar renni í Framkvæmdasjóð ferðamannastaða. Ráðherra er ætlað að skipa sex fulltrúa í fagráð um öryggismál ferðamanna og ráðið á einnig að gera tillögur um úthlutun fjármuna til verkefna er varða öryggismál ferðamanna.

Breytingar á lögum og tengd mál

Breyta á lögum um Framkvæmdasjóð ferðamannastaða nr. 75/2011 og fella á úr gildi lög um gistináttagjald nr. 87/2001.

Kostnaður og tekjur

Tekjur geta orðið á bilinu 2,2-5,2 milljarðar eftir því hve ferðamenn verða margir. Aukinn kostnaður Ferðamálastofu verður tekinn af gjöldum af náttúrupassanum þannig að nettóstaða ríkissjóðs verður óbreytt.

Aðrar upplýsingar

Atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytið. Fréttir 9.12.2014. Náttúrupassa er ætlað að standa undir uppbyggingu ferðamannastaða og verndun íslenskrar náttúru (meðfylgjandi er lögfræðimat um almannarétt og spurningar og svör varðandi frumvarpið).
Í viðtali við formann atvinnuveganefndar í Morgunblaðinu 21.4.2015, kom fram að frumvarpið yrði ekki afgreitt á yfirstandandi þingi "Ekki lög um náttúrupassa í ár". Ráðherra staðfesti þetta í viðtali við Morgunblaðið 22.4.2015 "Náttúrupassi endanlega sleginn af".


Síðast breytt 05.05.2015. Tenglar í efni sem ekki er á vef Alþingis geta breyst og eru birtir án ábyrgðar. Unnið af starfsfólki upplýsinga- og rannsóknaþjónustu Alþingis.

Um samantektir

Samantektir um þingmál hafa verið birtar á vef Alþingis síðan á 141. þingi (2012-2013). Markmiðið er að setja fram í stuttu máli greinargóðar upplýsingar um þingmál og að tengja í efni sem gæti skýrt það frekar.

Samantektir eru einkum unnar um stjórnarfrumvörp en upplýsingum um önnur mál er bætt við eftir þörfum. Fylgst er með máli frá því að það kemur fram á þinginu og upplýsingum bætt við eftir því sem fram vindur. Þær eru að mestu fengnar úr texta frumvarps og umsagna, en tengt er í efni á öðrum vefjum eftir því sem tilefni er til. Tenglar í efni sem ekki er á vef Alþingis geta breyst og eru birtir án ábyrgðar. Umfjöllunin á að vera óhlutdræg en ekki er hægt að gera ráð fyrir að hún sé tæmandi. Samantektin er ekki hluti af þinglegri meðferð né formlegum skjölum þingmálsins.

Allar ábendingar og athugasemdir eru vel þegnar og má senda þær á netfangið rannsoknathjonusta@althingi.is.