Samantekt um þingmál

Veitingastaðir, gististaðir og skemmtanahald

457. mál á 145. löggjafarþingi.
Iðnaðar- og viðskiptaráðherra.

Markmið

Að einfalda regluverk um útleigu húsnæðis til heimagistingar og um eftirlit með veitingastöðum án vínveitingaleyfis.

Helstu breytingar og nýjungar

Einstaklingur sem óskar eftir að starfrækja heimagistingu á lögheimili sínu, eða í einni annarri fasteign í sinni eigu, getur skráð sig á vefsvæði sýslumanns, sem hefur umsjón með þessum málaflokki. Heimilt er að leigja eign að hámarki 90 daga á ári. Rekstrarleyfi til veitingastaða án áfengisveitinga verður eingöngu í höndum sveitarfélaga og ýmsar breytingar verða einnig varðandi eftirlit og flokkun veitingastaða án áfengisveitinga. 

Breytingar á lögum og tengd mál

Breyta á lögum um veitingastaði, gististaði og skemmtanahald nr. 85/2007.

Kostnaður og tekjur

Eykur útgjöld ríkissjóðs um um það bil 30 milljónir króna á ári.

Afgreiðsla

Samþykkt með nokkrum breytingum sem skýra betur og afmarka heimildir. Heimildir einstaklinga til að leigja til heimagistingar miðast við samþykkt íbúðarhúsnæði til 90 daga, hvort sem um er að ræða eina eða fleiri fasteign, og að hámarki fyrir 2 milljónir króna á ári.

Aðrar upplýsingar

Reglugerð um veitingastaði, gististaði og skemmtanahald nr. 585/2007.
Upplýsingar um flokkun gististaða, veitingaleyfi o.fl. á vefnum  syslumenn.is.
Árni Sverrir Hafsteinsson og Jón Bjarni Steinsson (2014).  Skattsvik í ferðaþjónustu. Umfang og leiðir til úrbóta. Bifröst: Rannsóknastofnun atvinnulífsins.
Íslensk ferðaþjónusta (2015). Reykjavík: Íslandsbanki. 


Síðast breytt 02.06.2016. Tenglar í efni sem ekki er á vef Alþingis geta breyst og eru birtir án ábyrgðar. Unnið af starfsfólki upplýsinga- og rannsóknaþjónustu Alþingis.

Um samantektir

Samantektir um þingmál hafa verið birtar á vef Alþingis síðan á 141. þingi (2012-2013). Markmiðið er að setja fram í stuttu máli greinargóðar upplýsingar um þingmál og að tengja í efni sem gæti skýrt það frekar.

Samantektir eru einkum unnar um stjórnarfrumvörp en upplýsingum um önnur mál er bætt við eftir þörfum. Fylgst er með máli frá því að það kemur fram á þinginu og upplýsingum bætt við eftir því sem fram vindur. Þær eru að mestu fengnar úr texta frumvarps og umsagna, en tengt er í efni á öðrum vefjum eftir því sem tilefni er til. Tenglar í efni sem ekki er á vef Alþingis geta breyst og eru birtir án ábyrgðar. Umfjöllunin á að vera óhlutdræg en ekki er hægt að gera ráð fyrir að hún sé tæmandi. Samantektin er ekki hluti af þinglegri meðferð né formlegum skjölum þingmálsins.

Allar ábendingar og athugasemdir eru vel þegnar og má senda þær á netfangið rannsoknathjonusta@althingi.is.