Samantekt um þingmál

Jöfn staða og jafn réttur kvenna og karla

437. mál á 146. löggjafarþingi.
Félags- og jafnréttismálaráðherra.

Markmið

Að stuðla að launajafnrétti kynjanna hér á landi með það að markmiði að uppræta kynbundinn launamun. Með því er leitast við að koma á og viðhalda því að einstaklingar sem vinna sömu eða jafnverðmæt störf hjá sama atvinnurekanda njóti sömu kjara.

Helstu breytingar og nýjungar

Lagt er til að fyrirtæki eða stofnun þar sem 25 eða fleiri starfa að jafnaði á ársgrundvelli skuli öðlast vottun (eða staðfestingu í sumum tilfellum) að undangenginni úttekt á jafnlaunakerfi fyrirtækisins eða stofnunarinnar, sem staðfestir að jafnlaunakerfið og framkvæmd þess uppfylli kröfur staðalsins ÍST 85. Lagt er til að Jafnréttisstofa haldi skrá yfir fyrirtæki og stofnanir sem öðlast hafa vottun og staðfestingu og birti hana á vef stofnunarinnar. Kveðið er á um að samtök aðila vinnumarkaðarins annist eftirlit með því að fyrirtæki og stofnanir þar sem 25 eða fleiri starfsmenn starfa að jafnaði á ársgrundvelli öðlist vottun eða staðfestingu og endurnýjun þar á.

Breytingar á lögum og tengd mál

Lög um jafna stöðu og jafnan rétt kvenna og karla nr. 10/2008.

Kostnaður og tekjur

Gert er ráð fyrir að fjölga þurfi um eitt stöðugildi hjá Jafnréttisstofu vegna þeirra nýju verkefna sem henni eru falin samkvæmt frumvarpinu og að kostnaður ríkissjóðs á fyrsta ári verði 14 m.kr. og síðan 13 m.kr. árlega.

Afgreiðsla

Frumvarpið var samþykkt með lítils háttar breytingum.

Aðrar upplýsingar

Skýrsla félags- og húsnæðismálaráðherra um stöðu og þróun jafnréttismála 2013–2015. Velferðarráðuneytið, nóvember 2015.

Launamunur karla og kvenna. Velferðarráðuneytið, maí 2015.

Staða kvenna og karla á íslenskum vinnumarkaði. Staðreyndir og staða þekkingar. Velferðarráðuneytið, maí 2015.



Síðast breytt 14.09.2017. Tenglar í efni sem ekki er á vef Alþingis geta breyst og eru birtir án ábyrgðar. Unnið af starfsfólki upplýsinga- og rannsóknaþjónustu Alþingis.

Um samantektir

Samantektir um þingmál hafa verið birtar á vef Alþingis síðan á 141. þingi (2012-2013). Markmiðið er að setja fram í stuttu máli greinargóðar upplýsingar um þingmál og að tengja í efni sem gæti skýrt það frekar.

Samantektir eru einkum unnar um stjórnarfrumvörp en upplýsingum um önnur mál er bætt við eftir þörfum. Fylgst er með máli frá því að það kemur fram á þinginu og upplýsingum bætt við eftir því sem fram vindur. Þær eru að mestu fengnar úr texta frumvarps og umsagna, en tengt er í efni á öðrum vefjum eftir því sem tilefni er til. Tenglar í efni sem ekki er á vef Alþingis geta breyst og eru birtir án ábyrgðar. Umfjöllunin á að vera óhlutdræg en ekki er hægt að gera ráð fyrir að hún sé tæmandi. Samantektin er ekki hluti af þinglegri meðferð né formlegum skjölum þingmálsins.

Allar ábendingar og athugasemdir eru vel þegnar og má senda þær á netfangið rannsoknathjonusta@althingi.is.