Samantekt um þingmál

Útlendingar

236. mál á 146. löggjafarþingi.
Dómsmálaráðherra.

Markmið

Að taka af vafa varðandi frestun réttaráhrifa ákvarðana Útlendingastofnunar í hælismálum og veitingu dvalarleyfa á grundvelli hjúskapar eða sambúðar.

Helstu breytingar og nýjungar

Í frumvarpinu er skýrt kveðið á um að kæra fresti ekki réttaráhrifum ákvörðunar Útlendingastofnunar um að umsækjandi um alþjóðlega vernd skuli yfirgefa landið þegar Útlendingastofnun hefur metið umsókn hans bersýnilega tilhæfulausa og hann kemur frá ríki sem er á lista stofnunarinnar yfir örugg upprunaríki. Einnig er fellt brott ákvæði um að ráðherra geti í reglugerð mælt fyrir um málsmeðferð kærunefndar við afgreiðslu beiðna um frestun réttaráhrifa. Loks er fellt brott það skilyrði að hjúskapur þurfi að hafa varað í eitt ár eða lengur til að geta orðið grundvöllur veitingar dvalarleyfis. Í stað þess eigi skilyrði ákvæðisins um tímalengd eingöngu við um sambúð.

Breytingar á lögum og tengd mál

Lög um útlendinga, nr. 80/2016.

Kostnaður og tekjur

Gert er ráð fyrir að útgjöld ríkissjóðs vegna hælismála verði lægri en ella hefði orðið, en kostnaður við hvern umsækjanda í þjónustu er 8.000 kr. fyrir hvern dag sem þeir dvelja í þjónustu.

Afgreiðsla

Frumvarpið var samþykkt með lítils háttar breytingum.



Síðast breytt 20.09.2017. Tenglar í efni sem ekki er á vef Alþingis geta breyst og eru birtir án ábyrgðar. Unnið af starfsfólki upplýsinga- og rannsóknaþjónustu Alþingis.

Um samantektir

Samantektir um þingmál hafa verið birtar á vef Alþingis síðan á 141. þingi (2012-2013). Markmiðið er að setja fram í stuttu máli greinargóðar upplýsingar um þingmál og að tengja í efni sem gæti skýrt það frekar.

Samantektir eru einkum unnar um stjórnarfrumvörp en upplýsingum um önnur mál er bætt við eftir þörfum. Fylgst er með máli frá því að það kemur fram á þinginu og upplýsingum bætt við eftir því sem fram vindur. Þær eru að mestu fengnar úr texta frumvarps og umsagna, en tengt er í efni á öðrum vefjum eftir því sem tilefni er til. Tenglar í efni sem ekki er á vef Alþingis geta breyst og eru birtir án ábyrgðar. Umfjöllunin á að vera óhlutdræg en ekki er hægt að gera ráð fyrir að hún sé tæmandi. Samantektin er ekki hluti af þinglegri meðferð né formlegum skjölum þingmálsins.

Allar ábendingar og athugasemdir eru vel þegnar og má senda þær á netfangið rannsoknathjonusta@althingi.is.