Samantekt um þingmál

Almannatryggingar o.fl.

857. mál á 145. löggjafarþingi.
Félags- og húsnæðismálaráðherra.

Markmið

Að styðja aldraða til sjálfsbjargar og hvetja til atvinnuþátttöku, einfalda almannatryggingakerfið og bæta samspil þess við lífeyrissjóðakerfið. Einnig hefur frumvarpið það markmið að bregðast við þeim áskorunum sem samfélagið stendur frammi fyrir vegna hækkaðs hlutfalls eldri borgara af mannfjölda og lengri meðalævi.

Helstu breytingar og nýjungar

Lagðar eru til breytingar á bótakerfi almannatrygginga, en bótaflokkar verða sameinaðir og reiknireglur einfaldaðar. Í frumvarpinu eru ákvæði um sveigjanleg starfslok, hækkun lífeyristökualdurs í 70 ár og lagt er til tilraunaverkefni um nýtt greiðslufyrirkomulag um greiðsluþátttöku íbúa á dvalar- og hjúkrunarheimilum.

Breytingar á lögum og tengd mál

Lög um almannatryggingar nr. 100/2007.
Lög um félagslega aðstoð nr. 99/2007.
Lög um málefni aldraðra nr. 125/1999.
  • Skylt mál: Almannatryggingar, 150. mál (velferðarnefnd) á 146. þingi (21.02.2017)

Kostnaður og tekjur

Kostnaðaraukning ríkissjóðs af nýju kerfi er áætluð um 5,3 milljarðar kr. á árinu 2017 en fer síðan lækkandi ár frá ári. Gert er ráð fyrir að áhrif hækkunar á ellilífeyrisaldri vegi upp á móti hækkun vegna kerfisbreytingarinnar eftir u.þ.b. tíu ár. Á þessum tíu árum er áætluð kostnaðaraukning ríkissjóðs vegna breytinganna um 33 milljarðar kr. eða 3,3 milljarðar kr. að meðaltali á núgildandi verðlagi.

Afgreiðsla

Frumvarpið varð að lögum með nokkrum breytingum, m.a. með þeim breytingum að sett var frítekjumark sem gildir um allar tekjur. Lífeyrisgreiðslur almannatrygginga nema 300.000 kr. frá og með árinu 2018 í samræmi við kauptryggingu kjarasamninga á almennum vinnumarkaði.

Aðrar upplýsingar

Skýrsla nefndar um endurskoðun laga um almannatryggingar : ásamt sérálitum og bókunum. Velferðarráðuneytið, febrúar 2016. 

Löggjöf á Norðurlöndum

Danmörk
Bekendtgørelse af lov om social pension LBK nr 10 af 12/01/2015.

Noregur
Lov om folketrygd (folketrygdloven) LOV-1997-02-28-19

Svíþjóð
Socialförsäkringsbalk ( 2010:110).



Síðast breytt 17.10.2016. Tenglar í efni sem ekki er á vef Alþingis geta breyst og eru birtir án ábyrgðar. Unnið af starfsfólki upplýsinga- og rannsóknaþjónustu Alþingis.

Um samantektir

Samantektir um þingmál hafa verið birtar á vef Alþingis síðan á 141. þingi (2012-2013). Markmiðið er að setja fram í stuttu máli greinargóðar upplýsingar um þingmál og að tengja í efni sem gæti skýrt það frekar.

Samantektir eru einkum unnar um stjórnarfrumvörp en upplýsingum um önnur mál er bætt við eftir þörfum. Fylgst er með máli frá því að það kemur fram á þinginu og upplýsingum bætt við eftir því sem fram vindur. Þær eru að mestu fengnar úr texta frumvarps og umsagna, en tengt er í efni á öðrum vefjum eftir því sem tilefni er til. Tenglar í efni sem ekki er á vef Alþingis geta breyst og eru birtir án ábyrgðar. Umfjöllunin á að vera óhlutdræg en ekki er hægt að gera ráð fyrir að hún sé tæmandi. Samantektin er ekki hluti af þinglegri meðferð né formlegum skjölum þingmálsins.

Allar ábendingar og athugasemdir eru vel þegnar og má senda þær á netfangið rannsoknathjonusta@althingi.is.