Samantekt um þingmál

Réttindi og skyldur erlendra fyrirtækja sem senda starfsmenn tímabundið til Íslands o.fl.

468. mál á 148. löggjafarþingi.
Félags- og jafnréttismálaráðherra.

Markmið

Að veita íslenskum stjórnvöldum betri yfirsýn yfir stöðuna á innlendum vinnumarkaði hvað varðar starfsemi erlendra þjónustuveitenda. Að styrkja eftirlit á vinnumarkaði til að tryggja að laun og önnur starfskjör erlendra starfsmanna, sem sendir eru tímabundið hingað til lands á vegum erlendra fyrirtækja og erlendra starfsmanna á vegum starfsmannaleigna hérlendis, séu í samræmi við lög og gildandi kjarasamninga. Að stuðla að jafnri samkeppnisstöðu innlendra og erlendra fyrirtækja á innlendum vinnumarkaði.

Helstu breytingar og nýjungar

Lagðar eru til breytingar á lögum um réttindi og skyldur erlendra fyrirtækja sem senda starfsmenn tímabundið til Íslands og starfskjör starfsmanna þeirra. Lagðar eru til breytingar á ýmsum lögum sem gilda á innlendum vinnumarkaði, m.a. í því skyni að bregðast við tilteknum aðstæðum sem upp hafa komið við framkvæmd viðkomandi laga, s.s. í tengslum við eftirlit á vinnumarkaði. Lagt er til að kveðið verði á um svokallaða keðjuábyrgð notendafyrirtækja í byggingarstarfsemi og mannvirkjagerð. Jafnframt er lagt til að Vinnumálastofnun verði heimilt að leggja stjórnvaldssektir á fyrirtæki sem veita stofnuninni ekki upplýsingar og/eða aðgang að gögnum í samræmi við lög um réttindi og skyldur erlendra fyrirtækja sem senda starfsmenn tímabundið til Íslands og starfskjör starfsmanna þeirra, nr. 45/2007.

Breytingar á lögum og tengd mál

Lög um réttindi og skyldur erlendra fyrirtækja sem senda starfsmenn tímabundið til Íslands og starfskjör starfsmanna þeirra, nr. 45/2007.

Lög um starfsmannaleigur, nr. 139/2005.

Lög um vinnustaðaskírteini og eftirlit á vinnustöðum, nr. 42/2010.

Lög um atvinnuréttindi útlendinga, nr. 97/2002.

Lög um aðbúnað, hollustuhætti og öryggi á vinnustöðum, nr. 46/1980.

Lög um frjálsan atvinnu- og búseturétt launafólks innan Evrópska efnahagssvæðisins, nr. 105/2014.

Kostnaður og tekjur

Ekki er gert ráð fyrir auknum útgjöldum ríkissjóðs.

Afgreiðsla

Samþykkt með þeirri breytingu að 27. gr. frumvarpsins er felld brott þar sem ekki er um eiginlega innleiðingu á Evróputilskipun að ræða heldur lögfestingu á efnisreglum hennar. Í stað 27. gr. var bætt við bráðabirgðaákvæði um skipun nefndar til að fylgjast með aðstæðum á vinnumarkaði og leggja til við ráðherra að lögum þessum verði breytt verði aðstæður á vinnumarkaði með þeim hætti að mikilvægt þyki að kveða á um að ábyrgð notendafyrirtækja skv. 11. gr. a gildi um notendafyrirtæki í öðrum atvinnugreinum en byggingarstarfsemi eða mannvirkjagerð.

Aðrar upplýsingar

Tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins 2014/67/ESB frá 15. maí 2014 um framfylgd tilskipunar 96/71/EB um störf útsendra starfsmanna í tengslum við veitingu þjónustu og um breytingu á reglugerð (ESB) nr. 1024/2012 um samvinnu á sviði stjórnsýslu fyrir tilstilli upplýsingakerfisins fyrir innri markaðinn („reglugerðin um IM-upplýsingakerfið“).

Tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins 2014/54/ESB frá 16. apríl 2014 um ráðstafanir til að greiða fyrir því að launþegar geti nýtt sér þau réttindi sem þeir hafa í tengslum við frjálsa för launþega.

Reglugerð Evrópuþingsins og ráðsins (ESB) nr. 492/2011 frá 5. apríl 2011 um frjálsa för launafólks innan Sambandsins.Síðast breytt 11.06.2018. Tenglar í efni sem ekki er á vef Alþingis geta breyst og eru birtir án ábyrgðar. Unnið af starfsfólki upplýsinga- og rannsóknaþjónustu Alþingis.

Um samantektir

Samantektir um þingmál hafa verið birtar á vef Alþingis síðan á 141. þingi (2012-2013). Markmiðið er að setja fram í stuttu máli greinargóðar upplýsingar um þingmál og að tengja í efni sem gæti skýrt það frekar.

Samantektir eru einkum unnar um stjórnarfrumvörp en upplýsingum um önnur mál er bætt við eftir þörfum. Fylgst er með máli frá því að það kemur fram á þinginu og upplýsingum bætt við eftir því sem fram vindur. Þær eru að mestu fengnar úr texta frumvarps og umsagna, en tengt er í efni á öðrum vefjum eftir því sem tilefni er til. Tenglar í efni sem ekki er á vef Alþingis geta breyst og eru birtir án ábyrgðar. Umfjöllunin á að vera óhlutdræg en ekki er hægt að gera ráð fyrir að hún sé tæmandi. Samantektin er ekki hluti af þinglegri meðferð né formlegum skjölum þingmálsins.

Allar ábendingar og athugasemdir eru vel þegnar og má senda þær á netfangið upplysing@althingi.is.