Samantekt um þingmál

Íslandsstofa

492. mál á 148. löggjafarþingi.
Utanríkisráðherra.

Markmið

Að efla samstarf atvinnulífs og stjórnvalda við markaðsstarf á erlendum mörkuðum, auka samþættingu og samstarf þeirra aðila sem að því koma. Að nýta fjármuni með markvissari hætti. Að skýra stjórnsýslulega stöðu Íslandsstofu með því að marka henni stöðu sjálfseignarstofnunar.

Helstu breytingar og nýjungar

Lagt er til að sett verði á fót útflutnings- og markaðsráð sem gegni lykilhlutverki varðandi mótun langtímastefnu og eftirfylgni hennar. Hnykkt er á stöðu Íslandsstofu sem þungamiðju í samstarfi atvinnulífs og stjórnvalda í markaðsstarfi á erlendri grundu, m.a. með því að mæla fyrir um skýrt hlutverk hennar í mótun langtímastefnu og framkvæmd hennar. Lagt er til að rekstrarformi Íslandsstofu verði breytt til að skýrt sé að Íslandsstofa sé rekin sem sjálfseignarstofnun á einkaréttarlegum grunni í samstarfi atvinnulífs og stjórnvalda. Gert er ráð fyrir að með ítarlegum hætti verði mælt fyrir um skyldur Íslandsstofu gagnvart stjórnvöldum í sérstökum þjónustusamningi. Lagt er til að mælanlegum markmiðum og mælikvörðum sé beitt í markmiðssetningu og áætlanagerð sem stjórn Íslandsstofu fylgist með og bregst við eftir atvikum. 

Breytingar á lögum og tengd mál

Lög um Íslandsstofu, nr. 38/2010.

Kostnaður og tekjur

Ekki er gert ráð fyrir að frumvarpið hafi í för með sér aukin útgjöld fyrir ríkissjóð.

Afgreiðsla

Samþykkt með allnokkrum breytingum, m.a. þeim að hnykkt er á því að Íslandsstofa sé einkaréttarlegur aðili og að upplýsingalög og stjórnsýslulög skuli gilda um starfsemi Íslandsstofu. Hins vegar var ekki samþykkt að undanskilja samkeppnislög og lög um opinber innkaup sérstaklega. Bætt var við tveimur fulltrúum og einum ráðherra í fyrirhugað útflutnings- og markaðsráð. Fulltrúar í stjórn Íslandsstofu verða sjö en ekki fimm eins og lagt var til í frumvarpinu. Í bráðabirgðaákvæði við lögin er ráðherra falið að skipa starfshóp í samráði við forsætisráðherra, ferðamála-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra og fjármála- og efnahagsráðherra. Starfshópurinn skal undirbúa lagasetningu um nýtt félagaform sem taki til starfsemi stjórnvalda og atvinnulífs eins og við á um Íslandsstofu. Að auki skal gerð úttekt á starfsemi Íslandsstofu og útflutnings- og markaðsráðs að þremur árum liðnum og lagt mat á hvort markmið laganna hafi náð fram að ganga. Enn fremur var gildistöku laganna frestað til 1. september 2018.

Aðrar upplýsingar

Áfram Ísland. Endurskoðun á stefnumörkun og skipulagi útflutningsþjónustu og markaðsstarfs. Starfshópur utanríkisráðherra um útflutningsaðstoð og markaðssetningu á vöru og þjónustu frá Íslandi, janúar 2015.Síðast breytt 13.06.2018. Tenglar í efni sem ekki er á vef Alþingis geta breyst og eru birtir án ábyrgðar. Unnið af starfsfólki upplýsinga- og rannsóknaþjónustu Alþingis.

Um samantektir

Samantektir um þingmál hafa verið birtar á vef Alþingis síðan á 141. þingi (2012-2013). Markmiðið er að setja fram í stuttu máli greinargóðar upplýsingar um þingmál og að tengja í efni sem gæti skýrt það frekar.

Samantektir eru einkum unnar um stjórnarfrumvörp en upplýsingum um önnur mál er bætt við eftir þörfum. Fylgst er með máli frá því að það kemur fram á þinginu og upplýsingum bætt við eftir því sem fram vindur. Þær eru að mestu fengnar úr texta frumvarps og umsagna, en tengt er í efni á öðrum vefjum eftir því sem tilefni er til. Tenglar í efni sem ekki er á vef Alþingis geta breyst og eru birtir án ábyrgðar. Umfjöllunin á að vera óhlutdræg en ekki er hægt að gera ráð fyrir að hún sé tæmandi. Samantektin er ekki hluti af þinglegri meðferð né formlegum skjölum þingmálsins.

Allar ábendingar og athugasemdir eru vel þegnar og má senda þær á netfangið upplysing@althingi.is.