Samantekt um þingmál

Breyting á ýmsum lögum vegna fjárlaga 2018

3. mál á 148. löggjafarþingi.
Fjármála- og efnahagsráðherra.

Markmið

Að breyta ýmsum lögum sem tengjast tekju- eða gjaldahlið ríkissjóðs í samræmi við forsendur fjárlagafrumvarps fyrir árið 2018.

Helstu breytingar og nýjungar

Lagt er til að tekjuskattur af fjármagnstekjum verði hækkaður um tvö prósentustig og að viðmiðunarfjárhæðir barnabóta verði hækkaðar. Gert er ráð fyrir að bráðabirgðaákvæði sem kveður á um lækkun vörugjalds af fólksbílum sem ætlaðar eru til útleigu hjá bílaleigum verði framlengt um eitt ár. Að auki er sett sérstakt 100.000 kr. frítekjumark vegna atvinnutekna ellilífeyrisþega sem gildi einnig um greiðslu heimilisuppbótar sem greiðist þeim ellilífeyrisþegum sem halda einir heimili. Lagt er til að tímabundin heimild til að fella niður virðisaukaskatt, eða telja til undanþeginnar veltu fjárhæð að ákveðnu hámarki við innflutning og skattskylda sölu rafmagns-, vetnis- eða tengiltvinnbifreiða, verði framlengd um þrjú ár og settar takmarkanir á fjölda bíla sem undir hana geta fallið. Einnig er gert ráð fyrir að kolefnisgjald hækki um 50%. Flestar aðrar breytingar eru minniháttar og tengjast framlengingu bráðabirgðaákvæða og gjaldskrárhækkunum.

Breytingar á lögum og tengd mál

Alls er verið að breyta 23 lögum.

Kostnaður og tekjur

Gjöld

Hækkanir á viðmiðunarfjárhæðum og tekjuviðmiðunarmörkum barnabóta leiða til þess að barnabætur verði 10,5 milljarðar kr. á árinu 2018 eða sem nemur tæplega 10% aukningu miðað við árið áður. Tillaga frumvarpsins um óbreyttar viðmiðanir vaxtabótakerfisins leiðir til þess að útgjöld vegna vaxtabóta lækka um 500 millj. kr. á milli ára. Gert er ráð fyrir að eins árs framlenging á bráðabirgðaákvæði sem kveður á um lækkun vörugjalds af fólksbifreiðum sem ætlaðar eru til útleigu hjá ökutækjaleigum hafi neikvæð áhrif á ríkissjóð sem nemi um 1,5 milljörðum kr.

Tekjur

Tekjuáhrif hækkunar fjármagnstekjuskatts á ríkissjóð eru áætluð 1,6 milljarðar kr. árið 2018 en 2,6 milljarðar kr. árlega eftir það. Gert er ráð fyrir að verðlagsuppfærsla krónutölugjalda (áfengi, tóbak, eldsneyti og bifreiðagjöld) auki tekjur ríkissjóðs um 1,3 milljarða kr. Sú lagabreyting sem lögð er til í frumvarpinu um undanþágu frá virðisaukaskatti að ákveðnu hámarki við innflutning og skattskylda sölu rafmagns-, vetnis- eða tengiltvinnbifreiða, að tilteknum skilyrðum uppfylltum, er talin lækka tekjur ríkissjóðs um 2 milljarða kr. á árinu 2018 en áhrifin munu aukast næstu ár þar á eftir. Viðbótartekjur ríkissjóðs af tillögu um helmingshækkun kolefnisgjalds eru áætlaðar vera um 2 milljarðar kr. árlega að meðtöldum hliðaráhrifum á virðisaukaskatt. Áætlaður kostnaður vegna sérstaks frítekjumarks vegna atvinnutekna ellilífeyrisþega nemur um 1,5 milljörðum kr. á ári.

Afgreiðsla

Samþykkt með nokkrum breytingum er varða m.a. frítekjumark vaxtatekna, tekjuskattshlutfall ákveðinna lögaðila og skattlagningu metanólbifreiða.



Síðast breytt 02.01.2018. Tenglar í efni sem ekki er á vef Alþingis geta breyst og eru birtir án ábyrgðar. Unnið af starfsfólki upplýsinga- og rannsóknaþjónustu Alþingis.

Um samantektir

Samantektir um þingmál hafa verið birtar á vef Alþingis síðan á 141. þingi (2012-2013). Markmiðið er að setja fram í stuttu máli greinargóðar upplýsingar um þingmál og að tengja í efni sem gæti skýrt það frekar.

Samantektir eru einkum unnar um stjórnarfrumvörp en upplýsingum um önnur mál er bætt við eftir þörfum. Fylgst er með máli frá því að það kemur fram á þinginu og upplýsingum bætt við eftir því sem fram vindur. Þær eru að mestu fengnar úr texta frumvarps og umsagna, en tengt er í efni á öðrum vefjum eftir því sem tilefni er til. Tenglar í efni sem ekki er á vef Alþingis geta breyst og eru birtir án ábyrgðar. Umfjöllunin á að vera óhlutdræg en ekki er hægt að gera ráð fyrir að hún sé tæmandi. Samantektin er ekki hluti af þinglegri meðferð né formlegum skjölum þingmálsins.

Allar ábendingar og athugasemdir eru vel þegnar og má senda þær á netfangið rannsoknathjonusta@althingi.is.