Samantekt um þingmál

Búvörulög o.fl.

680. mál á 145. löggjafarþingi.
Sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra.

Markmið

Að styðja innlenda landbúnaðarframleiðslu.

Helstu breytingar og nýjungar

Lagabreytingarnar tengjast fjórum rammasamningum, þ.e. um almenn starfsskilyrði landbúnaðarins og samninga fyrir garðyrkju, sauðfjárrækt og nautgriparækt. Helstu breytingarnar snúa að nautgriparækt en þar verður vægi greiðslna út á innvegna mjólk auk gripagreiðslna aukið en á móti mun vægi greiðslna út á greiðslumark verða þrepað niður og núverandi opinber verðlagning á mjólk felld niður. Í sauðfjárrækt verður vægi gæðastýringar aukið og greiðslur út á greiðslumark þrepaðar niður á móti. Tekinn verður upp býlisstuðningur á árinu 2018 en honum er einkum ætlað að styðja við fjölskyldubú og gripagreiðslur árið 2020. 

Breytingar á lögum og tengd mál

Breyta á búvörulögum nr. 99/1993 og búnaðarlögum nr. 70/1998 auk lítilsháttar breytinga á tollalögum nr. 80/2005.

Kostnaður og tekjur

Gert er ráð fyrir 12,8 milljarða útgjöldum í ár en ríflega 13,5 milljarða árlegum útgjöldum árin 2017-2019.

Afgreiðsla

Samþykkt með lítilsháttar breytingum en gert ráð fyrir endurskoðun og hugsanlegri endurnýjun 2019 og 2023.

Aðrar upplýsingar

Sókn í landbúnaði - nýir búvörusamningar. Kynning atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytis á nýjum búvörusamningum ásamt rammasamningi og búvörusamningum um sauðfé, nautgriparækt og garðyrkju. 19.febrúar, 2016.
Mjólkurvöruframleiðsla á Íslandi – Staða og horfur. Hagfræðistofnun, 2015.
Markmið og forsendur sauðfjárræktarsamnings. Rannsóknamiðstöð Háskólans á Akureyri, 2015.


Síðast breytt 14.09.2016. Tenglar í efni sem ekki er á vef Alþingis geta breyst og eru birtir án ábyrgðar. Unnið af starfsfólki upplýsinga- og rannsóknaþjónustu Alþingis.

Um samantektir

Samantektir um þingmál hafa verið birtar á vef Alþingis síðan á 141. þingi (2012-2013). Markmiðið er að setja fram í stuttu máli greinargóðar upplýsingar um þingmál og að tengja í efni sem gæti skýrt það frekar.

Samantektir eru einkum unnar um stjórnarfrumvörp en upplýsingum um önnur mál er bætt við eftir þörfum. Fylgst er með máli frá því að það kemur fram á þinginu og upplýsingum bætt við eftir því sem fram vindur. Þær eru að mestu fengnar úr texta frumvarps og umsagna, en tengt er í efni á öðrum vefjum eftir því sem tilefni er til. Tenglar í efni sem ekki er á vef Alþingis geta breyst og eru birtir án ábyrgðar. Umfjöllunin á að vera óhlutdræg en ekki er hægt að gera ráð fyrir að hún sé tæmandi. Samantektin er ekki hluti af þinglegri meðferð né formlegum skjölum þingmálsins.

Allar ábendingar og athugasemdir eru vel þegnar og má senda þær á netfangið upplysing@althingi.is.