Samantekt um þingmál

Afleiðuviðskipti, miðlægir mótaðilar og afleiðuviðskiptaskrár

93. mál á 148. löggjafarþingi.
Stjórnarfrumvarp. Fjármála- og efnahagsráðherra.

Markmið

Að auka gagnsæi í afleiðuviðskiptum, draga úr kerfisáhættu, sem getur stafað af slíkum viðskiptum, og stuðla að fjármálastöðugleika. 

Helstu breytingar og nýjungar

Með samþykkt frumvarpsins yrði reglugerð Evrópuþingsins og ráðsins (ESB) nr. 648/2012 um OTC (over-the-counter)-afleiður, miðlæga mótaðila og afleiðuviðskiptaskrár (European Market Infrastructure Regulation, EMIR) innleidd í íslensk lög. Lagt er til að tilkynnt skuli um afleiðusamninga til afleiðuviðskiptaskrár, sem er nýr starfsleyfisskyldur aðili á fjármálamarkaði sem safnar saman og viðheldur gögnum um afleiður. Einnig er lagt til að stöðustofna skuli tiltekna OTC-afleiðusamninga hjá miðlægum mótaðila, þ.e. þá samninga sem eru afleiðusamningar sem ekki eru með viðskipti á skipulegum verðbréfamarkaði. Með stöðustofnun er átt við ferlið við að stofna stöður, þ.m.t. útreikning á hreinni skuldbindingu, og við að tryggja að fjármálagerningar, reiðufé, eða hvort tveggja, sé til staðar til að tryggja áhættuskuldbindingar sem leiðir af stöðunum. Miðlægur mótaðili er nýr starfsleyfisskyldur aðili á fjármálamarkaði sem stillir sér upp á milli aðila og verður nýr kaupandi gagnvart hverjum seljanda og öfugt. Hann gerir kröfur um tryggingar til að lágmarka áhættu við uppgjör og kemur þannig í veg fyrir keðjuverkun vanskila á markaði. Að auki eru gerðar nýjar kröfur um áhættustýringu vegna allra tvíhliða OTC-afleiðna sem ekki eru stöðustofnaðar miðlægt. Enn fremur myndi samþykkt frumvarpsins skapa umgjörð um starfsemi miðlægra mótaðila og afleiðuviðskiptaskráningar. 

Breytingar á lögum og tengd mál

Um er að ræða ný lög, en með gildistöku laganna verða breytingar á lögum um öryggi fyrirmæla í greiðslukerfum og verðbréfauppgjörskerfum, nr. 90/1999.

Kostnaður og tekjur

Gert er ráð fyrir að verkefni Fjármálaeftirlitsins muni aukast sem nemur ½–1 stöðugildi miðað við núverandi aðstæður eða sem samsvarar 8–16 milljónum kr. á ársgrundvelli.

Afgreiðsla

Frumvarpið var samþykkt með lítils háttar breytingum.

Aðrar upplýsingar

Reglugerð Evrópuþingsins og ráðsins (ESB) nr. 648/2012 um OTC-afleiður, miðlæga mótaðila og afleiðuviðskiptaskrár.Síðast breytt 27.03.2018. Tenglar í efni sem ekki er á vef Alþingis geta breyst og eru birtir án ábyrgðar. Unnið af starfsfólki upplýsinga- og rannsóknaþjónustu Alþingis.

Um samantektir

Samantektir um þingmál hafa verið birtar á vef Alþingis síðan á 141. þingi (2012-2013). Markmiðið er að setja fram í stuttu máli greinargóðar upplýsingar um þingmál og að tengja í efni sem gæti skýrt það frekar.

Samantektir eru einkum unnar um stjórnarfrumvörp en upplýsingum um önnur mál er bætt við eftir þörfum. Fylgst er með máli frá því að það kemur fram á þinginu og upplýsingum bætt við eftir því sem fram vindur. Þær eru að mestu fengnar úr texta frumvarps og umsagna, en tengt er í efni á öðrum vefjum eftir því sem tilefni er til. Tenglar í efni sem ekki er á vef Alþingis geta breyst og eru birtir án ábyrgðar. Umfjöllunin á að vera óhlutdræg en ekki er hægt að gera ráð fyrir að hún sé tæmandi. Samantektin er ekki hluti af þinglegri meðferð né formlegum skjölum þingmálsins.

Allar ábendingar og athugasemdir eru vel þegnar og má senda þær á netfangið upplysing@althingi.is.