Samantekt um þingmál

Fjármögnun og rekstur nýsköpunarfyrirtækja og smærri fyrirtækja í vexti

668. mál á 145. löggjafarþingi.
Fjármála- og efnahagsráðherra.

Markmið

Að einfalda skattkerfið og auka skilvirkni.

Helstu breytingar og nýjungar

Lagður er til skattafsláttur vegna hlutabréfakaupa einstaklinga, hækkun á hámarki rannsóknar- og þróunarkostnaðar til viðmiðunar á skattfrádrætti nýsköpunarfyrirtækja og lögð er til frádráttarheimild fyrir erlenda sérfræðinga sem ráðnir eru til starfa hér á landi að uppfylltum frekari skilyrðum. Þá eru lagðar til breytingar sem  lúta að skattalegri meðferð svokallaðra kaupréttar- eða valréttarsamninga og um skattalegan hagnað breytilegra skuldabréfa.

Breytingar á lögum og tengd mál

Breyta á lögum um tekjuskatt nr. 90/2003, lögum um staðgreiðslu opinberra gjalda nr. 45/1987, lögum um stuðning við nýsköpunarfyrirtæki nr. 152/2009 og lögum um ívilnanir til nýfjárfestinga á Íslandi nr. 41/2015.

Kostnaður og tekjur

Talið er að skammtímaáhrif, allt að 500 milljónir kr., verði neikvæð fyrir ríkissjóð en þegar til lengri tíma er litið er talið að áhrifin verði jákvæð. Ákvæðin munu þó ekki hafa áhrif fyrr en árið 2017.

Afgreiðsla

Samþykkt með minniháttar breytingum en þeim helstu að skattafrádráttur vegna hlutafjárkaupa er aukinn úr 30% í 50% og lágmarksupphæðin er lækkuð úr 500 þús. kr. í 300 þús. kr.

Aðrar upplýsingar

Stefna og aðgerðaráætlun Vísinda- og tækniráðs 2014-2016. Forsætisráðuneytið, 2014.Síðast breytt 13.06.2016. Tenglar í efni sem ekki er á vef Alþingis geta breyst og eru birtir án ábyrgðar. Unnið af starfsfólki upplýsinga- og rannsóknaþjónustu Alþingis.

Um samantektir

Samantektir um þingmál hafa verið birtar á vef Alþingis síðan á 141. þingi (2012-2013). Markmiðið er að setja fram í stuttu máli greinargóðar upplýsingar um þingmál og að tengja í efni sem gæti skýrt það frekar.

Samantektir eru einkum unnar um stjórnarfrumvörp en upplýsingum um önnur mál er bætt við eftir þörfum. Fylgst er með máli frá því að það kemur fram á þinginu og upplýsingum bætt við eftir því sem fram vindur. Þær eru að mestu fengnar úr texta frumvarps og umsagna, en tengt er í efni á öðrum vefjum eftir því sem tilefni er til. Tenglar í efni sem ekki er á vef Alþingis geta breyst og eru birtir án ábyrgðar. Umfjöllunin á að vera óhlutdræg en ekki er hægt að gera ráð fyrir að hún sé tæmandi. Samantektin er ekki hluti af þinglegri meðferð né formlegum skjölum þingmálsins.

Allar ábendingar og athugasemdir eru vel þegnar og má senda þær á netfangið upplysing@althingi.is.