Samantekt um þingmál

Þjónusta við fatlað fólk með langvarandi stuðningsþarfir

26. mál á 148. löggjafarþingi.
Félags- og jafnréttismálaráðherra.

Markmið

Að innleiða viðeigandi ákvæði samnings Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks inn í íslenska löggjöf, að endurskoða ýmis ákvæði er lúta að hlutverki og valdheimildum ráðuneytisins og að tryggja í sessi notendastýrða persónulega aðstoð (NPA). 

Helstu breytingar og nýjungar

Gert er ráð fyrir að lögin gildi um fatlaða einstaklinga sem þurfa þjónustu í meira en 10-15 klukkustundir á viku. Ákvæði laga um félagsþjónustu sveitarfélaga gilda um þá sem þurfa minni aðstoð. Lagt er til að ráðherra verði veitt heimild til að skera úr ágreiningi um hvort reglur sveitarfélags séu í samræmi við lögin og að hann geti beitt þvingunarheimildum samkvæmt sveitarstjórnarlögum ef sveitarfélög bregðast ekki við löglegum fyrirmælum. Einnig er lagt til að sveitarfélögum sé í sjálfsvald sett að ákveða hvernig og að hvaða marki þau starfa saman að þjónustu við fatlað fólk. Lagt er til að þjónustuformið NPA, sem hingað til hefur verið starfrækt sem tilraunaverkefni, verði lögfest. Frumvarpið felur í sér nýtt ákvæði er lýtur að frístundaþjónustu við fatlaða nemendur sem og úrræði fyrir börn með miklar samþættar geð- og þroskaraskanir. Gert er ráð fyrir að sett verði lagastoð undir framtíðarskipan atvinnumála fatlaðs fólks sem byggist á viljayfirlýsingu ríkis og sveitarfélaga. Enn fremur er lagt til að sveitarfélögum beri að upplýsa einstaklinga um hvaða þjónustu þeir eigi rétt á og hvaða úrræði þeim standi til boða á meðan beðið er eftir að þjónusta sem hefur verið samþykkt hefjist. Að auki er kveðið á um að sveitarfélagi beri að rökstyðja skriflega þegar umsókn er hafnað að fullu eða að hluta. Lagt er til að lögfest verði samráðsnefnd um málefni fatlaðs fólks og að ráðherra beri skylda til að leggja fram á Alþingi tillögu til þingsályktunar um framkvæmdaáætlun í málefnum fatlaðs fólks.

Breytingar á lögum og tengd mál

Um er að ræða ný lög sem koma í stað laga um málefni fatlaðs fólks.

Kostnaður og tekjur

Gert er ráð fyrir að eftirfarandi atriði muni leiða til 967 milljóna kr. kostnaðarauka fyrir ríkissjóð: NPA, frístundaþjónusta við fatlaða nemendur, húsnæðisúrræði og tengd búsetuþjónusta fyrir börn með fjölþættan vanda og atvinnumál fatlaðs fólks.

Afgreiðsla

Samþykkt með nokkrum breytingum sem snúa m.a. að heiti laganna, skilgreiningum og orðalagi. Einnig var fellt brott 67 ára aldurstakmark sem var í 3. gr. frumvarpsins og lágmarksþjónustuþörf verður miðuð við 15 klst. á viku. Enn fremur er gildistöku laganna frestað til 1. október 2018.

Aðrar upplýsingar

Skýrsla nefndar um samhæfða þjónustu við börn með alvarlegar þroska- og geðraskanir. Velferðarráðuneytið, nóvember 2013.

Viljayfirlýsing um framtíðarskipan atvinnumála fatlaðs fólks. September 2015.

Skilagrein verkefnisstjórnar um notendastýrða persónulega aðstoð. Janúar 2017.



Síðast breytt 30.04.2018. Tenglar í efni sem ekki er á vef Alþingis geta breyst og eru birtir án ábyrgðar. Unnið af starfsfólki upplýsinga- og rannsóknaþjónustu Alþingis.

Um samantektir

Samantektir um þingmál hafa verið birtar á vef Alþingis síðan á 141. þingi (2012-2013). Markmiðið er að setja fram í stuttu máli greinargóðar upplýsingar um þingmál og að tengja í efni sem gæti skýrt það frekar.

Samantektir eru einkum unnar um stjórnarfrumvörp en upplýsingum um önnur mál er bætt við eftir þörfum. Fylgst er með máli frá því að það kemur fram á þinginu og upplýsingum bætt við eftir því sem fram vindur. Þær eru að mestu fengnar úr texta frumvarps og umsagna, en tengt er í efni á öðrum vefjum eftir því sem tilefni er til. Tenglar í efni sem ekki er á vef Alþingis geta breyst og eru birtir án ábyrgðar. Umfjöllunin á að vera óhlutdræg en ekki er hægt að gera ráð fyrir að hún sé tæmandi. Samantektin er ekki hluti af þinglegri meðferð né formlegum skjölum þingmálsins.

Allar ábendingar og athugasemdir eru vel þegnar og má senda þær á netfangið rannsoknathjonusta@althingi.is.