Samantekt um þingmál

Veiðigjöld

692. mál á 144. löggjafarþingi.
Sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra.

Markmið

Að setja heildarlög um veiðigjald til þriggja ára.

Helstu breytingar og nýjungar

Veiðigjald verði ákveðið til þriggja ára á grundvelli sömu aðferðar og viðhöfð var við ákvörðun gjaldanna fyrir yfirstandandi fiskveiðiár 2014/2015. Þá er ákveðið  tiltekið lágmarksveiðigjald á alla stofna, veiðigjaldsnefnd verði falið að reikna framlegð við veiðar á einstökum nytjastofnum og afkomuígildi, sérstakt álag verði lagt á veiðigjald í makríl og veiðigjald verði innheimt í staðgreiðslu. 

Breytingar á lögum og tengd mál

Breyta á lögum um veiðigjöld nr. 74/2012 sem hér eftir eiga að heita lög um veiðigjald. Lögin eiga að falla úr gildi 31. des. 2018.

Kostnaður og tekjur

Eykur tekjur ríkissjóðs um um það bil 15 milljarða króna á þessu ári.

Umsagnir (helstu atriði)

Margar athugasemdir eru gerðar varðandi veiðigjöld almennt sem og efnislegar athugasemdir við einstaka greinar. 

Afgreiðsla

Samþykkt með nokkrum breytingum, þar á meðal var álag á veiðigjald á makríl fellt burt, frítekjumark smærri útgerða í bolfiski var aukið og álag á veiðigjald bolfisks var lækkað úr 20% í 5% en hækkað á uppsjávarfisk úr 20% í 25%. 

Aðrar upplýsingar

Fréttatilkynning atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytisins um framlagningu frumvarpsins 1. apríl 2015.

Fiskistofa (veiðigjöld).Síðast breytt 06.07.2015. Tenglar í efni sem ekki er á vef Alþingis geta breyst og eru birtir án ábyrgðar. Unnið af starfsfólki upplýsinga- og rannsóknaþjónustu Alþingis.

Um samantektir

Samantektir um þingmál hafa verið birtar á vef Alþingis síðan á 141. þingi (2012-2013). Markmiðið er að setja fram í stuttu máli greinargóðar upplýsingar um þingmál og að tengja í efni sem gæti skýrt það frekar.

Samantektir eru einkum unnar um stjórnarfrumvörp en upplýsingum um önnur mál er bætt við eftir þörfum. Fylgst er með máli frá því að það kemur fram á þinginu og upplýsingum bætt við eftir því sem fram vindur. Þær eru að mestu fengnar úr texta frumvarps og umsagna, en tengt er í efni á öðrum vefjum eftir því sem tilefni er til. Tenglar í efni sem ekki er á vef Alþingis geta breyst og eru birtir án ábyrgðar. Umfjöllunin á að vera óhlutdræg en ekki er hægt að gera ráð fyrir að hún sé tæmandi. Samantektin er ekki hluti af þinglegri meðferð né formlegum skjölum þingmálsins.

Allar ábendingar og athugasemdir eru vel þegnar og má senda þær á netfangið upplysing@althingi.is.